141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:56]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef þrjár spurningar. Í fyrsta lagi sé ég að liðurinn 02-320 Nám á framhaldsstigi vegna aðstæðna á vinnumarkaði er færður úr 1.240 milljónum niður í 800 milljónir, um 440 milljónir. Ég heyrði ekki skýringar hv. formanns fjárlaganefndar við þennan lið og kalla því eftir þeim aftur. (Gripið fram í: Hvaða liður?) Þetta er 02-320, liður 13 á þskj. 694.

Í öðru lagi nefndi hv. formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, jafnrétti og kynjuð fjárlög. Kynbundinn launamunur hefur vaxið verulega á kjörtímabilinu og niðurskurður á heilsugæslustöðvum hefur bitnað mest á konum og mest á konum á landsbyggðinni. Þetta er þvert á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ég spyr: Af hverju hefur fjárlaganefnd ekki lagt fjárframlög til baráttu gegn þessum aukna kynbundna launamun?

Í þriðja lagi, frú forseti, ófyrirséð útgjöld eru einn fjárlagaliður. Hann er kominn í rúma 6 milljarða, hann hefur hækkað frá árinu 2012 ef ég man rétt, ég er ekki með tölurnar fyrir framan mig, um eina 3 milljarða. Það eru afar fátæklegar skýringar í fjárlagafrumvarpinu, vísað í launa- og verðlagsbreytingar, en þær duga mér ekki miðað við þessa verulegu hækkun milli ára. Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar, Björn Val Gíslason: Hvað skýrir nákvæmlega þessa verulegu hækkun? Í öðru lagi: Af hverju er ekki séð fyrir þessum lið ófyrirséðra útgjalda í fjáraukalögum? Af hverju er ekki tekið á þessum ófyrirséðu útgjöldum í fjáraukalögum? Í mínum augum, ég hef reyndar ekki verið í hv. fjárlaganefnd, eru þetta dæmigerðar fjárveitingar sem eiga heima í (Forseti hringir.) fjáraukalögum.