141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Við ræðum hér tillögu hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar að fjárlögum fyrir það herrans ár 2013. Á marga lund bera þær tillögur og það frumvarp sem fyrir liggur merki þess að kosningar eru í nánd. Fyrr á þessum fundi mælti formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, fyrir nefndaráliti meiri hlutans og gerði grein fyrir breytingartillögum þeim sem þaðan stafa. Hann kom að öðru leyti nokkuð víða við í ræðu sinni, sérstaklega þegar hann var að gera upp kjörtímabilið og þær miklu breytingar til bóta sem að hans mati höfðu átt sér stað í fjárlagagerð og vinnu, allri umsýslu við ríkisfjármál undir núverandi stjórnvöldum.

Hv. þingmaður sakaði stjórnarandstöðuna, og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, um að vera að leita allra leiða til að falsa söguna. Hann gekk allhart fram í þeirri ásökun sinni og ég tel óhjákvæmilegt að svara því með einhverjum hætti. Það voru órökstuddar fullyrðingar sem hv. þingmaður setti fram.

Hv. þingmaður hélt því fram að núverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta hefði tekist að byggja upp traust og virðingu meðal erlendra þjóða, eins og hann komst að orði, á íslenskum stjórnvöldum, að byggst hefði upp virðing og traust meðal erlendra þjóða á íslenskum stjórnvöldum á síðustu missirum. Ég hjó sérstaklega eftir því að í ræðu hv. þingmanns fór ekki mikið fyrir þeirri umræðu hversu mikillar virðingar og hversu mikils trausts núverandi ríkisstjórn og stjórnvöld nytu hjá íslensku þjóðinni. Það væri kannski nær að fjalla örlítið meira um það. Liggur kannski fyrir að menn treysta sér ekki í þá umræðu? Það er ekkert langt síðan að annar oddviti hæstv. ríkisstjórnar var í prófkosningu í kjördæmi sínu. Ég býst við að öllum hv. þingmönnum sem sitja í þessum sal sé fullkunnugt um það hver traustsyfirlýsing hans eigin flokksmanna var við framgöngu hans á þessu kjörtímabili.

Ég segi bara í þessum efnum að menn ættu að líta sér nær þegar gerð er tilraun til að koma eigin verkum, eigin framgöngu, yfir á önnur stjórnmálaöfl hér á hinu háa Alþingi. Er framgangan slík, eru afrekin það gríðarlega mikil, að það standist alla skoðun? Hvernig stendur á því að svona mikið ósamræmi er á milli mats erlendra þjóða á íslenskum stjórnvöldum og Íslendinga sjálfra, almennra kjósenda í þessu landi? Getur það ef til vill legið í því sem oftar en ekki hefur verið tekið til umræðu undir fjárlagaumræðunni, eða í umræðum um ríkisreikning, að gríðarlegur mismunur er á niðurstöðum? Myndin sem íslensk stjórnvöld gefa og flytja erlendis er af fjárlagatillögunni, fjárlagagerðinni, og vissulega hafa menn sett sér háleit markmið í þeim efnum. En fer jafnmikið fyrir umfjöllun af hálfu íslenskra stjórnvalda gagnvart erlendum stjórnvöldum um það hver mismunurinn er á milli hinnar raunverulegu útkomu í ríkisreikningi og þeirra markmiða sem menn settu sér í fjárlögum? Ég dreg það verulega í efa.

Er það eitt af afrekum núverandi stjórnvalda — eða treysta menn sér til að guma af því við umræðu um fjárlög íslenska ríkisins sem hér var dregið upp í andsvörum við ræðu hv. formanns fjárlaganefndar áðan — að kynbundinn launamunur hefur aukist ár frá ári undir núverandi ríkisstjórn? Ég dreg í efa að erlend stjórnvöld, erlendar þjóðir, horfi með aðdáun, virðingu og trausti upp á slík vinnubrögð. En þannig kunna menn að snúa sannleikanum á hvolf, allt eftir því hvernig hentar málflutningi þeirra hverju sinni. Það er raunar athyglisvert, þegar maður horfir á það með hvaða hætti þetta er gert og staldrar örlítið við það, hvers vegna traustið er ekki meira í garð núverandi stjórnvalda en raun ber vitni um.

Við getum staldrað við einn hluta fjárlagafrumvarpsins eins og það liggur hér fyrir sem lýtur að tekjuáætlun frumvarpsins og horft til nokkurra gjaldaflokka þar. Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að ekkert lát er á aðför hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar að skuldsettum heimilum landsins. Það birtist ágætlega í þeim sífelldu skattahækkunum sem birtar eru í fjárlögum hvers árs. Í stað þess að slá skjaldborgina margfrægu um skuldsettar fjölskyldur landsins, með því að fjárlögin styðji við hagvöxt og skapi þannig grunn að aukinni atvinnu og betri afkomu, er ætíð höggvið í sama knérunn. Þessi leið víxlverkunar skattahækkunar og hækkunar verðlags leiðir, eins og við þekkjum öll ágætlega, til versnandi afkomu heimilanna.

Skattahækkanir stjórnarmeirihlutans hafa á þessu kjörtímabili, með stuðningi þingmanna utan flokka, aukið við verðtryggðar skuldir heimilanna um 28 þús. millj. kr. Þegar við horfum á það fjárlagafrumvarp sem fyrir liggur sjáum við að það er ætlun stjórnarliða að bæta um betur og auka í við verðtryggðar skuldir heimilanna um mörg þúsund milljónir króna. Það liggur fyrir í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna, 1. minni hluta í fjárlaganefnd, úttekt á þessu, athugasemd. Við boðum þar breytingartillögu, sem ég vænti að búið sé að leggja fram, sem gerir ráð fyrir því að horfið verði frá þeim tillögum sem birtast í fjárlagafrumvarpinu sjálfu sem munu leiða til 6–7 milljarða hækkana á skuldum heimila í landinu ef þær ganga fram óbrjálaðar. Við leggjum því til að þær verði dregnar til baka og sú tillaga liggur frammi.

