141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eftir áralangar deilur um einstaka virkjunarkosti og einstakar virkjanir komu allir flokkar sér saman og flestir flokkar hafa komið beint að málinu þótt það hafi komið í hlut ráðherra Framsóknarflokksins að setja þetta sáttaferli milli ólíkra sjónarmiða í gang.

Í meðförum núverandi ríkisstjórnarflokka var sáttaferlið rofið þegar málið var tekið til ráðherranefndar, fyrst í samráðshóp starfsmanna ráðherranna, síðan haft samráð við formenn faghópanna og síðan var haft samráð við þingflokka stjórnarflokkanna — en þá stoppaði líka samráðið. Það stóð aldrei til að reyna að ná sátt við stjórnarandstöðuna til að ná breiðari sátt. Sáttin við stjórnarflokkana snerist um það að ekki mætti breyta neinu eftir að málið kæmi inn í þingsal.

Því miður var sáttaferlið rofið með þessum hætti. Ég fullyrði að engum þingmanni, að minnsta kost ekki þeim sem hér stendur, datt í hug að lög nr. 48/2011 væri hægt að misnota með þessum hætti.

En um hvað er verið að ræða? Jú, þau rök sem ráðherranefndin tiltók varðandi til dæmis virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár voru þau að vegna varúðarsjónarmiða vegna laxagengdar skyldu þeir kostir allir þrír settir í bið. Við framsóknarmenn höfum tekið undir að það megi láta þau rök gilda um Urriðafossvirkjun en engin rök hníga að því að taka Hvamms- og Holtavirkjanir út á sömu forsendum.

Og hvað með Skrokköldu- og Hágönguvirkjanir, jarðhitavirkjanirnar þar? Á grundvelli einhvers nýs hugtaks — „buffer zone“, áhrifasvæði Vatnajökulsþjóðgarðs — var þeim sópað út af borðinu. Engin rök og auðveldast að vitna í umsögn Orkustofnunar. En það voru fleiri þættir sem fóru í umsagnarferli og fengu jákvæðar umsagnir, frú forseti. Hagavatnsvirkjun fékk fimm jákvæðar umsagnir, ekki hvarflaði samt að ráðherrunum, þrátt fyrir orð hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur hér áðan, að taka ætti tillit til þeirra, ekki nokkurn skapaðan hlut. Haldið áfram í biðflokki.

Hólmsárvirkjun hin neðri við Atley, gögnum var týnt, frumkvæðisskylda ráðherranna að mínu mati brotin þrátt fyrir að starfsmenn iðnaðarráðuneytisins hafi væntanlega skilað skýrslu sinni til ráðherra og bent á að gögnin væru góð, það væri búið að svara öllum mótvægisrökum og það væri skynsamlegt og góður kostur að setja þennan virkjunarkost í nýtingarflokk fyrir utan þau samfélagslegu góðu áhrif sem það hefði á sveitarfélagið Skaftárhrepp.

Hver er afleiðing þessarar stefnu? Jú, verðmætasköpun í landinu verður mun minni. Mun minni atvinna, mun minni gjaldeyrir, við fáum ekki það afl sem þarf til að styrkja krónuna til að auka velferð og lífskjör í landinu. Ábyrgð þeirra sem standa að þessari þingsályktunartillögu er gríðarleg á marga kanta. Ekki gleyma því að rammaáætlun snýr ekki bara að umhverfislegum sjónarmiðum, hún snýr líka að efnahagslegum og samfélagslegum sjónarmiðum. Ég er mjög ánægður með þá niðurstöðu sem kom frá verkefnisstjórninni þó að einstaka kosti gætum við deilt um. Ég er ánægður með að mjög mikilvæg svæði voru sett í verndarflokk. Mér finnst það góð leið, en sú leið sem ríkisstjórnarflokkarnir fóru hér, að rjúfa síðan þetta sáttaferli, er afleit.

Nú lýkur umræðunni hér í dag og atkvæðagreiðslunni er frestað um tæpan mánuð. Ákall aðila vinnumarkaðarins, Alþýðusambands Íslands, var til okkar þingmanna að taka þetta mál úr þessu pólitíska ferli og íhuga hver staða okkar og ábyrgð er hvað varðar verðmætasköpun í landinu, hvað varðar umhverfisvernd í landinu og hvað það varðar að rjúfa ekki sáttina um ferlið.

Ég vil enda mín orð á því, frú forseti, að við notum þessar þrjár til fjórar vikur til þess, hver einasti þingmaður, að íhuga þá stöðu þannig að þegar við komum hér til atkvæðagreiðslunnar í janúar séum við tilbúin til að ýta pólitískum öfgum til hliðar og reyna að ná breiðari sátt til heilla fyrir samfélagið, til heilla fyrir Ísland.