141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það eru nokkur atriði sem hv. þingmaður kom inn á sem ég er ósammála. Ég er ósammála því þegar hann segir að ríkisstjórnin styðji við hinar skapandi greinar en stjórnarandstæðingar, þar á meðal við í Framsóknarflokknum, séum á móti einstökum verkefnum. Hann nefndi þar sérstaklega styrkingu Kvikmyndasjóðs og tónlistarsjóðs. Það er rangt. Við höfum einmitt lagt til í efnahagstillögum okkar að efla Kvikmyndasjóð og ég hef sjálfur verið með fyrirspurn um tónlistarsjóð. Við erum hins vegar andvíg því að bætt sé við listamannalaunin, við teljum að það sé algjörlega ótímabært, að það séu aðrar greinar, önnur störf sem setja þurfi fé í en þau.

Ég er líka ósáttur við að það hallar verulega á menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Það er ekki bara að kynbundinn launamunur hafi aukist, eins og komið var inn á í öðru andsvari, það hallar líka verulega á menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Það voru mistök að taka hina svokölluðu safnliði og færa þá yfir til ráðuneytanna.

Hv. þingmaður sagði eitthvað í þá veru, ef ég man rétt, að það þyrfti ekki að grafa skurð til að búa til verðmæti. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi hinna skapandi greina, þær eru mjög mikilvægar, en það þarf líka að grafa skurð. Og hagvöxtur á Íslandi er því miður mun minni en bæði ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn settu sér markmið um á árinu 2009, þ.e. að það ætti að vera um 4,5% hagvöxtur á árinu 2012. Hann mælist rétt um 2,5%. Það er ekki merki um þann glæsilega árangur sem hv. þm. Björn Valur Gíslason talaði um.