141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af sæstrengnum vil ég segja að það er dálítið athyglisvert að nýlega kom út skýrsla sem er kennd við ráðgjafarfyrirtækið McKinsey og henni hefur verið hampað talsvert mikið enda gefur hún fullt tilefni til þess. Þetta er ákaflega vel unnin og athyglisverð skýrsla sem að mínu mati gæti verið góð leiðsögn fyrir okkur á margan hátt.

Hvað segir í þeirri skýrslu? Þeir meta til dæmis orkufyrirtækin okkar og komast að því að við höfum þar harla góða arðsemi. Þeir vekja athygli á því að ef við mælum þessa orkusölu okkar og skiptum henni niður þá virðist vera býsna góð arðsemi af sölunni til stóriðjunnar. Þeir segja hins vegar að hægt sé að ná meiri arðsemi, það er hægt að græða meira á sölu orkunnar. Og hvert er svarið? Það er sæstrengur. Ég tel að það eigi tvímælalaust að skoða þann kost. Við eigum ekki að slá neinu föstu. Ég er sammála því sem forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt. Það þurfi að fara fram efnisleg umræða um þetta. Það er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá því og það eigum við að gera. Síðan geta verið á því aðrar hliðar, atvinnusköpunin, áhrifin á orkuverðið hér innan lands o.s.frv. Þetta er umræða sem við eigum að taka.

Það sem ég er að segja er að hér hafa komið margir úr hópi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og sagt: Við getum ekki haldið áfram að búa til orku fyrir stóriðjuna því hún er ekki nógu hagkvæm. McKinsey-skýrslan segir okkur að hún sé ekki nógu hagkvæm. Það er út af fyrir sig rétt en þeir sleppa seinni hlutanum. Svarið sem McKinsey gefur er sæstrengurinn. Eru þessir hv. þingmenn að tala fyrir sæstrengnum? Af hverju segja þeir það þá ekki berum orðum? Eru þeir eitthvað feimnir við það?

Aðeins um Evrópu. Það sem er auðvitað athyglisvert að Evrópubúar búa ekki við endurnýjanlega vistvæna orkugjafa eins og við gerum. Það er öfundarefni þeirra.