141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Svarið er mjög einfalt, eins og ég geri ráð fyrir að þingmaðurinn viti mjög vel: Ég hef ekki séð þau gögn sem þingmaðurinn vísar í. Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af er að meiri hlutinn sé farinn að líta svo á að það að geta hugsanlega bent á aukinn dagafjölda eða einhverja tölfræði þýði að hin efnislega umræða og hin vandaða málsmeðferð hafi farið fram. Það hefur hún hins vegar ekki gert og ég færði fyrir því rök í ræðu minni áðan eins vel og ég gat.

Þetta er svipað og þegar almenningur telur að þeir þingmenn sem tala lengst hafi hvað mest fram að færa þegar allir vita að auðvitað skiptir innihaldið máli. Innihaldið í fjárlagagerðinni skiptir öllu máli eins og ég veit að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gerir sér grein fyrir vegna þess að hann hefur staðið sig mjög vel í öllu fjárlagaferlinu. Ég veit að hann er mjög vel inni í málinu.

Varðandi náttúruminjasýninguna er ágætt að benda á þá staðreynd að það var fullyrt að hún gæti staðið undir sér með aðgangseyri. Við bentum á það í stjórnarandstöðunni að það væri algjör útópía að halda því fram að það væri hægt ná upp í 500 milljónir í aðgangseyri á einhverri náttúruminjasýningu á ég veit ekki hve löngum tíma. Þau breyttu því í álitinu og það eru forkastanleg vinnubrögð vegna þess að eftir því sem ég best veit er algjörlega óheimilt að breyta áliti meiri hlutans eftir að það er tekið út úr fjárlaganefnd. Þetta er sérstaklega forkastanlegt í ljósi þess að hún þurfti að endurtaka álit sitt tvisvar. Meiri hlutinn breytti því milli einstakra funda eins og ég veit að þingmaðurinn (Forseti hringir.) man eftir.