141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið, ég gleymdi því áðan. Ef hv. þingmaður læsi tillöguna er það tillaga til lækkunar útgjalda að ófyrirséðu. Það má líka hugsa sér það að ef þessi tillaga gengi eftir og yrði samþykkt þá lækka vextir og afborganir af skuldum ríkissjóðs. Við erum ekkert að velta okkur upp úr því. Það má líka hugsa sér sem svo að hægt sé að draga úr gjöldum á öðrum sviðum en þeim sem við erum að tala um, þótt ekki væri nema það að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir samþykkti þá tillögu sem nýr meiri hluti í utanríkismálanefnd boðar, um að hætta við og stöðva hið vonlausa ferli um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það mundi spara ríkissjóði hátt í milljarð á komandi ári og ég vænti góðs stuðnings hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur við þá tillögu þegar hún kemur fram. Ekki síður vænti ég stuðnings hv. þingmanns við að kalla til baka þau áform sem hækka skuldir (Forseti hringir.) ofurskuldsettra íslenskra heimila, kalla til baka 6–8 milljarða hækkun á þeim.