141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Það eru ýmsar spurningar sem enn er ósvarað í þessari umræðu. Við veltum því auðvitað fyrir okkur hvernig stendur á því, og ég nefndi það fyrr í dag, að hv. formaður umhverfisnefndar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir telur að hér stefni í stórslys verði sú tillaga sem hér liggur á borðinu samþykkt. Ég velti þá fyrir mér og vonast til að hv. þingmaður geti útskýrt áður en þessari umræðu lýkur hvort það þýði að hún muni greiða atkvæði með þessari tillögu eins og hún lítur nú út. Við þekkjum afstöðu hv. þingmanns eins og hún birtist í fyrirvörum við nefndarálit sem dreift var á dögunum en ég velti fyrir mér, þegar hv. þingmaður tekur þannig til orða í fjölmiðlum að verði tillagan samþykkt eins og hún lítur út núna stefni í stórslys, hvaða áhrif það komi til með að hafa á afstöðu hv. þingmanns.

Sama vildi ég segja með öðrum formerkjum um afstöðu hv. þingmanns Kristjáns Möllers, formanns atvinnuveganefndar. Hann hefur fært mörg og góð rök fyrir annarri niðurstöðu en þeirri sem birtist í áliti meiri hlutans og þeirri tillögu sem við ræðum frá hæstv. umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra. Getur hv. þm. Kristján Möller stutt tillögu sem hann hefur jafnmargar og veigamiklar efnislegar athugasemdir við eins og hann gerir? Ég velti því fyrir mér. Að mínu mati er afar mikilvægt að fá það fram í umræðunni því mér virðist eins og það hafi náðst einhvers konar samkomulag innan ríkisstjórnarflokkanna um að tryggt væri að tillaga ráðherranna, hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur og hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Oddnýjar Harðardóttur, yrði samþykkt hvað sem liði skoðunum einstakra þingmanna stjórnarflokkanna. Þeir fengju hins vegar í umræðum og kannski fyrirvörum að tjá sínar helstu óskir eins og til að útvega þeim fjarvistarsönnun frá niðurstöðu málsins.

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram. Hér hefur t.d. hv. þm. Kristján Möller tjáð sig með ágætum hætti í a.m.k. tveimur ræðum í þessari umræðu og gerir það líka í umsögn frá atvinnuveganefnd þar sem hann áréttar sérstaka fyrirvara af sinni hálfu. Þeir fyrirvarar benda til allt annarrar niðurstöðu en er að finna í þeirri tillögu sem á endanum er lagt til að við í þinginu samþykkjum óbreytta. Það sama á auðvitað við um hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem hefur frá sínum sjónarhóli og út frá sinni afstöðu útskýrt og rökstutt ágætlega aðra niðurstöðu en þá sem kemur fram í megintillögu umhverfis- og samgöngunefndar og þeirri tillögu sem hæstv. tveir ráðherrar hafa lagt fyrir.

Þá veltir maður fyrir sér: Hvað er eiginlega á ferðinni? Er einfaldlega um það að ræða að eftir mikið japl, jaml og fuður í ríkisstjórnarflokkunum hefðu menn komist að þeirri niðurstöðu að þingmenn með sterkar skoðanir á einstökum málum fengju að tjá sig hver í sína áttina, en þó yrði tryggt að tillagan eins og hún kom frá ráðherrunum yrði samþykkt óbreytt í þinginu? Er það niðurstaðan? Og er það kannski þess vegna sem staðan er sú að það er ekkert pláss af hálfu ríkisstjórnarflokkanna til að semja við stjórnarandstöðuna? Það er ekki pláss til að gefa neitt eftir. Það er ekki svigrúm til þess vegna þess að samningaferlið innan ríkisstjórnarflokkanna var það langt og flókið að það má ekki raska því með nokkrum hætti með því að eiga orðastað við stjórnarandstöðuna. Er það kannski þess vegna sem brugðist er ókvæða við þegar stjórnarandstaðan kemur hér og mótmælir þessu? Þegar hún færir fram rök fyrir öðrum leiðum, færir rök fyrir því að rétt sé að taka málið úr þeim farvegi sem það er nú í og setja það í einhvern annan farveg, að það fari aftur til verkefnisstjórnar eða sé vísað til ríkisstjórnar eða eitthvað þess háttar. Er það kannski vegna þess að samkomulagið innan ríkisstjórnarflokkanna um þessi mál er svo brothætt að það má ekki hrófla við neinu?

Það bárust af því fréttir síðasta vetur þegar á þeim mánuðum sem ráðherrarnir tveir höfðu málið til meðferðar, eftir að öllu formlegu umsagnarferli lauk og áður en málið birtist hér í þinginu, að það ætti að ganga þannig frá því innan (Forseti hringir.) ríkisstjórnarflokkanna að það mætti ekki breyta neinu þegar það kæmi í þingið. Er það kannski skýringin (Forseti hringir.) á þeim ósveigjanleika sem við í stjórnarandstöðunni verðum vör við þegar við höfum uppi gagnrýni á þessa tillögu?