141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta  (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Spurningin er góð hjá hv. þingmanni og ekkert auðvelt að svara henni. Já, það komu fram veigamikil rök um háhitavirkjanirnar og hugsanlega hefðum við átt að komast að — að minnsta kosti var hægt að leiða rök að þeirri niðurstöðu að þær ætti meira og minna að setja í bið. Það er ekki bara hægt heldur hefur það verið gert því að fyrirvarar sumra af þeim sem tilheyra meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli eru þannig að þeir hafa lagt til að nokkrar jarðvarmavirkjanir fari í bið, ég nefni hv. þm. Atla Gíslason. Auðvitað var þetta rætt og niðurstaða mín var önnur en hv. þm. Atla Gíslasonar. Ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að mér þóttu þau rök sem komu fram, varúðarrök um háhitavirkjanirnar, í raun og veru eiga við um þær allar en ekki um einstakar virkjanir, eina öðrum fremur. Ég get þó líka gert fyrirvara á því, til dæmis eins og með Eldvörp og Svartsengi: Er það sama svæðið eða ekki? Það er ekki alveg ljóst. Þannig að erfitt var að taka út eina eða tvær eða þrjár eða fjórar virkjanir sem þarna var um að ræða.

Ég verð að treysta því og treysta umhverfislögum og skipulagslögum og sveitarstjórnum og fræðimönnum sem taka við könnun og ráðstöfunum eftir að við höfum lokið okkar þingsályktunartillögu hér um rammaáætlun til þess að fara ofan í þessi rök. Það sem við gerðum í meiri hlutanum með rökin um jarðvarmavirkjanirnar var að við gáfum þeim verulegt vægi. Við tókum heilan kafla í nefndarálitinu undir þær hættur sem eru fyrir hendi við jarðvarmavirkjanirnar og við vonum auðvitað að þær sem ráðist verður í gangi. Í niðurstöðum okkar setjum við ýmsar leiðbeiningar og athugasemdir sem í raun og veru (Forseti hringir.) eru eins konar forsendur fyrir þeirri ráðgjöf okkar til Alþingis að það samþykki tillöguna óbreytta. (Forseti hringir.)