141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er allur af vilja gerður að reyna að útskýra þetta, ég hef eina mínútu til að gera það með þær spurningar sem ég átti eftir ósvarað frá fyrri tveimur mínútunum sem ég átti. (Gripið fram í.) Það er reyndar gerð ágætlega grein fyrir þessum tilfærslum, millifærslum milli liða í tillögum meiri hlutans, þ.e. hvert þessir peningar fara, þær 440 milljónir sem fara út af lið 02-320 sem hv. þingmaður nefndi áðan. Þar með er ekki verið að draga úr verkefninu sem slíku, einfaldlega vegna þess að það liggur fyrir að þeir fjármunir sem voru ætlaðir í það munu ekki nýtast. Mesti kúfurinn er farinn af og það er hægt að millifæra upphæðir í önnur ágætisverkefni eins og lið 02-319 Framhaldsskólar, þar sem eru undirliðir 1.17 og 1.41. (Forseti hringir.) Þangað eiga þessar millifærslur að fara þannig að ekki er verið að draga úr verkefninu sjálfu.