141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:53]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Nú er það svo, virðulegi forseti, að þorri tillagnanna og málanna sem eru rædd og reifuð og afgreidd við fjárlagagerð njóta þverpólitísks stuðnings eins og við höfum séð í umræðunni hérna. Við ræddum til dæmis fyrir 2. umr. hvort við yrðum ekki að leiða til lykta fyrir 3. umr. mál eins og óskiptan pott til löggæslunnar til að bregðast við uppsöfnuðum halla löggæsluembætta úti á landi og mörg önnur slík einstök mál sem hægt væri að tína til. Og ég fullyrði að um allan þorra málanna, nánast öll, er þverpólitísk samstaða. Það er blæbrigðamunur á og þess vegna held ég að stjórnarandstaðan leggi ekki fram neinar breytingartillögur, af því að í raun og veru er enginn grundvallarmunur á þeirri tillögugerð sem þar kemur fram og þessu. Þó að um sé að ræða blæbrigðamun, kannski frestun á einhverjum verkefnum, eitt og eitt tekið út, held ég að í grunninn sé nokkuð breið samstaða um alla þá tillögugerð sem hér er um að ræða.