141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:16]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég sé mig knúna til að koma hingað upp og svara þeim ásökunum, liggur við að ég segi, sem hv. þingmaður teflir hér fram. Hann vitnaði í þau orð mín að við blasti stórslys á Reykjanesskaganum. Ég segi það, já, og staðfesti það nú í ræðustól Alþingis. Fyrir mér blasir stórslys við á Reykjanesskaganum. Ég skal endurtaka það eins oft og þarf ef það hjálpar hv. þingmönnum að kynna sér svæðið og allt sem alls kyns fagfólk og sérfræðingar og þeir sem þekkja þarna til vita um það og vara eindregið við því að þetta dýrmæta svæði verði sett í nýtingarflokk. Ég styð því eins og ég hef alltaf sagt breytingartillögur sem að þessu lúta.

Ef þingheimur skyldi hins vegar fara þá nöturlegu leið að fella breytingartillögur er lúta að Reykjanesskaganum, hvers vegna skyldi ég þá ætla mér eins og ég hef sagt hér að samþykkja tillöguna sem eftir stendur og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar stendur að baki? Það er vegna þess að annars óttast ég mun fleiri stórslys eins og dæmin sanna og reynslan hefur sýnt okkur í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er hræðslan við sporin sem við þekkjum. Sporin hræða og þess vegna vil ég reyna að forðast fleiri stórslys.

Ég ætla að leyfa mér að fagna því að nú tali menn um fagleg vinnubrögð og óski eftir faglegum vinnubrögðum vegna þess að þegar fyrri áfangi rammaáætlunar var í gangi þá var því ekki að heilsa. Þá voru niðurstöður eins og með Kárahnjúka þverbrotnar.

Ég spyr hv. þingmann: Lítur hann svo á að ég sé að afla mér (Forseti hringir.) fjarvistarsönnunar með því að segja (Forseti hringir.) það sem mér býr í brjósti? Lítur hann svo á að það sé það sem um ræðir í (Forseti hringir.) þeim málflutningi sem ég hef haft úr þessum ræðustól?