141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Grunnhugmynd rammaáætlunar var sú að búa til vinnulag og verkferla byggða á faglegum sjónarmiðum sem dregið gætu úr þeim miklu deilum sem oft hafa staðið um einstaka virkjunarkosti á umliðnum árum og áratugum. Hægt er að segja að myndast hafi allgóð samstaða og sátt um vinnu verkefnisstjórnar og faghópa meðan á starfi þeirra stóð. Eftir að þeirri vinnu lauk lá fyrir röðun virkjunarkosta út frá niðurstöðum faghópanna. Áframhaldandi úrvinnsla var síðan í höndum formanns verkefnisstjórnar og formanna faghópa sem skiluðu drögum að þingsályktunartillögu þar sem 67 virkjunarkostum var skipað í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk.

Þá tók við ferli þar sem sú niðurstaða var sett í umsagnarferli og að lokum tóku ráðherrar iðnaðar og umhverfis við málinu og gerðu veigamiklar breytingar á uppröðuninni. Það er skoðun þingmanna Framsóknarflokksins að með samþykkt rammaáætlunar í þeirri mynd sem hún er í nú séum við ekki að tryggja breiða sátt og samstöðu í málinu. Við erum ekki að tryggja sátt milli þeirra sem vilja nýta og þeirra sem vilja vernda og slík sátt byggir alltaf á því að allir aðilar gefi eftir.

Það er veruleg hætta á því að það muni leiða til þess að rammaáætlun verði ekki eins langlíf og ætla mætti þegar menn hafa vikið af þessari braut. Það kom meðal annars fram á nefndarfundi sem haldinn var á laugardaginn var þar sem Alþýðusamband Íslands kom ásamt Samtökum atvinnulífsins þar sem menn lýstu áhyggjum sínum af því, og það heyrir maður víðar í samfélaginu, þegar búið er að leggja mikla vinnu, langan tíma, í að mynda breiða samstöðu um mál eins og þetta, að pólitíkin grípi inn í ferlið.

Það er þess vegna, og það er ekki sagt til að hóta neinum eins og hv. þm. Mörður Árnason kom inn á áðan, sem veruleg hætta er á því með samþykkt þessarar rammaáætlunar að stjórnvöld sem síðar taka við muni vera tilbúin að beita þar pólitík með sama hætti og í þessari rammaáætlun. Þess vegna er veruleg hætta á því að rammaáætlunin sé einungis til skamms tíma og vegna þess að pólitíkin greip inn í málið er veruleg hætta á því að ekki myndist um það breið sátt sem er svo mikilvæg.

Þess vegna mun Framsóknarflokkurinn leggja það til við afgreiðslu málsins, sem hefur nú verið frestað fram á nýtt ár, að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar, að ríkisstjórnin og ráðherrarnir taki það aftur og leitist við að halda þeirri faglegu uppröðun sem gerð var í framhaldi af vinnu verkefnisstjórnarinnar og leggi málið síðan aftur fyrir þingið, þannig geti myndast um það sú breiða sátt sem er svo mikilvæg í máli eins og þessu.