141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeir þingmenn sem samþykkja hina endanlegu útgáfu rammaáætlunar bera ábyrgð á því sem þar stendur, þar á meðal þeim kostum sem þar eru í nýtingarflokki eða biðflokki eða verndarflokki. Það er alveg ljóst að menn geta flutt breytingartillögur og munu gera það og hafa gert það. Það verður áhugavert að sjá hvernig það fer. En ef sú staða kemur upp að breytingartillögurnar sem hv. þingmaður vísar til verða felldar, sem ég veit auðvitað ekkert um frekar en aðrir, þá stefnir í stórslys samkvæmt orðum hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og ég velti fyrir mér hvernig hún muni greiða atkvæði. Það sama á raunar við, þó að það sé úr allt annarri átt, hv. þm. Kristján L. Möller sem hefur líka fært ágæt rök frá sínum bæjardyrum séð fyrir annarri niðurstöðu en hér er á ferðinni.

Megintillaga sjálfstæðismanna í þessu máli í allt haust hefur verið sú að málinu verði vísað aftur til verkefnisstjórnar til þess einkum að fá nýtt mat á þá þætti sem umdeildastir eru í þessu sambandi, fá mat á alla kostina út frá sömu forsendum. Hafi komið fram nýjar upplýsingar eftir að verkefnisstjórn lauk störf á sínum tíma viljum við fá endurmat verkefnisstjórnarinnar á þeim þætti. Er óeðlilegt að gera það? Er óeðlilegt eða ófaglegt að gera það? Er það til þess fallið að leiða til þess að hér verði allt virkjað sem hægt er að virkja? Nei, auðvitað ekki. Það er ekki sanngjarnt að setja hlutina þannig upp. Að okkar mati er verið að stíga varfærið skref með því að ráðast ekki hugsunarlaust í stórframkvæmdir hvarvetna, sem sumum okkar gæti þótt áhugavert af öðrum ástæðum. Það er ekki verið að gera það, heldur er verið að segja: (Forseti hringir.) Við skulum færa málið aftur í farveg verkefnisstjórnar.