141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og verð að viðurkenna að þau ummæli sem hún vísaði til af hálfu hæstv. umhverfisráðherra hafa farið fram hjá mér. Ég var fjarstödd vegna starfa erlendis á vegum Alþingis í upphafi umræðunnar þannig að ég gæti hafa misst af þeim. Hins vegar hefði ég gjarnan viljað taka þá umræðu við hæstv. umhverfisráðherra vegna þess að í umsögn orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins frá því í janúar á þessu ári kemur fram skýr niðurstaða að þessar tvær virkjanir sem ég nefndi væru vel til þess fallnar að fara í nýtingarflokk. Það er rökstutt en er of langt mál til að rekja hérna. Hv. þingmaður sagði að það væri miklu stærra skref og hefði miklu meiri afleiðingar. Já, það er verið að taka ákvörðun um að nýta auðlindina að rannsökuðu máli og spurningin er: Hvað þarf að rannsaka meira varðandi þessar tvær virkjanir? Það er fullyrt að búið sé að athuga þau atriði sem gerðar voru athugasemdir við, meðal annars með tilliti til landfoks og uppgræðslu og hafa þau jákvæð áhrif á umhverfið. Það er afgerandi niðurstaða, það er verið að taka ákvörðun um að nýta auðlindina vegna þess að búið er að rannsaka þetta og þar erum við ósammála. Ég er alveg sammála því að það er stærra skref og það skyldi ekki tekið að óathuguðu máli en það er einmitt punkturinn. Málið er athugað, á því hef ég ekki fengið skýringar. Varðandi Reykjanesið þá ætla ég að koma betur inn á það í síðara andsvari.