141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ef ég hef skilið fyrstu spurningu hv. þingmanns rétt, ég náði henni ekki alveg, varðaði hún lið 02-320 Nám á framhaldsstigi vegna aðstæðna á vinnumarkaði þar sem gerð er tillaga um að millifæra 440 milljónir af fjárveitingum til verkefnisins til annarra verkefna. Það er einfaldlega talið að þar sé mesti kúfurinn farinn af og ekki sé þörf fyrir þær fjárveitingar sem upprunalega voru lagðar þarna inn og hægt sé að nýta þær til annarra verkefna innan málaflokksins.

Í öðru lagi um hinn kynbundna launamun sem er alveg rétt hjá hv. þingmanni, hann hefur aukist. Það er það sem kreppur alls staðar í heiminum hafa framkallað og leitt til, þ.e. til aukins munar á kynjunum, bæði í atvinnulegu tilliti, efnahagslegu og félagslegu tilliti og auðvitað í launamun. Þetta er bara ein af vondum afleiðingum af hruni efnahagslífs.

Ég tel hins vegar að við höfum náð að ekki bara milda þau áhrif heldur draga verulega úr þeim sem voru fyrirsjáanleg. Við afgreiddum til dæmis við 2. umr. fjárlaga tillögu fjárlaganefndar um aukin framlög til Jafnréttisstofu sem voru ekki síst ætluð í verkefni af þessu tagi, þ.e. reyna að sinna þessu af meiri krafti en verið hefur. Ég held að fjárlaganefnd og fjárlaganefndarmenn og ég held þingmenn flestir séu mjög meðvitaðir um þessa stöðu og það þurfi að bregðast við henni með viðeigandi hætti.

Ófyrirséð útgjöld, það liggur í orðanna hljóðan að sá liður er til að bregðast við ófyrirséðum útgjöldum, t.d. launahækkunum og kjarasamningum sem er fyrirséð að verði án þess að hægt sé að ákveða endanlega upphæðina í það. Fjáraukalagafrumvörp og fjáraukalög (Forseti hringir.) eiga helst ekki að innihalda slíkt heldur það sem kemur óvænt upp á, (Forseti hringir.) er algjörlega ófyrirséð og enginn getur reiknað með að þurfi að koma til.