141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona svo innilega, um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, að meiri hlutinn standi ekki í þeirri trú að því verki að bæta aga við fjárstjórn ríkisins sé lokið. Lítið sem ekkert hefur áunnist. Ég nefndi það í ræðunni minni að það stefndi í umtalsverðan halla árið 2010, hann jókst um 50–60 milljarða. Aftur árið 2011. Ef eitthvað er að marka þær upplýsingar sem komu fram á fundi fjárlaganefndar frá ráðuneytisstjóra um að Ísland sé á sama stalli og Ungverjaland þegar kemur að fráviki frá fjárlögum af ríkisreikningi á meðal OECD-ríkja erum við í verulegum vandræðum.

Ég á bágt með að sjá að það að úthýsa safnliðum í svokallaðri faglegri vinnu eigi við rök að styðjast. Nú er enginn sérstakur sérfræðingur sem kemur að þessu, það eru bara starfsmenn ráðuneytisins. Með fullri virðingu fyrir því góða fólki er það bara alveg jafnmikið inni í málum og starfsmenn fjárlaganefndar. Sú vinna sem vissulega sparaðist var skemmtilegasta og besta vinnan sem átti sér stað í fjárlaganefnd vegna þess að þar komust fjárlaganefndarmenn í kynni við venjulegt fólk sem barðist í bökkum, var að reyna að koma af stað nýsköpunarverkefnum, vann að menningu eða listum á landsbyggðinni. Þetta var einstakt tækifæri fyrir þingmenn að fá það beint í æð hvernig gengi, hvað væri raunhæft og hvað ekki og til þess að átta sig á því hvernig lífið í landinu er. Það var rangt (Forseti hringir.) að fjarlægja almenning frá fjárlaganefnd, við áttum miklu frekar að koma nær honum.