141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við lok þessarar umræðu vil ég nefna nokkra þætti sem mér finnst skipta máli að komi fram við síðari umræðu þessarar þingsályktunartillögu. Í fyrsta lagi tel ég þetta mál eitt af mörgum þar sem mikið reið á að ríkisstjórn landsins tækist að leiða saman þingið til sáttar um efnislega niðurstöðu í málinu. Þetta er eitt mál af mörgum. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki alltaf raunhæft að ná fram slíkri sátt og það getur meira að segja verið mjög erfitt í einstaka málaflokkum en við höfum marga slíka málaflokka á dagskrá þar sem miklu skiptir að menn leggi mikið á sig til að fá samstöðu um niðurstöðu eða ákvörðun. Ég gæti nefnt stjórnarskrána efst á blaði. Þar finnst mér menn ekki hafa haldið rétt á málum. Ég gæti nefnt spurninguna um það hvort leggja ætti fram aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem annað dæmi. Þar fannst mér menn líka halda rangt á málum.

Ég gæti nefnt framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnar í landinu sem er gríðarlega mikilvægt mál þar sem mikið liggur við að menn leiti sátta. Reyndar var það gert en það var horfið frá þeirri sátt. Svo erum við hér með svokallaða rammaáætlun þar sem kannski alveg sérstaklega mikið er undir og menn hafa umframskyldu, jafnvel meiri skyldu en í hinum málunum sem ég nefndi, að stjórnarskránni frátalinni, til þess að halda í sáttina. Hvers vegna? Vegna þess að þannig var málið sett af stað. Það hefur allan tímann verið unnið á þeim forsendum.

Það finnst mér hafa mistekist hér og það er ágreiningur við stjórnarandstöðuna, a.m.k. við minn þingflokk og flesta þá sem hafa tekið til máls í stjórnarandstöðu, um það hvort hinu faglega ferli hafi verið fylgt allt til enda.

Í því samhengi ætla ég að nefna máli mínu til stuðnings eina umsögn sem ég tek af mörgum sem bárust þinginu. Þessi kom frá Orkustofnun. Í umsögn Orkustofnunar kemur fram að hún hafi haft aðild að málinu á fyrri stigum. Ég ætla að leyfa mér að vísa óbeint í umsögnina en þar segir að þar sem Orkustofnun hafi verið aðili málsins ætli stofnunin ekki að fara að tjá sig um einstaka efnisþætti að öðru leyti en því að það er vikið frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar í ákveðnum tilfellum. Það eru nefnd dæmin og tiltekið að þetta eigi við um flutning á þremur virkjunarkostum á vatnsafli á Suðurlandi, nefnilega Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun. Hvað segir Orkustofnun um þessa virkjunarkosti? Þeir segja, og nú ætla ég að vísa beint í umsögnina, með leyfi forseta:

„Tillagan gerir þannig ráð fyrir að hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostirnir verði fluttir úr orkunýtingarflokki í biðflokk.“

Virðulegi forseti. Ég ætla að endurtaka þetta: Hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostirnir í vatnsaflsvirkjunum eru fluttir í biðflokk. Síðan segir að virkjunarkostir í háhita, Hágönguvirkjun, 1. og 2. áfangi, og virkjunarkostir í vatnsafli, Skrokkölduvirkjun, sem líka eru fluttir í biðflokk, taki þessum sömu breytingum án þess að faglegum forsendum sem lágu til grundvallar mati faghópa sé hnekkt.

Þarna erum við með þá skoðun utanaðkomandi aðila, nefnilega Orkustofnunar, sem fellur algjörlega saman við málflutning stjórnarandstöðunnar um að hinum faglegu niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar hafi ekki verið hnekkt. Það er það sem við höfum verið að takast á um hér í þinginu, hvort hinar faglegu forsendur sem menn telja sig vera að leggja fyrir með breytingum á málinu hafa verið leiðarljósið eða einhver önnur sjónarmið. Þegar maður veltir fyrir sér hvort það kunni að hafa verið einhver önnur sjónarmið er mjög erfitt að horfa fram hjá því í hvaða farveg málið fór. Er það ekki rétt munað hjá mér að eftir að þetta opna ferli, þar sem allir flokkar og sveitarfélög, allir hagsmunaaðilar, höfðu aðgang að málinu og afhentu það síðan, fór það inn í lokað ferli stjórnarflokkanna? Þannig var það.

