141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hér á liðnum vikum hafa ríkisstjórnarflokkarnir og ekki síst forustumenn þeirra hælt sér látlaust af því hversu ástandið sé orðið gott í þessu samfélagi. Sjálfshólið í kringum fjárlagafrumvarpið ríður vart við einteyming og talað hefur verið um að hin sameiginlega endurreisn samfélagsins sé hafin. En hver er staðan?

Í sjávarútveginum þar sem sett var á sáttaferli gerði ríkisstjórnin allt sem hún mögulega gat til að rjúfa það. Hún hefur ekki átt samtal við hagsmunaaðila, ekki átt samtal við stjórnarandstöðuna. Hver er afleiðingin, frú forseti? Yfir 100 uppsagnir frá því að veiðigjöldin voru sett á í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar. Er þar endalaus uppgangur? Varla.

Hér höfum við rætt rammaáætlun, ferli sem var sett af stað sem sáttaferli milli ólíkra hópa. Hver er niðurstaðan í því? Hér er allt upp í loft, pólitísk inngrip og niðurstaðan þannig að ekki virðist vera nokkur leið til að ná saman. Ég hvet þó hv. stjórnarþingmenn til að nýta þann tíma sem hefur verið samið um, til að velta fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegra að ná saman um breiða sátt í því mikilvæga máli.

Hver er svo staðan, frú forseti, í málum skuldugra heimila? 10 þús. manns hafa ekki efni á því að halda jól hjá velferðarstjórninni, norrænu ríkisstjórninni. Hver er staðan, frú forseti? Eigum við ekki að láta af sjálfshólinu og reyna að taka höndum saman um að byggja upp samfélagið, endurreisa það, sem byggist á því að nýta þær auðlindir sem við höfum til að byggja upp verðmætasköpun og atvinnusköpun svo að við getum staðið undir velferðarkerfinu? Ég held að það væri nær, frú forseti. Við hefðum betur notað þann tíma á síðustu vikum og mánuðum, sem hefur verið illa nýttur, (Forseti hringir.) til slíkra verka fremur en þeirra átaka sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stendur ævinlega fyrir.