Til stuðnings þessu mati okkar höfum við minnisblað frá fjármálaráðuneytinu sem leiðir það ágætlega í ljós hver áhrif hækkana á krónutölugjöldum og gjaldskrám verða á hina mismunandi gjaldstofna. Það er ljóst að þar er um að ræða 0,46% verðlagsáhrif á þann skuldastabba sem hvílir á heimilum landsins. Það er mál til komið að alþingismenn sammælist um að spyrna við fótum gegn frekari aðför að allt of skuldsettum heimilum og við heyrum greinilega af þeim heimilum í aðdraganda þeirrar hátíðar sem senn gengur í garð. Það er þungt á heimilum landsins. Fjöldi heimila berst í bökkum og á í vandræðum með daglega afkomu. Það er ekki á bætandi að ganga í skrokk á þeim á þann veg sem hér er lagt til að gert verði. Ég hvet hv. stjórnarliða til að standa ekki að þeirri tillögugerð sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að þessu leytinu, hvað varðar tekjuhlið fjárlaga.

Ég vil nefna í þessu sambandi, og það tengist þessari umræðu, hvernig hv. þingmenn reiða fram sína sýn til þessara hluta. Ég vil nefna hér mál, virðulegi forseti, sem ég hef gert að umtalsefni og spurt hæstv. fjármálaráðherra út í en það lýtur að aðgengi Alþingis að þeim upplýsingum sem þingmenn telja nauðsynlegt að hafa undir höndum og geta nálgast svo að þeir geti unnið að þeim viðfangsefnum, málum, sem koma á borð viðkomandi nefnda, í þessu tilfelli fjárlaganefndar. Þau vinnubrögð sem framkvæmdarvaldið hefur ástundað gagnvart fjárlaganefnd í þessu efni í allmörg ár, vil ég undirstrika, eru að mínu mati forkastanleg og löngu tímabært að brjóta þau upp. Í þeim tilgangi var sett inn sérstakt ákvæði í þingsköp Alþingis sem kveður á um að fjórðungur nefndarmanna eigi skýlausan rétt á þeim upplýsingum sem varða þau mál sem um er fjallað þar.

Í því ákvæði er viðkomandi ráðherra og ráðuneyti gefinn sjö daga frestur til að svara bókun sem gerð er á þessum grunni. Þrátt fyrir að svo hátti til að þessi bókun hafi verið gerð 6. nóvember í fjárlaganefnd — eftir mikinn eftirrekstur með góðu, með óskum til þeirra ráðuneyta sem mættu, með óskum til meiri hluta fjárlaganefndar, um að hann gengist fyrir því að þingmenn í nefndinni fengju þau gögn sem um var beðið — skilaði það ekki nokkrum sköpuðum hlut og því var þessi bókun gerð. En þrátt fyrir skýr ákvæði barst svar ekki fyrr en 10. desember. Lögbundinn frestur, sem ráðuneytið hafði til að svara þessu, rann út 13. nóvember. Þrátt fyrir það svarar ráðuneytið ekki fyrr en 10. desember, eða 30–40 dögum eftir að beiðnin var sett fram, þó svo að ráðuneytið hafi bara sjö daga til að svara þessu.

Það er algjörlega óásættanlegt, í huga þess sem hér stendur, að Alþingi geti unað þessum vinnubrögðum. Það er sömuleiðis skýlaus réttur þingsins sjálfs að ákveða hvenær og hvaða upplýsingum það kýs að óska eftir við meðferð mála. Við eigum ekki að hlíta fyrirmælum úr einstökum ráðuneytum í þeim efnum. Í þessu bréfi kom einnig fram að ráðuneytið hefði ekki undir höndum tillögur annarra ráðuneyta og stofnana vegna fjáraukalagagerðarinnar. Nú háttaði svo til að innanríkisráðuneytið eitt ráðuneyta lagði á borð með sér, þegar það kom til viðræðna við fjárlaganefnd um fjáraukalagagerðina, upplýsingar sem sýndu svart á hvítu hvaða óskir ráðuneytið hefði sent inn í sameiginlega vinnu ríkisstjórnar Íslands varðandi fjáraukalagagerð. Þar kom fram hvaða óskir voru samþykktar og hvaða óskum var hafnað.

Þrátt fyrir að þetta liggi fyrir frá þessu eina ráðuneyti kýs fjármálaráðuneytið að svara þinginu á þann veg að það hafi ekki undir höndum neinar upplýsingar í þessa veru. Ég kýs, forseti, að hafa þau orð um þetta að þarna sé farið ærið frjálslega með, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. Og raunar má með ólíkindum vera ef það ráðuneyti sem sýslar með þennan hluta fjármála hins opinbera, fjármálaráðuneytið, hefur ekki undir höndum og ekki aðgang að gögnum sem varða fjárlagagerð íslenska ríkisins. Hvaða ráðuneyti hefur það þá? Er þessu bara dreift út um allar trissur? Sú fullyrðing stenst enga skoðun, ekki nokkra skoðun.

Það er alveg ljóst af því svari sem þarna barst og af því hvernig stjórnarandstöðunni gekk ekki að fá þær upplýsingar sem óskað var eftir, því miður, að frasar — eða fyrirheit ef við kjósum að vera tiltölulega kurteis í orðavali — fyrirheit um samráð, samvinnu, gegnsæi og upplýsingagjöf eru öll svikin. Þetta eru ekkert nema orðin tóm. Dettur mönnum í hug þegar hv. formaður fjárlaganefndar segir að traust og virðing meðal erlendra þjóða hafi aukist hjá íslenskum stjórnvöldum að sá gríðarlegi stuðningur sem núverandi stjórnvöld finna fyrir erlendis sé fenginn með réttu lagi ef núverandi íslensk stjórnvöld treysta sér ekki einu sinni til að eiga þokkalega upplýst samskipti við Alþingi Íslendinga? Það vil ég segja að vinnubrögðin við gerð þessa frumvarps vekja vissulega á fleiri sviðum upp ýmsar spurningar um hlutverk þingsins við fjárlagagerð.

