141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og nýtingu landsvæða. Það er ljóst af þeirri umræðu sem hér fer fram að þingmenn eru ekki á eitt sáttir og það virðist eiga við um þingmenn í öllum flokkum.

Sagt hefur verið að hér takist á sjónarmið orkunýtingar annars vegar og hins vegar verndar og hér takist á, eins og það geti ekki farið saman, náttúruverndarsinninn og virkjunarsinninn. Menn setja þetta upp í flokka með eða móti.

En hvers vegna stöndum við hér enn og ræðum rammaáætlun? Hvers vegna erum við enn svona ósammála því sem birtist í þessari þingsályktunartillögu? Í mínum huga er það einfalt. Menn takast á um tillöguna einfaldlega vegna þeirra pólitísku fingrafara sem á henni eru.

Ef við stæðum hér og virtum niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar sem hina „réttu faglegu niðurstöðu“, sem væri sátt sem hægt væri að byggja á, værum við ekki hér að ræða rammaáætlun. Það er nokkuð ljóst. Vegna þess að það var sett í gang ferli til að ná sátt í jafnmikilvægu máli og við ræðum hér, sem er vernd og orkunýting landsvæða, var málið sett í ákveðinn farveg. Nú er það farið úr þeim farvegi og ég ítreka að við stæðum ekki í þessum sporum ef allir hefðu virt niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar sem hina faglegu niðurstöðu og menn hefðu látið vera að setja fingraför sín á þetta verkefni eins og raun ber vitni.

Þetta held ég að sé grunnurinn. Við sem ekki erum sátt við þá tillögu sem hér liggur fyrir og viljum að tillögur verkefnisstjórnarinnar verði þær sem ráði för og þingsályktunartillagan verði dregin til baka og viljum reyna að ná þeirri sátt sem verkefnisstjórnin náði erum vænd um málþóf. Nýjasta setningin er sú að minni hlutinn sé að koma í veg fyrir að meiri hlutinn geti greitt atkvæði. Ef það væri nú bara svo einfalt. Við viljum reyna að afmá þau pólitísku fingraför sem eru á rammaáætlun og virða niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar. Það geta ákveðnir þingmenn innan Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ekki fallist á. Þess vegna erum við í þessari umræðu sem stendur nú þriðja eða fjórða daginn.

En það er annað sem vert er að geta. Hér hefur verið vikið frá niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar og færðar þær virkjanir sem m.a. hagvaxtarspá byggir á, en hún er forsenda fjárlaga. Hagvaxtarspáin byggir á því að hér verði virkjað og það var samkomulag af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar um að það yrði eitt af því sem yrði gert. En þá er horfið frá öllum virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Það er horfið frá Hvammsvirkjun og Holtavirkjun og hvers vegna? Jú, vegna þess að talið er að Urriðafossvirkjun, verði hún sett á, hafi áhrif á stærstu laxveiðistofna landsins. En það er ekki heldur hægt að fara í hinar tvær vegna þessara athugasemda við Urriðafossvirkjun. Og ég ítreka það sem ég sagði áðan, þar með eru hagvaxtarspár sem forsendur fjárlaga ársins 2013 byggjast á brostnar, þær eru hreinlega brostnar vegna þessarar ákvörðunar. Þetta kallar á ákveðna stöðnun í atvinnulífinu, ekki síst í verktaka- og byggingargeiranum og ef ekki verður hægt í náinni framtíð að fara í þær tvær virkjanir sem ég nefndi held ég að margfræg fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem á að byggjast á sölu eigna og arðgreiðslum dugi satt best að segja skammt til að efla bæði hagvöxt og hagsæld til lengri tíma litið

Það er líka nokkuð merkilegt þegar maður les að það eigi til dæmis að færa Hagavatnsvirkjun, að mig minnir úr nýtingarflokki í það minnsta í biðflokk, ég held að ég fari rétt með frekar en hreinlega í vernd. (MÁ: Þú ferð rangt með.) Þá biðst ég afsökunar á því, virðulegur forseti, þá er væntanlega verið að færa Hagavatnsvirkjun í vernd (MÁ: … ekki verið að færa hana neitt.) eða halda henni í vernd (MÁ: Halda henni í bið.) vegna þess að menn eru ekki sammála um hvernig eigi að skoða þau umhverfisáhrif sem hugsanlega geta orðið vegna hennar. Sumir telja að í ljós hafi komið að virkjunin muni ekki draga úr sandfoki eins og upplýsingar hafa áður gefið til kynna. Vegna þess að nýjar upplýsingar hafa komið fram er Hagavatnsvirkjun í bið. Hún er það og menn ætla væntanlega að skoða þær nýju upplýsingar sem liggja fyrir og skoða frekar hvort virkjunin geti heft sandfok eður ei. Þess vegna er hún í bið.

Ef sömu rökum hefði verið beitt varðandi færslu Hvammsvirkjunar og Holtavirkjunar, hvað þá? Þá hefði ekki átt að færa neitt vegna þess að þar liggja allar upplýsingar fyrir og allt er klárt. En Urriðafossvirkjun fær ákveðna umsögn og þess vegna má færa hana til. Mér finnst stundum að innan þessa verkefnis sé röksemdafærslan ekki alltaf samkvæm sjálfri sér. Það kann vel að vera að menn séu mér ekki sammála í því og það verður þá svo að vera.

Mér finnst líka vera ákveðið ósamræmi í nefndaráliti meiri hlutans hvernig farið er með vatnsaflsvirkjanir og síðan jarðvarmavirkjanir. Ég nefndi Holtavirkjun og Hvammsvirkjun sem fátt bendir til að geti haft einhver varanleg áhrif á náttúru og umhverfið eða annað slíkt, en meiri hlutinn ákveður að setja í bið. En svo er ákveðið að taka jarðvarmavirkjanir og Reykjanesskagann allan eins og hann leggur sig í nýtingu þrátt fyrir athugasemdir sem flest ef ekki öll okkar hafa rætt um að áhrifin sem jarðvarmavirkjanir hafa séu okkur óljósari en áhrif vatnsaflsvirkjana. Þrátt fyrir að við þekkjum áhrifin af Hellisheiðarvirkjun á nálæg þéttbýlissvæði halda menn samt inni jarðvarmavirkjunum á Reykjanesi. Maður veltir fyrir sér af hverju þetta ósamræmi er eins og ég lít á að sé milli þessara tveggja flokka virkjunarkosta, jarðvarmavirkjana og vatnsaflsvirkjana.

Ég tel einboðið að hægt sé að leysa það ósætti sem ríkir með því að virða niðurstöðu verkefnisstjórnar sem hina faglega réttu niðurstöðu og sátt til að byggja á í náinni framtíð og til lengri framtíðar. Verði það gert verða fleiri sáttir en nú er við rammaáætlun vegna þess að þá höfum við fjarlægt af þingsályktunartillögunni þau pólitísku fingraför sem á henni eru.