141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara hv. þingmanni því hvenær sé komið nóg. Ég held hins vegar að við eigum að halda áfram að nýta orkuauðlindina. Ég held að við eigum að halda áfram að nýta vatnsaflið. Ég held að við getum gengið lengra í að nýta vatnsaflið og ég held að við getum gengið lengra í að nýta jarðhitann. (GLG: Hversu langt?) Ég ætla ekki að svara því á þessari stundu hvar eigi nákvæmlega að nema staðar. Ég er þeirrar skoðunar að hvert skref beri að íhuga vandlega og taka varlega. (Gripið fram í.) Ég held að jafnvel þótt við hefðum fylgt þeirri niðurstöðu sem birtist í drögum að þingsályktunartillögu sem send var út til umsagnar eftir vinnu verkefnisstjórnar og formannahóps í fyrra þá værum við að stíga skref í áttina án þess að við værum með einhverjum hætti að ganga of langt, sérstaklega í ljósi þess eins og við hv. þingmaður vitum að með því að setja hluti í nýtingarflokk er ekki þar með sagt að þeir verði nýttir, það er ekki þar með sagt að virkjað verði á öllum þeim svæðum sem fara í nýtingarflokk. Jafnvel þó að einstakir virkjunarkostir eða landsvæði lendi í nýtingarflokki þá eiga þau tilvik hvert um sig eftir að fara í gegnum síu, fara í gegnum ýmis nálaraugu áður en af framkvæmdum getur orðið.

Ég mundi svara þannig: Já, við eigum að halda áfram að nýta orkuauðlindina, bæði vatnsafl og jarðvarma, en auðvitað verðum við að gæta okkar og rammaáætlun er eitt af tækjunum til að fara varlega í það. Ég mundi hins vegar ekki skrifa undir það að við segðum sem svo: Nú höfum við nýtt nóg, nú ætlum við ekki að nýta meir. Ég mundi ekki fallast á þá stefnu ef það er það sem hv þingmaður er að spyrja að.