Það er alveg ljóst af þeirri vinnu sem við höfum átt á þessu hausti að ríkisstjórnin lítur á Alþingi sem stimpilpúða. Ef við höldum okkur við þá líkingu sem við sáum hér ágætlega í tengslum við 2. umr. um fjárlagafrumvarp má líkja þessu við það að ríkisstjórnin sendi skilti sín um einstök verkefni inn til fjárlaganefndar, stjórnarliðar í nefndinni tækju svo við, stimpluðu skiltin og bæru inn í þingsal. Þegar inn í þingsal er komið er óskað eftir staðfestingu á þessu og samþykki sem fáir hafa forsendur til að veita en gera samt. Þessir fáu eru ekkert eingöngu stjórnarandstaðan í ljósi upplýsingaskorts, ég fullyrði að þannig háttar líka til um stóran hluta annarra þingmanna í stjórnarliðinu, þeir hafa ekki forsendur til að taka upplýsta ákvörðun um stórmál sem lúta að fjárlagagerð ríkisins í ljósi þess hversu skamman tíma eða litlar upplýsingar þeir hafa haft með höndum til að sýsla með þær. Því miður virðist öllu sem áður var kennt við ábyrga fjármálastjórn snúið á hvolf.

Grunnreglan hefur hingað til verið sú að menn vildu vita hvað þeir hefðu í tekjur áður en gjöld voru ákvörðuð, en nú sammælast menn um eyðsluna og kanna síðar hvernig á að afla tekna. Þannig hefur það þau áhrif að það bætist við sívaxandi skuldir sem við þekkjum ágætlega í því að vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru sívaxandi jafnhliða þessu. Fjárlögin bera þess merki að ríkissjóður færist sífellt nær fjárhagslegu hengiflugi í því sem lýtur að skuldsetningu. Ég kem að því síðar í mínu máli, forseti.

Dæmi um þessa svokölluðu eyðsluaðferð, þ.e. að menn eyði fjármunum fyrst, taki ákvarðanir í þá veru áður en þeir afla teknanna, er meðal annars að finna í svokallaðri fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013–2015. Þar er að finna verkefni sem enn er ekki búið að fjármagna til fulls og þrátt fyrir að sú fjármögnun sé ekki tryggð á engu að síður að setja þau verkefni í gang. Í skýringartexta í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar með nokkrum þessara tillagna má lesa, með leyfi forseta:

„Þar sem tekjuöflun felur í sér nokkra óvissu, svo sem um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjármálafyrirtækja, er gert ráð fyrir að framlögin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs.“

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að menn eru að ráðast í byggingu húss sem tekur tvö, þrjú, fjögur ár en eru tæplega með tryggða fjármögnun á fyrsta ári. Engu að síður ætla þeir að taka skóflustungu að þessu í vor, væntanlega fyrir kosningar til að geta skreytt sig með því en láta öðrum eftir að fjármagna restina. Það er ekki svigrúm fyrir þetta í langtímaáætlun ríkisfjármála.

Það er ýmislegt í þessu sem vekur mann til umhugsunar um á hvaða braut menn eru þegar við horfum til þessara þátta.

Það er eitt dæmi enn sem ég vil nefna sem lýtur að hinni dásamlegu perlu meiri hluta fjárlaganefndar sem er hinn einbeitti vilji ríkisins til að leigja Perluna. Ég spyr, forseti: Á hvaða heimildum byggir þessi vilji ríkisins til að leigja Perluna? Þess sér ekki stað í fjárlögum yfirstandandi árs 2012. Það er engin heimild í fjárlögum ársins 2012 til að fara til þessa verks. Og það sem meira er, það er ekki heldur gert ráð fyrir heimild í 6. gr. fjárlagafrumvarpsins eins og það liggur fyrir til að ganga til þessa verks. Á hvaða grunni er hæstv. menntamálaráðherra núna í samningum við Reykjavíkurborg um að setja Náttúruminjasafn Íslands upp í Perlunni? Það eru akkúrat engar heimildir í gildi til þess verks. Feluleikurinn í þessu máli er slíkur að þegar það var tekið út úr fjárlaganefnd 11. desember var þar texti um að Náttúruminjasafn Íslands ætti að fara í Perluna, ríkið ætlaði að leggja fram 500 millj. kr. stofnframlag í sýningu sem ætti að fjármagna með leigutekjum og aðgangseyri. Þetta voru forsendurnar fyrir meiri hluta fjárlaganefndar til að taka málið út. Svo kemur hv. formaður fjárlaganefndar og segir: Meiri hluti fjárlaganefndar hefur bara gert textabreytingu á þessu.

Nei, það er gerð grundvallarbreyting á þessu máli eftir að það er tekið út úr fjárlaganefnd, efnisleg breyting. Meiri hluti fjárlaganefndar breytir afgreiðslunni eftir að búið er að taka málið út úr nefnd með þeim hætti að hann tekur það út að aðgangseyrir eigi að standa undir rekstrarkostnaði þessarar sýningar.

Það er umhugsunarvert hvernig á því getur staðið að svona er unnið með málið í meðförum nefndasviðs Alþingis. Það kom fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar áðan að meiri hlutinn hefði borið þessa ákvörðun undir nefndasvið. Ég á mjög bágt með að trúa því, forseti, að starfsmenn Alþingis meti það sem eingöngu textabreytingu að breyta algjörlega forsendum undir þeirri fjárveitingatillögu sem hér er gerð um 400 millj. kr. framlag til Perlunnar.

