141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit svo sem ekki hvaða hrossakaup Evrópusambandið er tilbúið til að fara í en það er alveg ljóst að við tölum um alveg óskyld mál, annars vegar orkuframleiðslu og hins vegar sjávarútvegsmál. Það er alveg hvor sinn málaflokkurinn og hagsmunir okkar blandast ekki saman við Evrópusambandsaðildarviðræður í þeim efnum. Ég óttast það auðvitað að Evrópusambandið muni seilast í sjávarauðlindir okkar Íslendinga í gegnum þann samning sem verið er að vinna að, ef hann verður þá einhvern tíma að veruleika.

Varðandi aftur á móti orkuframleiðslu hér á landi og mögulega sölu hennar og flutning með sæstreng til Evrópu þá er það mál í skoðun. Það er í mörg horn að líta þar. Ef farið verður að leggja raforkustreng frá Íslandi til Evrópu, eru grundvallaratriðin tvö í mínum huga, að við séum þess fullviss að við seljum eingöngu þá orku sem að öðrum kosti yrði ekki nýtt til framleiðsluuppbyggingar hér innan lands. Í öðru lagi yrði að girða fyrir að það hefði í för með sér einhverja verulega hækkun á raforkuverði til fyrirtækja og heimila á Íslandi. Það eru grundvallaratriði sem þarf að skoða. Síðan geta verið margir kostir í því að hafa streng á milli landanna. Það er auðvitað neikvætt og ákveðið óöryggi í því fyrir okkur að vera með þetta lokaða kerfi. Við erum með mikið af umframorku í kerfinu, en við verðum að skoða málið betur til að kanna hvort þetta er hagkvæmt og hvort eitthvert vit er í þessu og verið er að kanna það. Það þarf að kanna það með mjög gagnrýnum hætti og ég hef ekki myndað mér neina skoðun á því fyrir fram nema þá að ég vil að þau skilyrði sem ég fór inn á áðan verði algerlega uppfyllt.