141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þessa ræðu. Þetta eru afar athyglisverðar upplýsingar sem koma fram í ræðu hans sem ég hafði bara hreinlega ekki velt fyrir mér, ég verð að segja það alveg eins og er. En ég hef hins vegar velt því fyrir mér undanfarna daga hvers vegna í ósköpunum það er svo mikill ósveigjanleiki í þessu máli.

Mér er vel kunnugt um að margir fyrirvarar voru gerðir af ríkisstjórnarþingmönnunum í hv. utanríkismála- og samgöngunefnd varðandi hin og þessi atriði. Það er kannski það fríspil sem þingmenn stjórnarflokkanna hafa fengið að gera, að fá að skjóta sér þar með undan ábyrgð með því að setja fyrirvara á sitt nefndarálit og sínar skoðanir. Samt væri búið að koma af stað niðurstöðu í atkvæðagreiðslu á þessum forsendum. Ég verð að kalla það hrossakaup ef þetta reynist rétt, því þá eru menn að ganga gegn sannfæringu sinni í sjálfri atkvæðagreiðslunni bara við það eitt að setja fyrirvara.

Það er eitthvað mikið að í þessu máli og fréttir af samningafundum héðan frá í dag gefa tilefni til að álykta að einhvers staðar sé maðkur í mysunni vegna þess að nú situr hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar, en hún var hæstv. iðnaðarráðherra á sínum tíma þegar þetta plagg var búið til. Því spyr ég hv. þm. Birgi Ármannsson: Getur verið að hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hafi verið búnar að kokka upp það samkomulag sem birtist í plaggi þessu? Því sé (Forseti hringir.) meðvirknin svo mikil í þessu máli vegna þess að Reykjanesið var tekið fram yfir virkjunarkostina (Forseti hringir.) í Þjórsá og Þjórsársveitum.