Ég ætla að sleppa því að nefna þennan kauphring, ef maður getur sagt sem svo, sem lýtur að því að borgarsjóður kaupir af sjálfum sér byggingu sem hann ætlar svo þriðja aðila að leigja og þriðji aðilinn er ríkissjóður, allir skattgreiðendur landsins, sem á að greiða niður skuldir Orkuveitunnar með þessum hætti. Einhvern tímann hefði þetta verið kallað af núverandi stjórnvöldum 2007-snúningur, en það orð virðist farið úr orðaforða þeirra.

Það eru fleiri þættir inni sem ekki styðjast við ákvæði fjárlaga. Það eru hvorki ákvæði í fjárlögum ársins 2012 né í því frumvarpi sem við erum að fjalla hér um, engin heimild fyrir innanríkisráðherra að stofna nýja stofnun sem heitir Mannréttindastofnun Íslands. Hvar er sú heimild? Hana er hvergi að finna. Engu að síður er búið að kynna í fjölmiðlum um allt land að þessi stofnun taki til starfa 1. janúar 2013, eftir rétt rúman hálfan mánuð. Þegar maður tínir til dæmi sem þessi spyr maður: Hvernig umgengst ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn þau lög sem Alþingi setur um fjárreiður íslenska ríkisins? Svarið er einfalt. Þau gera ekkert með þau. Þau virða þau einskis ef þeim svo hentar.

Það snertir meðal annars tekjugrein frumvarpsins. Það er áskilið að ef fjárlaganefnd óskar eftir umsögn efnahags- og viðskiptanefndar um tekjugreinina sé henni skilað. Hvernig fór með það mál? Þann 27. október sendi fjárlaganefnd skriflegt erindi til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins með ósk um að álit hv. nefndar lægi fyrir eigi síðar en 7. nóvember.

Síðan leið langur tími. Svar þessarar ágætu nefndar átti að liggja fyrir 7. nóvember en í dag er 18. desember og svarið er ekki enn komið. Í sem fæstum orðum mætti segja að þetta viðhorf endurspeglaði að það kæmi engum við hvað núverandi meiri hluti væri að gera en ætli skýringin liggi ekki frekar í því að bandormurinn svokallaði, frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, kom gríðarlega seint fram. Til þess liggja sennilega þær ástæður að það eru kaup og sala í gangi á ríkisstjórnarheimilinu við hv. þingmenn Róbert Marshall og Guðmund Steingrímsson um stuðning við fjárlagafrumvarpið. Væntanlega hafa þeir samningar tekið lengri tíma en menn ætluðu. Nú stefnir sem sagt í að fjárlögin verði afgreidd án þess að búið sé að afgreiða tekjuhluta fjárlaga og það er nýbreytni sem var tekin upp fyrir ári og er einkennilegt að skuli vera endurtekin. Svo var það gagnrýnt og svo var mjög lofað að reyna að bæta um betur og laga vinnubrögð að eðlilegu verklagi en það hefur því miður ekki gengið fram.

Ég vil enn fremur nefna eitt atriði sérstaklega sem lýtur að úttekt fjárlagafrumvarpsins. Eins og komið hefur fram var það fyrst tekið út úr nefndinni 11. desember. Þá voru tillögur um útgjöld til ýmissa verkefna lagðar fram, kynntar og teknar út á sama fundi. Ef mig misminnir ekki var þetta gert með sama hætti á síðasta ári. Tíminn til umræðu er ekki gefinn, hvorki til þess að leggja eitthvert mat á þær tillögur né afla einhverra bakgrunnsgagna eins og æskilegt gæti verið. Þótt óskað hafi verið eftir gögnum hafa þau ekki enn þann dag í dag borist þrátt fyrir góð orð þar um frá hv. meiri hluta fjárlaganefndar. Það kom meðal annars fram í orðaskiptum hv. þingmanna áðan, hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, að ekki hefði borist hluti þeirra gagna sem óskað hafði verið eftir.

Ég nefni bara tvö dæmi hér, það var óskað eftir skriflegu minnisblaði ríkisstjórnar varðandi samþykkt hennar frá 30. nóvember um byggingu háskólasjúkrahúss og enn fremur var óskað eftir gögnum um áform um byggingu hjá Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hvorugt hefur skilað sér.

Í þessari aðstöðu sjá allir sem vilja að stjórnarandstaðan hefur akkúrat ekki nokkra einustu möguleika á að afla sér gagna sem hún telur sig þurfa til að geta tekið afstöðu til mála sem hún telur nauðsynlegt.

Það er annað atriði sem lýtur að breyttu fyrirkomulagi og vinnuferli svokallaðra safnliða þar sem er algert brot á þeim áformum sem uppi höfðu verið. Ég geri ráð fyrir því að ýmsir þingmenn eigi eftir að ræða það töluvert í dag, en meginatriðið í þeim efnum er að þar var gert ráð fyrir því að umsækjendur um styrki til ríkisins sem áður höfðu verið á svokölluðum safnliðum færu til ráðuneyta og sjóða. Hugsunin var sú að umsækjendum yrði ekki mismunað ef maður getur sagt sem svo, en við sjáum það bæði í tillögum frá ráðuneytum um einstakar fjárveitingar og síðan frá meiri hluta fjárlaganefndar að það er einfaldlega farið að mismuna umsækjendum í þessu efni. Ég fullyrði að miðað við núverandi fyrirkomulag hefði ég fremur kosið gamla vinnulagið áfram áður en hið nýja var borið upp. Það hefur ekki virkað og ég tel þann hátt til muna verri sem hafður er á þessum málum í dag en það verklag sem áður var tíðkað.

