141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í ágúst síðastliðnum barst eins konar neyðarkall úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem kallað var eftir því að fram færi það sem nefnt hefur verið endurmat á viðræðunum og stöðunni í þeim gagnvart Evrópusambandinu. Það var hins vegar upplýst nokkru síðar á Alþingi að engar slíkar viðræður hefðu farið fram á milli stjórnarflokkanna. Þeir hafa sem sagt skilað þar auðu. Nú hefur hins vegar verið greint frá því í þingsal að á fundi utanríkismálanefndar í morgun hafi myndast nýr meiri hluti innan nefndarinnar sem hyggst leggja fram þingsályktunartillögu um að gera hlé á viðræðunum við Evrópusambandið og hefja þær ekki að nýju fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta er mikið fagnaðarefni því að þetta gefur okkur öllum möguleika á því að taka afstöðu til þessa mikilvæga máls sem hefur verið mikið sundrungarefni hjá þjóðinni. Þetta hlýtur sérstaklega að vera fagnaðarefni fyrir þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð sem í orði er á móti aðildarviðræðunum en hefur hins vegar fram undir þetta ljáð þessu máli lið sitt. Það liggur fyrir að þingflokkurinn hefur ekki getað komið þessu máli sínu fram gagnvart hinum stjórnarflokknum en fær núna tækifæri til þess á Alþingi þegar þetta mál hlýtur að koma til afgreiðslu í þinginu.

Það var aldrei ástæða til að hefja þetta ferli en síðan hefur margt bæst við sem gerir það að verkum að það er fullkomlega tilefnislaust. Í fyrsta lagi er staðan í Evrópu, í öðru lagi makríldeilan og í þriðja lagi höfum við líka séð á síðustu vikum og mánuðum hvernig myndin hefur smám saman skýrst. Við höfum nefnilega kíkt í pakkann og séð hvað þar er að finna og við höfum séð að okkar hagsmunir eru ekki samrýmanlegir því að gerast aðilar að (Forseti hringir.) Evrópusambandinu. Matvælakaflinn, 12. kaflinn, er skýrt dæmi um það.