141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það sem hún sagði í raun og veru var það að ekki eru skrifaðar neinar sérstakar ákveðnar virkjanir inn í kjarasamninga, þríhliða samráð við ríkisvaldið eða í þá hagvaxtarspá sem hv. þingmaður talar um. Þar er að vísu gert ráð fyrir erlendum fjárfestingum sem hafa því miður brugðist að sumu leyti. Yfirleitt er það — og liggur við að ég segi því miður — ekki vegna þess að umhverfisverndarsinnar hafi staðið sig vel heldur er það allajafna vegna þess að ástandið utan lands, í Evrópu og í heiminum, hefur verið frekar bágt. Efnahagsástandið hefur ekki bara verið bágt hér þó að við höfum orðið fyrir verri áföllum en aðrir, sem hv. þingmaður þekkir vegna þess að hún tilheyrir þeim flokki sem er fyrst og fremst ábyrgur fyrir þeim áföllum, þ.e. hruninu, og þess vegna hefur meðal annars staðið á erlendum fjárfestingum.

Um tillögur eða niðurstöður verkefnisstjórnarinnar er það að segja að í nefndaráliti meiri hlutans er sérstakur kafli, nr. 5, sem ég tel mjög mikilvægt að þátttakendur í þessari umræðu kynni sér — ég er ekki að skipa fyrir — eða einhvern samsvarandi kafla. Í kaflanum er lýst gangi ferilsins í rammaáætlun og hann rakinn eftir sex verkþáttum. Það er mjög mikilvægt, finnst mér, til að halda nákvæmninni að menn viti hvað þeir eru að tala um hverju sinni. Það eru engar tillögur frá verkefnisstjórninni og engar niðurstöður liggja fyrir frá henni nema ef menn vilja tala um skoðanakönnunina og um röðun virkjunarkostanna þar sem einn virkjunarkostur er settur öðrum ofar og eitt landsvæði öðru neðar í mati hennar. Það komu hins vegar drög að þingsályktunartillögu frá formannahópnum. Það getur vel verið að hv. þingmaður sé að tala um þau, en munurinn á þeim drögum og þingsályktunartillögunni sem liggur fyrir er sá að sex virkjanir á tveimur landsvæðum eru settar í bið, þ.e. ekki er tekin endanleg ákvörðun um þær (Forseti hringir.) heldur á að afla um þær upplýsinga og fyrstu skýrslunni á að skila 1. mars 2014, minnir mig að sé, (Forseti hringir.) eftir sumsé eitt og hálft ár eða svo.