Ég vil líka gera hér að sérstöku umtalsefni þann þátt sem ekki er í fjárlagafrumvarpinu, vantalin útgjöld og skuldbindingar. Við höfum reynt, vissulega af nokkrum vanefnum, í 1. minni hluta fjárlaganefndar að slá einhverju máli á það í krónutölu hversu háar fjárhæðir hér er um að ræða sem standa utan fjárlagafrumvarpsins. Við ætlum að það sé einhvers staðar á bilinu 15–20 milljarðar kr. sem ættu með réttu að teljast til gjalda í því frumvarpi sem stjórnarmeirihlutinn leggur hér fram og ég efa það ekki að þegar ríkisreikningur fyrir árið 2013 verður lagður fram muni útgjöld samkvæmt honum vera að minnsta kosti hærri sem nemur þeirri tölu sem við erum að reyna að slá hér á.

Þannig er reynsla síðustu þriggja ára og ef við lítum bara til áranna 2010 og 2011 er mismunur raunverulegrar útkomu í ríkisreikningi og fjárlaga þessara tveggja ára rétt rúmlega 90 milljarðar kr. samanlagt sem hallinn varð meiri en fjárlög höfðu ætlað að yrði. Mér er til efs að sú staða hafi verið borin á gullnum vængjum af stjórnvöldum til kynningar erlendis.

Þessi atriði sem við teljum að standi tvímælalaust út af og eru stærstu þættir þessa máls eru útgjöld vegna Íbúðalánasjóðs, útgjöld vegna A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, útgjöld vegna Hörpu sem eiga eftir að koma inn og raunar Sinfóníunnar líka. Í skýringu sem tekin var út á síðari fjárlaganefndarfundinum sem haldinn var 12. desember kemur fram að það eigi að fara að hækka leigugreiðslu til Sinfóníunnar. Þær greiðslur renna bara beint til Reykjavíkurborgar. Sinfónían í dag er ekki í neinum fjárhagsvandræðum því að það er búið að leiðrétta hennar grunn.

Sömuleiðis er um að ræða skuldir Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana. Það eru skuldir bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi og eins og ég gat um áðan má ætla að útgjaldaauki sem er vantalinn að þessu leytinu sé einhvers staðar á bilinu 15–20 milljarðar kr. og ég fullyrði að við erum ekki að leggja of mikið í það mat. Ég ítreka þó að okkur skortir grunn til þess að gera ítarlega tillögu í þeim efnum.

Það liggur einnig fyrir og kom raunar fram í andsvörum áðan við ræðu hv. formanns fjárlaganefndar að það skortir fjárveitingar inn í frumvarpið til stuðnings þeirri hagspá sem frumvarpið sjálft er grundvallað á. Þannig gerir Hagstofan í sinni þjóðhagsspá ráð fyrir ákveðnum framkvæmdum sem vissulega eru umdeildar en eru engu að síður forsendur í þeirri þjóðhagsspá sem frumvarpið byggir á. Hagstofan gerir þá ráð fyrir að þær gangi eftir en við sjáum þess ekki stað í fjárlagafrumvarpinu að útgjöld séu ætluð til þessara verkefna. Það er mat þeirra sem um þessi mál véla að það skorti verulegar fjárhæðir inn til að styrkja innviði og leggja í uppbyggingu innviða sem tengjast framkvæmdum á að minnsta kosti tveimur stöðum á landinu og hefur oft verið staldrað við Þingeyjarsýslur í þeim efnum. Ég læt öðrum eftir að meta hversu háar fjárhæðir hér er um að ræða, þær þurfa sjálfsagt ekki að koma allar til gjalda á einu ári en í það minnsta vantar einhverjar fjárhagslegar stærðir inn í frumvarpið ef það á að vera heimild fyrir hæstv. fjármálaráðherra til að standa að útgreiðslum undir þeim verkefnum sem þarna bíða. Og þau koma, ég er alveg sannfærður um það. Það liggur fyrir að Landsvirkjun beinir öllum áhugasömum orkukaupendum á þetta eina tiltekna svæði þar sem væntanlega er skjótvirkast að afhenda orku í þeim mæli sem eftir er spurt. Mat okkar í 1. minni hluta fjárlaganefndar er að ef þau verkefni sem þarna um ræðir ganga ekki eftir sé forsendan fyrir ákveðnum hluta tekjuáætlunar fjárlaga brostin. Forsendan í þjóðhagsspánni er sú að þarna verði byggt upp.

Sömuleiðis má telja til ákveðinna þátta sem út af standa að ekki er gert ráð fyrir því að grípa til neinna ráðstafana vegna þess vanda sem skapast hefur á ýmsum heilbrigðisstofnunum landsins og birtast alþjóð meðal annars í fjöldauppsögnum hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum. Ég vil enn fremur og undir lokin nefna það hér í þessum þætti að þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnarmeirihlutans er ekki horfst í augu við þann vaxandi vanda sem B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins glímir við en í árslok 2011 má ætla að hrein skuldbinding B-deildar LSR hafi verið 373 milljarðar kr. en þegar tekið er tillit til skuldbindinga annarra stofnana á vegum sveitarfélaga eða ríkisins má ætla að þessi skuldbinding sé einhvers staðar í nágrenni við 400 milljarða. Það er veruleg upphæð og það er dapurlegt til þess að vita að ekki sé tekið tillit til hennar með einhverjum hætti eða að stjórnarmeirihlutinn treysti sér ekki til þess að ganga með einhverjum hætti á hólm við þá miklu áskorun sem felst í því að taka á þessum þætti.

