141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég reiknaði með því að hv. þingmaður yrði ósáttur við þetta og því var gengið eftir því með formlegum hætti við yfirstjórn nefndasviðs um textabreytingar af því tagi sem þarna áttu sér stað og ekki voru gerðar neinar athugasemdir við það. Breytingarnar eru allar á ábyrgð þeirra sem flytja tillögurnar og ekki verið að fetta fingur út í það sem þarna er gert. Þetta hefur svo sem áður verið gert, þetta er ekki í fyrsta skipti sem textabreyting verður á tillögum eftir að þær koma út úr fjárlaganefnd.

Það var að sjálfsögðu gengið úr skugga um að þessi breyting mundi rúmast innan þeirra reglna sem um þessi mál gilda í þinginu og það fengið staðfest.

Hvað Bakka varðar er búið að ganga frá því verkefni, það er búið að semja um alla þætti þess nema ákveðnar ívilnanir varðandi fyrirtæki sem þarna eru, m.a. í tengslum við sveitarfélögin, (Forseti hringir.) vegagerð, hafnargerð og annað slíkt. Það er bara hlutur sem bíður (Forseti hringir.) síns tíma, þar til að því kemur, og þá mun þingið auðvitað þurfa að taka á því.