141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er ánægjulegur dagur í ferli aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins en á ríkjaráðstefnu milli Íslands og ESB hefjast í dag viðræður um sex kafla til viðbótar. Þetta eru kaflarnir um frjálsa vöruflutninga, skattamál, efnahags- og peningamál, byggðastefnu, umhverfismál og utanríkistengsl. Þetta eru stórir og áhugaverðir kaflar. Til dæmis verður sérstaklega áhugavert að sjá hvernig gengur með það mál sem fjölmargir eru að velta fyrir sér, þ.e. með hvaða hætti Ísland getur tekið upp nýja mynt og hvernig sú aðlögun muni eiga sér stað verði af samningi.

Hér hefur verið rædd í þingsölum í dag sú spurning hvort fara eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður. Ég er mótfallinn þeirri tillögu enda tel ég að sú þjóðaratkvæðagreiðsla mundi fyrst og fremst snúast um hræðsluáróður og yfirboð. (VigH: Já, já.) Umræðan mun ekki einkennast af upplýsingum sem þjóðin getur tekið afstöðu til og þar með myndað sér skoðun á aðildarferlinu eða aðild yfirleitt, byggða á upplýsingum, heldur fyrst og fremst hræðsluáróðri og yfirboðum. Ég held að það sé, virðulegi forseti, ekki farsælt skref.

Mig langar í þessu sambandi að vitna til Evrópuþingmannsins Cristians Dan Preda frá Rúmeníu. Fréttablaðið fjallar í dag um álit hans á stöðu viðræðnanna en hann hefur haft umsjón með viðræðunum við Ísland fyrir hönd Evrópuþingsins. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég skil vel að Íslendingar hafi varann á gagnvart sjávarútvegi, en um leið er ég bjartsýnn og viss um að viðræðurnar muni verða árangursríkar, því að ykkar samningamenn hafa mikla reynslu í þessum efnum og ESB er tilbúið að vinna að lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við.“

Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, að farsælast sé að ljúka þessum aðildarviðræðum og leyfa þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið (Forseti hringir.) eður ei.