Forgangsverkefni í ríkisfjármálum hlýtur að vera og á umfram allt að vera að lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Til þess er bara ein leið og hún er sú að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Okkar mat í 1. minni hluta er að það eigi skilyrðislaust að ráðstafa arði af eignum ríkissjóðs og tekjum af sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum til lækkunar á skuldum ríkissjóðs. Þegar maður skoðar yfirlit yfir stöðu og skuldir ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi áranna 2009, 2010 og 2011 blasa þar við slíkar stærðir að þær vekja beyg í brjósti, ég skal bara viðurkenna það. Heildarskuldir aukast um 150 milljarða á þessum þremur árum og það er alveg með ólíkindum að hlýða á eða lesa texta eftir hæstv. forustumenn ríkisstjórnarinnar, núverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, ár eftir ár um að það séu sífelld tímamót í glímunni við ríkisskuldir og ríkisfjárlög.

Þetta er ekki rétt, því miður — því miður, segi ég. Ef maður ber þetta saman við þær upplýsingar sem er að finna frá Hagstofu Íslands eru þær ekki í góðu samræmi, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, við þær stórkarlalegu yfirlýsingar, pólitísku yfirlýsingar eins og ég vil kalla þær, sem forustumenn ríkisstjórnarinnar gefa annað slagið. Það er skiljanlegt að það sé reynt að berja fólki kjark í brjóst en það á ekki að gera það með þeim hætti að gefa til kynna að við séum komin á lygnan sjó varðandi skuldir og vaxtagjöld ríkissjóðs. Það er langur vegur frá, því miður.

Ef við horfum á afkomu ríkisins á þessum árum er alveg ljóst að hallinn bæði á árunum 2010 og 2011 jókst þvert á fjárlög og áherslur manna, uppgjörið var einfaldlega þannig að hallinn varð miklu meiri. Sömuleiðis gerðist það á árinu 2012 að hann varð miklu meiri en ætlað var og það má gera ráð fyrir því að á árinu 2012 megi ætla að hallinn verði um 50 milljarðar kr. sem er langt umfram það sem að var stefnt. Maður spyr sig eðlilega þegar forustumenn ríkisstjórnarinnar reyna að gefa þá mynd að við séum komin á lygnan sjó í þessum efnum hvernig í ósköpunum standi á því.

Annaðhvort er aðhaldsleysi í framkvæmd og fjármálalegri umsýslu um ríkissjóðinn eða þá að það er einhvers konar blekkingaleikur í gangi eða vanmat. Sú fullyrðing stendur út úr munni sérhvers stjórnarliða að agi og festa hafi aukist ár frá ári undir núverandi stjórnvöldum. Hvernig má þá vera að þróun skulda og vaxtagreiðslna ríkissjóðs er með þeim hætti að það er farið langt fram úr fjárlögum á hverju einasta ári? Ber það vott um aga og festu? Nei. Erum við þá komin að blekkingaleiknum? Er verið að blekkja menn eða er þetta vanmat?

Tæpast er þetta vanmat því að það stendur út úr munni allra stjórnarliða á hátíðisdögum að það sé sífellt verið að leggja fram raunhæfar upplýsingar um stöðu ríkisfjármála. Þegar ríkisreikningurinn er svo skoðaður kemur allt annað í ljós þannig að við erum komin að þeirri niðurstöðu að við séum að blekkja sjálf okkur. Það er sem sagt einhver blekkingaleikur í gangi. Hvort heldur er satt er hvorug aðgerðin til fyrirmyndar, aðhaldsleysið eða blekkingarnar. Það eina sem er gilt í þessum efnum er að staðan sem við er að glíma versnar ár frá ári hvað svo sem menn kunna að segja í þeim efnum. Menn verða með einhverjum hætti að fara að takast á við það í einhverri sameiningu.

Í þessu sambandi vil ég nefna einn þátt sem lýtur að skuldastöðunni, þann að meðal langtímaskulda ríkissjóðs — ég geri ráð fyrir því að þetta sé fært þar — sem eru í árslok 2011 1.300–1.400 milljarðar eru af þeirri stærð rétt tæpir 400 milljarðar vegna erlendra lána ríkissjóðs vegna gjaldeyrisforða landsins. Ríkissjóður skuldar 400 milljarða kr. í erlendum lánum vegna gjaldeyrisforða, gjaldeyrisforðinn er einhvers staðar um 1.100 milljarðar, hann er allur í skuld, og af þessum 400 milljörðum ber ríkissjóður 20 milljarða á ári í vexti. Ég held að það sé löngu tímabært að íslensk stjórnvöld svari þeirri spurningu hvað réttlæti það að íslenskt þjóðarbú, Seðlabanki og ríkissjóður, liggi með 1.100 milljarða skuldsettan gjaldeyrisforða. Hvað réttlætir það að halda úti svona háum gjaldeyrisforða öllum í skuld meðan allir landsmenn þurfa að greiða skatta sem nema 20 milljörðum til að geta haldið úti þessu erlenda 400 milljarða kr. láni?

Væri ekki skynsamlegra, og er það ekki gerlegt, að í stað þess að greiða þessa upphæð í vexti af erlendu láni að skila erlenda láninu, greiða þessa 20 milljarða inn á aðrar skuldir ríkissjóðs og byrja að greiða niður aðrar skuldir? Við höfum hingað til ekki fengið nein önnur svör þegar spurt er út í stærðina á gjaldeyrisforðanum, hvers vegna hann þurfi að vera 1.100 milljarðar og allur í skuld, en þau að því stærri forði, þeim mun betra. Það skipti ekki máli þó að hann sé allur í skuld, það að geta sagt að forðinn sé 1.100 milljarðar hafi ákveðinn fælingarmátt. Það kann vel að vera en sá fælingarmáttur er þá verulega háu verði keyptur.