Þegar málið var rétt ókomið til þingsins spurðist út í fjölmiðlum að það hefðu tekist sammæli um það meðal stjórnarflokkanna að eftir að endanlega niðurstaða væri fengin, þar sem var gefið í skyn að breytingar yrðu gerðar, lægi mjög mikið við að allir stjórnarþingmenn stæðu einhuga að málinu og gerðu ekki kröfu um neinar breytingar. Þetta las maður um í fjölmiðlum. Ég verð að segja að ég trúi því að svona hafi það verið. Ég trúi því að menn hafi sem sagt sammælst um það fyrir fram, áður en málið kom til þingsins, að það mætti ekki gera neinar breytingar. Þetta tók ég fram við 1. umr. þessa máls. Hver er svo niðurstaðan eftir að málið kom út úr nefnd? Jú, viti menn, engar breytingar gerðar á niðurstöðu ráðherranna sem var þó frávik frá meginniðurstöðum verkefnisstjórnarinnar um þessi dæmi sérstaklega sem ég hef tiltekið hér og vísa til umsagnar Orkustofnunar um.

Ég held að umræðan hafi staðið nógu lengi til að öll þessi sjónarmið hafi komist vel til skila en ágreiningurinn snýst kannski ekki síst um þessa þætti, best rannsökuðu virkjunarkosti og hagkvæmustu virkjunarkosti sem við höfum um að tefla í vatnsafli. Eins og Orkustofnun bendir á setur þetta aukinn þrýsting á nýtingu jarðvarmans sem við ættum kannski frekar að horfa til sem eins konar orkuforðabúrs sem við gætum gengið í í framtíðinni. Vatnsaflið er annars eðlis þar sem vatnið flæðir óvirkjað til sjávar á hverjum degi og verður ekki virkjað eftir að það er þangað runnið. Það gegnir dálítið öðru máli um jarðvarmann. Mér finnst það mjög mikilvæg ábending sem á erindi inn í umræðuna hér og Orkustofnun tekur sérstaklega fram.

Af hverju skiptir þetta máli? Það er kannski síðasta atriðið sem ég vildi nefna. Ég vildi koma inn á að þetta er mál þar sem skiptir miklu að menn reyni að leiða fram sátt um vegna þess að þannig var stofnað til málsins og mér finnst að það hafi mistekist. Ég tel að þingið sé við það að fara að afgreiða málið í ágreiningi sem í raun skemmir allan grundvöll þess. Ég vildi nefna þessa þætti sem ég hef tiltekið sérstaklega. Þriðja atriðið sem ég vildi nefna er að ég tel að við Íslendingar stöndum núna á vissum tímamótum í efnahagslegu tilliti sem gera einmitt alveg sérstaklega ríkar kröfur til þess að við köstum ekki frá okkur hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostunum sem við búum yfir.

Með því er ég ekki að segja að við eigum að bjarga okkur út úr efnahagslegri lægð með því að grípa til þess að nýta alla þá virkjunarkosti sem við höfum en við höfum sérstaklega ekki efni á því að fara í pólitísk hrossakaup um slíka virkjunarkosti á þessum tímum, enda er það vegna þess að væntingar hafa brostið um nýtingu slíkra kosta sem allt er í loft upp í samskiptum ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins. Það er sérstaklega út af þessu, eða til hvaða virkjunarkosta litu stjórnarflokkarnir annars þegar þeir gáfu út yfirlýsingar og ýttu þannig undir væntingar til aðila vinnumarkaðarins með stöðugleikasáttmálanum? Þegar menn töluðu um að reyna að hraða nýtingu virkjunarkosta og greiða fyrir framkvæmdum á sviði orkufreks iðnaðar, til hvaða virkjunarkosta litu menn í raun og veru ef ekki þessara sem í millitíðinni hafa verið teknir út af borðinu? Og hvernig er það með fjárlögin sem við höfum tekið á dagskrá ár eftir ár, á hverju hausti, þar sem gefnar eru einhverjar ákveðnar hagvaxtarforsendur sem hafa aftur og aftur brostið? Er það ekki einmitt vegna þess að menn hafa verið að gefa sér að það færu af stað hérna framkvæmdir, meira eða minna allar á sviði orkunýtingar, sem ekki hafa gengið eftir og þar af leiðandi hafa hagvaxtarspár lækkað í lok þess fjárlagaárs sem um var að ræða? Það held ég að sé staðreynd.

Á þeim tímum sem við lifum núna mun það ráða úrslitum um hvernig okkur tekst að vinna okkur út úr stöðunni, bæta lífskjörin, fjölga störfum, greiða niður skuldir, lækka þannig vaxtabyrði ríkisins, mæta væntingum fólks um þéttriðið velferðarnet á Íslandi og getu stjórnvalda til þess til dæmis að hækka laun, hvort heldur sem er hjúkrunarfræðinga, fiskverkunarfólks eða þeirra sem starfa í tölvugeiranum. Hvar sem þeir starfa á Íslandi er það undir getu stjórnvalda komið (Forseti hringir.) að stuðla að framkvæmdum þar sem aukin verðmæti verða framleidd á Íslandi. Það er undir getu stjórnvalda sem allt er komið til þess að tryggja framgang slíkra mála þannig að það er atlaga að velferðarkerfinu (Forseti hringir.) að taka best nýttu, best rannsökuðu og hagkvæmustu virkjunarkostina út af borðinu.