141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er miklu meira en blæbrigðamunur á afstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu í hinu stóra samhengi ríkisfjármálanna. Við í 1. minni hluta höldum því fram og ég fullyrði með réttu, einfaldlega vegna þess að það byggir á þeim upplýsingum sem eru lagðar fyrir þingið af hlutlægum aðilum og birtast í ríkisreikningi, að ríkisfjármálin séu á rangri leið, þ.e. að menn horfist ekki í augu við vandann sem við blasir. Við sjáum þess stað, virðulegi forseti, í þeim útgjaldaliðum sem meiri hluti fjárlaganefndar tekst ekki á við og ég nefndi hér að væru einhvers staðar á bilinu 15–20 milljarðar kr. Það eru veruleg frávik. Ef við sammæltumst um að leggja mat á þessar stærðir held ég líka að við gætum sammælst um ákveðnar aðgerðir sem leiddu til þess að hallarekstri ríkissjóðs yrði hætt og við færum að greiða niður skuldir.