Í töflu sem við, 1. minni hluti, birtum í nefndaráliti okkar kemur fram að gera megi ráð fyrir að vaxtagjöld verði að öllu óbreyttu næstu fjögur ár, nálægt 400 milljörðum kr. Tekjur ríkissjóðs, heildartekjur, eru um 500 milljarðar kr. samkvæmt fjárlögum og næstu fjögur ár verðum við að greiða því sem næst eins árs tekjur eða langleiðina í það, 400 milljarða á móti 500 milljörðum um það bil. Þetta eru grófar tölur, afrúnnaðar, en þetta dregur ágætlega fram hversu gríðarleg stærð er að verða í þessum þætti. Þá verðum við líka að hafa í huga að staða ríkissjóðs gagnvart hækkun vaxtagjalda er afar áhættusöm. Þá ber að hafa tvennt í huga, annars vegar það að vextir á alþjóðamörkuðum hafa verið í algjöru lágmarki á undanförnum árum og hins vegar að það er mat þeirra sem gerst þekkja til að gjaldeyrishöftin, sem allir virðast vilja létta af ríkissjóði, lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs á meðan á þeim stendur. Ef einhver breyting er að verða í þeim efnum má búast við að vaxtakostnaður ríkissjóðs fari enn í nýjar hæðir.

Ég vil undir lok máls míns, forseti, nefna eitt mál sem kom inn, ekki á lokametrunum heldur á síðustu sentimetrunum í vinnu hv. fjárlaganefndar við fjárlög næsta árs. Það er ekki safnliður upp á milljón eða hálfa milljón eða útgjöld til verkefnis upp á 10 eða 20 milljónir, heldur er um að ræða tugmilljarða fjárfestingu í byggingu Landspítalans sem var kynnt fyrir fjárlaganefnd með sérstökum texta á fundi hennar 12. desember sl. þegar fjárlagatillaga meiri hlutans var afgreidd í annað sinn. Á þeim 24 tímum sem liðnir voru frá síðasta fundi hafði þetta mál komið inn í texta frá hv. meiri hluta nefndarinnar þar sem boðuð eru tugmilljarða útgjöld, ekki endilega á næsta ári heldur á næstu árum.

Sá málatilbúnaður sem þar var á ferð gerir ráð fyrir að horfið verði frá þeim áformum sem samstaða náðist um í lagasetningu á árinu 2010, þetta eru lög nr. 64/2010 um byggingu nýs Landspítala. Þar var uppleggið það að sú leið yrði farin að allar byggingar Landspítalans yrðu teknar á leigu til langs tíma. Nú er gerð sú breyting hjá meiri hlutanum að farin verði blönduð leið einkaframkvæmdar og opinberrar framkvæmdar. Þessi tillögugerð er í texta sögð byggja á minnisblaði frá 30. nóvember hjá ríkisstjórn Íslands. Það minnisblað hefur hvorki verið rætt né lagt fram í fjárlaganefnd og í texta frá meiri hluta fjárlaganefndar segir að ekki séu gerðar tillögur um nein fjárútlát í fjárlagafrumvarpinu á næsta ári en við frumvarpsgerð í janúar verði leitað eftir svigrúmi í langtímaáætlunum ríkisfjármála á næstu árum með það að markmiði að hefja framkvæmdir við stærstu verkþætti sem þessi opinbera framkvæmd er.

Við erum sem sagt að brjóta verkefnið upp með þeim hætti að í dag virðast menn treysta sér til að taka bróðurpart þess með aðferð sem á árinu 2010 var ekki talin tæk, þ.e. að ríkissjóður réði við að fara út í svo stóra fjárfestingu á þeim sama tíma og við höfðum, þá tiltölulega nýlega, samþykkt áætlun um opinber ríkisfjármál til ársins 2015. Nú meta menn stöðuna þannig að þetta sé unnt í dag. Jafnframt meta menn það þannig að það sé fært að fara að byggja tvö minnstu húsin, þ.e. sjúkrahótel og skrifstofu- og bílastæðahús, og þau geti rúmast í hinni svokölluðu einkaframkvæmd.

Ekki er gerð tillaga um þetta í fjárlögum. Þegar við vorum að ræða þetta mál sumarið 2010 var talað um að ein af forsendunum fyrir þessari einkaframkvæmdarleið sem þá var lagt upp með væri sú að hægt væri að hagræða í rekstri Landspítalans til að standa undir öllum afborgunum sem leiddi af þessu verki, leigunni. Hvergi er staf að sjá fyrir forsendum þess að unnt verði að gera það með einhverjum sambærilegum hætti í þeirri leið sem hér er lögð til, ekki nein, málið hefur ekki hlotið neina skoðun. Ein af forsendunum fyrir því að þetta yrði að gera og ná fram hagræðingu var sú að Landspítali – háskólasjúkrahús væri þá að reka sig á einum stað í einu húsi. Ef þetta gengi eftir, sú forsenda og sú leið sem núverandi meiri hluti er að fara, mun Landspítalinn bera rekstrarkostnað með einhverjum hætti af þremur stöðum, Fossvogi, Hringbraut og síðan af þessu skrifstofurými og bílastæðahúsi, þannig að það eru komnar þrjár einingar. Ekki nema menn ætli sér með einhverjum hætti að mæta auknum útgjöldum sem af því leiðir.

