141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum enn um rammaáætlun, það mikilvæga mál. Mig langar í þessari stuttu ræðu minni að fjalla aðeins um 13. kafla í nefndaráliti meiri hlutans, þar sem fjallað er um áherslur næstu verkefnisstjórnar og ábendingar til ráðherra.

Þar segir að gert sé ráð fyrir að ný tillaga taki tillit til áhrifa virkjunarkosta á áhrifasvæði — svokölluð „buffer zone“ — Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég spyr: Eru það ábendingar meiri hlutans að því sjónarmiði um að verkefnisstjórn eigi að skoða þetta þurfi að koma inn í lögin? Er það það sem meiri hlutinn á við?

Síðan langar mig að spyrja um annað, ef einhver væri svo vænn að koma hingað og svara mér seinna í umræðunni. Fram kemur í f-lið á bls. 25 að meiri hlutinn telji nauðsynlegt að meta möguleika á að nýta betur virkjanir sem þegar hafa verið byggðar. Þetta er eitthvað sem ég held að flestallir geti verið sammála um af því að búið er að raska þar landi, búið er að byggja þar mannvirki og um að gera að finna út úr því hvernig hægt er að efla starfsemina og ná meiru út úr kostinum sem þegar er tekinn til starfa. Ég tel að flestallir sem eru í því að reka virkjanir hugsi um það. Síðan kemur fram að meiri hlutinn telji að skilgreina þurfi með hvaða hætti gera eigi ráð fyrir þessu í næstu áföngum rammaáætlunar. Hvað er í rauninni hér að baki? Er átt við að þá þurfi aftur að fara fram mat á þeim virkjunarkosti sem þegar er kominn til framkvæmda? Gott væri að fá skýringu á þessu.

Ég hef spurt áður um þær ábendingar sem meiri hlutinn beinir til ráðherra og Alþingis. Í a-lið er bent á að það þurfi að meta hvort ástæða sé til að rammaáætlun taki einnig til smærri virkjana. Mig langar til að fá fram, ef það er einhver möguleiki, frá nefndarmönnum og þeim í meiri hlutanum hvað átt er við. Er átt við alla mögulega virkjunarkosti hversu smáir sem þeir eru eða tóku menn í nefndinni einhverja umræðu um það hvert viðmiðið ætti að vera? Ég held að mikilvægt sé að það komi fram í umræðunni upp á að vinna eða hugsa þetta eitthvað áfram.

Síðan er í á-liðnum talað um, þ.e. í ábendingum meiri hlutans til ráðherra og Alþingis, að næsta verkefnisstjórn taki einnig til annarrar orkuvinnslu, þ.e. vindorku og sjávarfallaorku. Þá spyr maður: Eru hugmyndir um slíka virkjunarkosti komnar það langt á veg að það sé í rauninni tímabært fyrir næstu verkefnisstjórn að taka þetta inn? Vegna þess að auðvitað eru þetta kostir sem vonandi verða framkvæmanlegir í framtíðinni. Tækninni fleygir ávallt fram og menn sjá nýjar hliðar á þessum tveim spennandi kostum. En ég átta mig ekki alveg á því hvort þetta sé orðið það „aktúelt“ að við getum ætlast til að næsta verkefnisstjórn geti tekið það til afgreiðslu með sama hætti og hún hefur gert varðandi þá kosti sem gert var í rammaáætlun sem unnin var í 2. áfanga.

Ég var áður búin að ræða aðeins um b-lið, þ.e. þar sem fram kemur að athuga hvort ekki sé æskilegast að í lögunum væri mælt fyrir um endurmat ónýttra kosta í orkunýtingarflokki að tilteknum tíma liðnum. Mér þætti fara betur á því að talað væri jafnframt um kosti sem væru í vernd og ástæða væri til að endurmeta. Í á-lið, held ég, á blaðsíðunni á móti þar sem eru athugasemdir og ábendingar til næstu verkefnisstjórnar, er fjallað um þetta, en ég tel einhvern veginn að ef á að beina þessu til ráðherra eða Alþingis — ábendingar til Alþingis, þá er væntanlega verið að boða það að Alþingi þurfi að fara í lagabreytingar, eða ég skil þetta þannig, og þá ætti þetta að gilda í báðar áttir. Í núgildandi lögum er heimilt að endurmeta kosti en hér er einhvers konar ábending um að æskilegt sé að hnykkja á því hvort nefndin hafi ekki hugsað sér að það væri þá bæði verndarflokkurinn og nýtingarflokkurinn sem væri þar undir.

Frú forseti. Ég næ ekki að klára þær spurningar sem mér brenna á hjarta og óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.