141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hér upp og reyna að svara einhverju af spurningum mínum. Ég átta mig á því að tíminn er stuttur en ég vil taka það fram að það er mjög gott að þingmenn úr nefndinni komi og svari.

Það er rétt að ég hef spurt þessarar spurningar áður varðandi smærri virkjanir en ég hafði ekki fengið svar við því hvaða viðmið menn höfðu í huga. Þess vegna taldi ég rétt að reyna að fá fram svar og þakka hv. þingmanni fyrir svar hans. Í því svari kom fram að það væri ekki alltaf stærð virkjunarinnar sem væri ákvarðandi fyrir áhrifin, og er rétt að halda því til haga að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn á það, en það er mikilvægt að við bætist að ekki var búið að ræða sérstök viðmið í nefndinni.

Í kafla þar sem talað er um sjávarfallaorkuna og vindorkuna er um að ræða ábendingar sem beint er til ráðherra og Alþingis. Þar er ekki um að ræða ábendingar sem beint er til verkefnisstjórnarinnar, eða ég skil það þannig að nefndin segi þar að þingið ákveði hvort verkefnisstjórn verður falið að taka málið inn í vinnuna. Þess vegna tel ég rétt að við ræðum það hér. Mér finnst það athyglisverður punktur og ég hef sagt það áður að mér fundust ábendingarnar um margt mjög góðar. Það er gott og mikilvægt að fram komi í nefndarálitinu hvaða vangaveltur komu fram í vinnu nefndarinnar. Við vitum að ný verkefnisstjórn mun taka til starfa og það er auðvitað heilmikið verkefni fyrir þá sem setjast í þá stjórn að taka málið upp og halda áfram með það. En til þess að við áttum okkur betur á því hvað við viljum fá út úr þeirri vinnu er nauðsynlegt að taka umræðu um þessar ábendingar og fleiri sem aðrir hv. þingmenn hafa komið fram með í umræðunni.