141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég ætla að koma aðeins inn á mál sem tengist þessu óbeint.

Nú var Evrópuþingið að birta drög að ályktun sem meðal annars fjallar um endurnýjanlega orkugjafa okkar Íslendinga og er verið að segja fréttir af því í fjölmiðlum í dag. Þar segir, með leyfi herra forseta:

„Evrópuþingið hvetur Íslendinga til að skoða frekar möguleika á því að flytja út orku til Evrópu í gegnum sæstreng.“

Annars staðar segir í drögum sérlegs fulltrúa utanríkismálanefndar Evrópuþingsins í aðildarviðræðum Íslands og ESB að Evrópuþingið sé sannfært um að með nánari samvinnu á þessu sviði, þ.e. endurnýtanlegum orkugjöfum, geti Evrópusambandið stuðlað að fjárfestingu og þannig haft jákvæð áhrif á efnahag og atvinnu á Íslandi og í ESB. Því er hvatt til framþróunar, þ.e. athugunar á því að tengja raforkukerfi Íslands við meginland Evrópu í gegnum sæstreng.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í hans skoðun á þessu og hvort hann telji ekki ákveðinn tvískinnung fólginn í því, sérstaklega hjá þeim stjórnarliðum hér sem aðhyllast mjög aðildarviðræður að Evrópusambandinu, að í einu orði styðja tillögur frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þess efnis að hægt verði við virkjunaráform og í öðru orði vinna að undirbúningi þess að flytja út alla þá raforku sem þeir ætla ekki að framleiða á Íslandi. Ég vil spyrja út í það og skoðun hv. þingmanns á því hvort þetta tengist einhvern veginn og síðan spyrja út í skoðun hans almennt á því að flytja út raforku gegnum sæstreng til Evrópu. Hver er skoðun hv. þingmanns og stefna Sjálfstæðisflokksins í þeim málum?