Allt það sem ég hef sagt, forseti, bendir til þess að ég hafi ekki djúpan skilning á þeirri tillögu sem liggur fyrir. Hvernig má það vera, eftir þá vinnu sem fjárlaganefnd vann á árinu 2010 og náði saman um, að þá standi einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar og horfi á þetta verkefni í forundran? Kannski vegna þess að þetta hefur ekki verið rætt við stjórnarandstöðuna heldur er bara birt henni sisvona. Ég segi það fullum fetum að mér finnst það ekki boðlegt þegar verið er að ræða fjárfestingu og uppbyggingu upp á tugi milljarða kr. Látum vera ef hér væri um að ræða safnlið eða eitthvert smáverkefni, þá gæti verið að maður sæi í gegnum fingur sér varðandi þetta verklag. En að birta stjórnarandstöðunni í fjárlaganefnd þessi áform með þeim hætti sem gert var er algjörlega óboðlegt. Við höfum staðið með þessu verkefni, við studdum þá sátt sem um það náðist 4. júní 2010. Forsendur fyrir þeirri sátt, eins og málið hefur verið birt okkur og með þeim litla rökstuðningi sem í því er að finna, eru farnar, algjörlega farnar.

Ég minni á orð sem féllu við umræðu um þetta mál og þá breytingartillögu sem sátt náðist um í júní 2010. Ég minni á orð þáverandi formanns fjárlaganefndar sem hann sagði þegar málið kom til afgreiðslu 11. júní 2010 en svo vill til að þáverandi formaður fjárlaganefndar er núverandi hæstv. velferðarráðherra. Ég hvet hv. fulltrúa stjórnarinnar í fjárlaganefnd að kynna sér þau orð sem þar voru viðhöfð því að þá var uppleggið eitt mál í einni heild. Það er verið að brjóta þetta upp algjörlega frá grunni. Í ljósi þeirra orða sem ég viðhafði varðandi skuldastöðuna og það umfang og þann vöxt sem í henni hefur verið er þetta óboðlegt vinnulag, þ.e. ef menn vilja einhverja sátt meðal stjórnmálaafla á Íslandi um það verkefni að ná tökum á og koma böndum á þann kostnað sem af skuldsetningunni leiðir.

Mikið hefur verið gantast með það í fjárlagaumræðunni, og sérstaklega við það sem kallað var málþóf í 2. umr., hvar tillögur sjálfstæðismanna væru. Ræðum það örlítið. Við fjárlagagerð núverandi ríkisstjórnar hafa sjálfstæðismenn lagt fram 157 tillögur til breytinga. Hvernig hefur farið með þær? Hverju hefur sú vinna skilað? Öllu tekið fagnandi? Langur vegur frá. Við höfum boðið upp á ýmsar leiðir í vinnu og samstarfi með meiri hlutanum, meiri niðurskurð í samstarfi, breyttar útgjaldaheimildir, tekjur á móti o.s.frv. Við höfum reynt að nálgast málið frá öllum hliðum enda bera þessar 157 tillögur vott um það.

Þetta hefur ekki fengist rætt í fjárlaganefnd, hvað þá að stjórnarmeirihlutinn hafi tekið tillit til einnar einustu tillögu við afgreiðslu fjárlaga. Öllu hafnað, ekki rætt. Svo standa stjórnarliðar á blístri og kalla eftir frekari tillögum frá stjórnarandstöðunni. Til hvers? Til þess að þeir geti fellt þær? Leikið sér að mönnum eins og köttur að mús? Það fellur ágætlega að þeirri afstöðu sem kom fram hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni hér áðan í andsvörum þegar hann sagði: Meiri hlutinn ræður. Eitt orð um það. Stóð aldrei til að hlusta á það sem kom frá þeim?

Það er alveg ljóst, eins og er ítrekað í nefndaráliti 1. minni hluta, að við mótmælum þessum starfsháttum. Við höfum talið farsælla og höfum reynt að leggja okkur fram um það í starfinu í fjárlaganefnd að gefinn sé tími til samstarfs og samvinnu um úrlausn þeirra mála sem við höfum gert að umtalsefni í nefndaráliti okkar. Ég er þeirrar skoðunar að okkur muni ekki ganga nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum að koma böndum á þessa stöðugu skuldsetningu ríkissjóðs, sem er vaxandi. Nettóskuldir ríkissjóðs hafa farið úr 48%, neikvæðar, 48% af vergri landsframleiðslu árið 2010 upp í 55% af vergri landsframleiðslu árið 2011 og það er gríðarlega alvarlegt. Ég er sannfærður um að ef við leggjumst ekki yfir þetta saman mun okkur ekki ganga nokkurn skapaðan hlut í að taka á þessum þáttum. Meðan þetta fyrirkomulag er hér sem ég hef gert að umtalsefni tel ég það ekki þjóna nokkrum sköpuðum hlut að reyna í blóðspreng að berja saman breytingartillögur og allra síst við ófullburða frumvarp eins og það frumvarp sem við ræðum hér og ég hef lýst í ræðu minni.

Það er alveg ljóst að þessar breytingartillögur — sem meiri hluta fjárlaganefndar ber að gera en hefur ekki tækifæri til og ekki síður þær breytingartillögur sem stjórnarandstaðan ætlar að færa fram — vinnast ekkert í lokuðu nefndarherbergi fjárlaganefndar. Það þurfa allir að koma að því, stofnanir, forstöðumenn þeirra, ráðuneyti, fulltrúar þeirra sem þjónustunnar njóta og þeirra sem þjónustuna veita. Umfangið er þannig á því viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir.

Og þó svo — það ber að geta þess í lokin og þakka fyrir það sem vel er gert — hallinn hafi dregist saman eru neikvæðu þættirnir engu að síður mér ofar í huga, þeir eru sýnu mun alvarlegri vegna þess hvernig vöxturinn í þeim er. Við teljum þetta ófullburða frumvarp og ekki boðlegt til afgreiðslu hér. Þrátt fyrir þau orð vil ég fyrir hönd okkar í 1. minni hlutanum þakka samnefndarmönnum og samstarfsmönnum í nefndinni ágætissamstarf svona lengstum. Þó að hvíni í getum við alltaf rætt saman, það er ágætt öðru hvoru og við höldum því vonandi áfram.

Ég læt máli mínu lokið að sinni, forseti.