141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:20]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Í sjálfu sér væri það ekki galin hugmynd að taka þá virkjunarkosti sem mestur ágreiningur er um sérstaklega fyrir og senda aftur til verkefnisstjórnar. Vandamálið er að þá værum við að brjóta lög vegna þess að lögin sem Alþingi samþykkti samhljóða eru mjög skýr og eftir þeim er farið við þessa málsmeðferð. Þau mæla fyrir um að málið komi aftur til kasta Alþingis. Hingað er það komið og liggur á borði okkar. Það er á okkar ábyrgð, eins og hv. þingmaður segir: Þeir sem samþykkja þetta mál bera ábyrgð á því. Það er á ábyrgð þingsins. Þetta er okkar úrlausnarefni. Við komum okkur ekkert undan því. Við getum öll lýst skoðunum okkar, eins og við höfum gert, og barist fyrir þeim.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að í brjóstum manna hér inni, innra með þeim, sé meiri hluti fyrir því að færa virkjunarkosti á Reykjanesskaganum í bið og ég vona að fólk fylgi því.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann spurninga sem ég held að ég hafi áður spurt hann, hvort hann hafi hugsað það eitthvað frekar. Hvenær telur hann komið nóg í virkjunum á Íslandi? Nú er búið að reisa nær 18 virkjanir. Hvenær er komið nóg? Hversu mikla orku þarf næstu fimm árin, næstu tíu árin, næstu 20 árin? Það er búið að skerða nær helming háhitasvæða í landinu. (Forseti hringir.) Hversu mörg má skerða í viðbót? Hvenær er komið nóg?