141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:10]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fullyrti aldrei neitt um að staðan væri góð eða ásættanleg. Hún er misjöfn á milli stofnana. Það hefur verið reynt að halda þannig á hlutum að hún hafi lafað í því víðast að vera ásættanleg í gegnum erfið ríkisfjárlög síðustu ára.

Bara til að klára þetta með verklagið, til að undirstrika hvað ég tel að verklagið hafi batnað stórum í fjárlaganefnd á þessum missirum, þó að menn geti lengi bætt það áfram, má nefna mál sem hefði mátt ræða ítarlegar. Ég held að það eitt og sér að útvista safnliðavinnunni meira og minna allri til fagráðuneyta, landshlutasjóða og menningarsjóða hafi sparað gríðarlega mikinn tíma í nefndinni sem gat þá betur fjallað um aðra þætti frumvarpsins. Eins og hv. þingmenn vita skiptum við nefndinni upp í hópa, við tókum á móti miklum fjölda af fólki sem talaði fyrir sínum ágætu umsóknum og svo var setið yfir því hver ætti að fá og hver ekki og það var fengið álit úr fagnefndum. Það fór mikill tími í þetta og mikil vinna var unnin. Þessari vinnu var miklu betur komið í fagráðuneytum, landshlutasjóðum, menningarsjóðum o.s.frv. Það verklag var til mikilla bóta og fyrir vikið höfum við tíma til að sinna öðrum þáttum fjárlagafrumvarpsins, af því að safnliðunum var vistað þangað sem ég nefndi áðan.

Hin málin sem hv. þingmaður tæpti á voru rædd á ýmsum tímum á þessu kjörtímabili fyrr og nú. Eins og ég segi má lengi deila um hvort við hefðum átt að ræða einhver mál lengur eða oftar o.s.frv. en í það heila var fjallað betur og af meiri vandvirkni um frumvarp til laga um fjárlög íslenska ríkisins á þessu hausti en nokkurn tíma áður í þingsögunni. Dagafjöldinn segir það ekki einn og sér en hann, verklagið allt, útvistun safnliða og ýmislegt annað undirstrikar hvað menn hafa lagt sig fram um að bæta verklagið þannig að eftir standi heildsteyptari og betri umgjörð utan um ríkisfjármálin en nokkurn tímann áður.