141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Þetta er í eðli sínu samkomulagsferli. Það þýðir að margir þurfa að slá af sínum ýtrustu kröfum. Ég skal segja það strax að ég mundi mjög gjarnan vilja að fleiri virkjunarkostir væru settir í verndarflokk og ég heyri það á máli margra annarra þingmanna að þeir eru sömu skoðunar.

Hér er búinn að vera mikill stormur í vatnsglasi, þykir mér, og mér finnst ég hafa orðið vitni að því enn einu sinni hvernig hefðbundin íslensk átakapólitík er búin að ná að gera málþóf í þessum sal af mikilli óbilgirni um eiginlega fullkomið aukaatriði.

Um hvað snýst málið? Verið er að setja sex virkjunarkosti í biðflokk sem voru í upphaflegum drögum í nýtingarflokki. Eftir eru 16 kostir í virkjunarflokki.

Það er nú allt málið. Mér finnst það dæmalaus óbilgirni að eyða mikilvægum tíma Alþingis í málþóf um það. Spyrjum okkur: Hvað ef þessir sex virkjunarkostir yrðu nú áfram í nýtingarflokki, hvað gerðist þá? Það er dálítið áhugaverð spurning. Mundum við þá rjúka í það að virkja á þessum stöðum? Væri það hin klassíska íslenska leið sem málþófsmenn hafa leynt og ljóst verið að verja hér í sölum Alþingis á undanförnum dögum, að hafa þessa kosti í virkjunarflokki en ekki biðflokki svo hægt sé að rjúka í það hugsunarlaust, eins og vanalega, að virkja þarna? Og spyrja þá ekki lykilspurninga sem hafa merkilegt nokk afskaplega lítið verið ræddar í allri þessari umræðu: Til hvers? Til hvers að virkja? Hvað ætlum við að fá út úr því? Á hvaða verði ætlum við að selja orkuna? Ætlum við að virkja eins og við gerðum á Hellisheiði þar sem virkjunin náði ekki einu sinni að dekka fjármagnskostnað? Og hún mun ekki gera það. Er það leiðin? Þurfum við ekki að ræða það?

Og meðan sú stóra spurning er óútkljáð: Af hverju eigum við að virkja? vil ég leyfa mér að segja að það er þráður í mér sem vill þá bara alls ekki virkja neitt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)