141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir svörin og virði hann mikið fyrir þau. Ég á ekki sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd eða í atvinnuveganefnd og hef sennilega ekki kafað jafnmikið ofan í málin og þeir sem þar sitja. Ég sat þó einn fund í atvinnuveganefnd sem varamaður síðastliðið vor þegar akkúrat var verið að fjalla um það sem snýr að neðri hluta Þjórsár. Þar komu gestir margir og góðir og síðan komu fulltrúar Veiðimálastofnunar í restina. Ég verð að viðurkenna það að ég staldraði dálítið við Urriðafoss, ég skal alveg viðurkenna það. Mér fannst að menn mundu — enda held ég að skilningurinn sé sá að menn hafi það kannski síðast í röðinni, en ég staldra frekar við þær ábendingar og það sem kemur að þessum háhitavirkjunum, varúðarsjónarmið gagnvart þeim.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að miðað við þau gögn sem ég er að lesa á yfirborðinu, sem er auðvitað nefndarálitið sem er ítarlegt og gott og allt í lagi með það, þá finnst mér röksemdafærslur meiri hlutans vera miklu, miklu sterkari gagnvart háhitavirkjunum heldur en gagnvart vatnsaflsvirkjunum. Þá er ég fyrst og fremst að tala um Holta- og Hvammsvirkjun. Enda sagði hæstv. ráðherra í dag að það gildi varúðarsjónarmið gagnvart laxastofninum í Þjórsá en síðan væru almenn varúðarsjónarmið gagnvart þessum tveimur virkjunum sem eru Hvamms- og Holtavirkjun. Þannig að það er dálítið matskennt, sem við áttum okkur á, hvað í raun og veru hver og einn metur þetta varúðarsjónarmið. En ég fæ ekki samfellu í þessa tillögu hjá hæstv. ráðherrum að þessu leyti til, þetta slær mig þannig að ég hefði talið eðlilegra að þessar tvær virkjanir væru í nýtingu og menn mundu frekar staldra við á hinum stöðunum.