141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:44]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka heils hugar undir ræðu hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sem er í mjög miklum samhljómi við skoðanir mínar og þann fyrirvara sem ég gerði við álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Það er mat mitt að óbreytt tillaga afhjúpi alvarlegt misræmi í því hvernig Alþingi og reyndar líka nefnd um rammaáætlun framfylgir lögum sem það hefur sett samhljóða.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, er tilgreint að í biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar falli virkjunarkostir sem talið er að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.

Ákvæðið hefur verið túlkað allt of þröngt, þvert á tilgang og anda laganna og ber vott um lagasniðgöngu. Ef fyrirliggjandi tillaga verður samþykkt óbreytt er verið að ganga gegn þeirri skyldu að fella í biðflokk þá virkjunarkosti sem afla þarf frekari upplýsinga um. Misræmið felst í því að úr orkunýtingarflokki í biðflokk eru bara færð sum en ekki öll þau svæði þar sem fyrir liggur að veigamiklar upplýsingar skortir áður en endanleg og fagleg ákvörðun er tekin um afdrif þeirra. Ég minni á að það er niðurstaða þröngs flokkunarhóps úr rammaáætluninni, formannahóps, og niðurstaða hans kom flatt upp á fjölda nefndarmanna í rammaáætlun. Þar var ekki sátt og það voru, af því að það hefur orðið að umtalsefni hér, pólitísk fingraför á málinu löngu áður en það kom inn til þingsins. Nefndin um rammaáætlun var að töluverðum meiri hluta skipuð virkjunarsinnum, það var svo einfalt. Umtalsverður minni hluti var yfirlýstur umhverfissinnar.

Ég talaði um ósamkvæmni áðan. Ef maður horfir á rökstuðning meiri hlutans fyrir Þjórsá, sem ég er algjörlega sammála, skín við ósamkvæmnin gagnvart til dæmis Hverahlíðarvirkjun, sem er virkjun sem Orkuveita Reykjavíkur hefur af varúðarsjónarmiðum sett í biðflokk. Hana setjum við í orkunýtingarflokk þrátt fyrir brennisteinsmengun sem bitnar á höfuðborgarbúum, íbúum í Hveragerði og Ölfusi. Ég hélt að menn, lifandi fólk, væru hluti af náttúru Íslands. Vafi er um áhrif brennisteinsmengunar á heilsufar þessa fólks.

Ég talaði líka um hugsanlega grunnvatnsmengun, ég talaði um manngerða jarðskjálfta. Þarna er slík ósamkvæmni og þarna er gengið þvert á lögin að mínu mati og það getur ekki gengið. Ég vona að í áframhaldandi vinnu verði það leiðrétt. Ég minni líka á að það skortir algjörlega orkusölusamninga og að við ætlum að fara af þeirri braut sem við fórum við fyrri virkjanir, (Forseti hringir.) þá sérstaklega Kárahnjúkavirkjun, að selja orkuna á undirverði (Forseti hringir.) með þeim afleiðingum að Rarik, Landsvirkjun og ég tala nú ekki um Orkuveitu Reykjavíkur rísa vart undir nafni sem fyrirtæki fjárhagsins vegna.