141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:01]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er mín skoðun að það sé ógæfuspor að draga úr framlagi til menntunar atvinnulausra í þeirri neyð sem atvinnuleysið er. Þetta snýst ekki bara um að efla menntun heldur líka skapa verkefni. (Gripið fram í.) En hv. þingmaður mætti skýra hvert þessir liðir fóru.

Að því er varðar kynbundna launamuninn vil ég vekja athygli á því að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt tekið fram að vinna eigi á kynbundnum launamun sem var við upphaf kjörtímabilsins. Hann hefur farið mjög versnandi og skýrt dæmi um það er að öll árin hefur verið dregið verulega úr framlögum til Jafnréttisstofu. Það hefur ekkert verið brugðist við. Þetta er afleiðing kreppu, en það hefur ekkert verið brugðist við, það er unnið þvert á samstarfsyfirlýsingu hinnar norrænu velferðarstjórnar. (Gripið fram í: Svokölluðu.) Og þessi opni víxill, tékki, ófyrirséð útgjöld, er óþolandi í fjárlagafrumvarpi. Menn eiga að reyna að nálgast staðreyndir betur en þetta. Og hv. þingmaður ætti að skýra þennan lið betur.