141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa farið yfir tímamörk í fyrra andsvari mínu. Það sýnir hvað málið brennur á og er órætt.

Auðvitað getur hv. þm. Birgir Ármannsson svo sem ekki slegið neinni mælistiku á hvað hefur gerst í skjóli ráðherranna sem ég minntist á. En auðvitað er það sem sést á yfirborðinu á þessari fingrafaraskýrslu, sem nú er þingsályktunartillaga, að stefnumál Vinstri grænna um algera friðun Þjórsár er komið þarna inn auk Urriðafoss og í staðinn er lagt til að háhitasvæði á Reykjanesi skuli virkjað. Það er heimakjördæmi hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur. Ég hef fulla samúð með þeim aðilum sem ganga um atvinnulausir á Reykjanesi því ég veit að neyðin þar er mikil og margir sem hafa þar ekki atvinnu. Þess vegna ætti verkalýðshreyfingin að taka sig saman og knýja enn frekar á að ríkisstjórnin geri einhverjar úrbætur. Því miður er ekki fljótlegasta leiðin valin með því að fara með háhitavirkjanir af stað á Reykjanesi, það yrði langtum fljótara að byggja upp atvinnu væri farið í hagkvæmasta og fljótlegasta virkjunarkostinn í Þjórsá.

Svona eru málin því miður vaxin en ég vil jafnframt minna á að það líður að kosningum og við förum brátt að losna við þessa ríkisstjórn.

Mig langar að spyrja þingmanninn í seinna andsvari að því hvað honum finnist um þær fréttir sem koma nú frá Evrópusambandinu að það virðist ætla að líta í gegnum fingur sér með makríl gegn því að Íslendingar sendi raforku til Evrópu. (Forseti hringir.) Á sama tíma er verið að ræða virkjunarbann á Alþingi þannig að það er (Forseti hringir.) eins og Evrópusambandið viti ekki almennilega hvað er um að vera hér.