141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kannast ekki við þá staðreynd sem hv. þingmaður er að vísa til, að um sérstakar virkjanir hafi verið samið í kjarasamningum eða í samningum við ríkisstjórnina.

Ég kannast heldur ekki við að sérstakar virkjanir liggi til grundvallar þeirri hagvaxtarspá sem fjárlögin byggja á. Ég veit að þar er gert ráð fyrir tilteknum fjárfestingum en sumar þeirra hafa brugðist, ekki vegna þess að virkjunarkostirnir hafi ekki legið fyrir heldur af ýmsum öðrum ástæðum. Álverið í Helguvík átti til dæmis að vera komið upp fyrir fimm eða sjö árum miðað við bjartsýnustu spár. Kannski hv. þingmaður skýri þetta betur.

Ég vil líka að hv. þingmaður skýri betur hvað hún á við með því sem hún kallar tillögur eða niðurstöður verkefnisstjórnarinnar. Ég kannast ekki við neinar tillögur eða niðurstöður verkefnisstjórnarinnar. Við verðum að halda ákveðinni nákvæmni í umræðu um þetta vandasama og umfangsmikla mál. Þegar menn tala um tilteknar niðurstöður eða tillögur eða hvað þeir eru að tala um þá verður að vera alveg á hreinu hvað þeir eiga við með því.

Ég veit að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vill eins og ég vanda sig og þess vegna spyr ég hana um þetta.

Um Hagavatnsvirkjun og samanburð hennar við virkjanirnar tvær í neðri hluta Þjórsár er það að segja að grundvallarmunurinn sem menn verða að skilja er sá að biðflokkurinn er til þess að hægt sé að rannsaka betur, afla meiri upplýsinga. Það er allajafna ekki hægt, a.m.k. hvað okkur varðar, þegar menn eru búnir að setja kostina annaðhvort í vernd eða orkunýtingu. Þess vegna er grundvallarmunur á því að ákveða að setja virkjunarkosti á landsvæði í biðflokk og því að setja þá annaðhvort í vernd eða orkunýtingu. Slíkar ákvarðanir verða að byggjast á faglegum grunni (Forseti hringir.) og þær verður að taka mjög vandlega en í biðflokknum er beðið eftir (Forseti hringir.) upplýsingum til að koma kostinum í verndar- eða orkunýtingu.