141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:24]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Í upphafi máls míns vil ég segja að fjárlagafrumvarpið er eitt mikilvægasta frumvarp hverrar ríkisstjórnar. Það er pólitísk stefnuyfirlýsing. Þetta fjárlagafrumvarp og þau síðustu fjögur byggja á samkomulagi sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á útmánuðum 2008 og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verður seint bendlaður við félagshyggju eða norræna velferð. Ég mun í ræðu minni fjalla um, skýra og rökstyðja þær breytingartillögur sem ég hef lagt fram ásamt hv. þm. Lilju Mósesdóttur við 3. umr. en fyrst vil ég fjalla um fjárlögin almennt, einkum hvernig þau eru sett fram formlega.

Í ræðu 6. desember í fyrra gagnrýndi ég alvarlega framsetningu fjárlaga og sagði orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Við gerum einnig eftir þennan yfirlestur alvarlegar athugasemdir við framsetningu frumvarpsins, það er í raun illlæsilegt og uppsetning þess er í raun okkur til skammar. Það er mjög erfitt að lesa út úr því. Töflum með tölulegum upplýsingum er mjög ábótavant og skýringartextar á stundum villandi og mjög mismunandi framsettir þannig að það er afar erfitt að lesa í meintar forsendur þess, þ.e. niðurskurðarforsendur.

Ég hefði kosið að sjá töflurnar settar þannig upp að þar væru fjárlög 2011 og síðan verðlagsbreytingar og forsendur, síðan niðurskurður í hverjum lið og loks tillögurnar fyrir fjárlögin 2012. Því er ekki að heilsa. Það þarf að lesa vandlega skýringartextana, fara svo fram í sundurliðanirnar og síðan fram og til baka. Þetta er ærinn starfi og það er hægt að gera hann mun betur og ég velti fyrir mér af hverju þetta sé svona. Þetta er ekki nýmæli hjá hæstv. fjármálaráðherra, þetta hefur verið svona lengi, en það verður að verða bragarbót á þessu. Er þetta gert til þess að frumvarpið sé illlæsilegt og ekki aðgengilegt almenningi? Þarf maður að vera í fjárlaganefnd og vinna baki brotnu við frumvarpið frá 1. október til 2. umr. og svo milli 2. umr. og 3. umr. til að skilja þetta? Við, flutningsmenn þessara breytingartillagna erum bæði þokkalega töluglögg en ýmsir liðir eru þess eðlis að maður áttar sig ekki á þeim. Það virðist ýmislegt falið og ýmislegt villandi.“

Þessi gagnrýni við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012 á fyllilega við um fjárlagafrumvarp fyrir 2013. Það er óþolandi.

Af hverju er ekki stillt upp saman fjárveitingum til einstakra liða fyrir árið 2013 og fjárveitingum fyrir árið 2012, aftur eftir 3. umr., á sömu verðlagsforsendum og þannig að hækkanir eða lækkanir í prósentutölum komi jafnframt fram? Mér skilst, og vona að ég fari rétt með, að starfsmenn fjárlaganefndar búi til skjal í þá veru við meðferð málsins í fjárlaganefnd. Skýringar við fjölda liða í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 eru enn ófullnægjandi, jafnvel villandi, og það er erfitt að lesa út úr staðreyndum. Úr þessu verður að bæta þannig að bæði þingmenn og allur almenningur geti lesið frumvarpið sér til gagns og þurfi ekki að liggja yfir því í fleiri daga til að skilja það.

Sú var raunin, frú forseti, þegar ég lagðist yfir frumvarpið í fyrra og gerði breytingartillögur ásamt hv. þm. Lilju Mósesdóttur og sú var raunin aftur við þær tillögur sem við flytjum nú við fjárlagafrumvarp 2013. Það tekur þingmann sem er utan fjárlaganefndar marga daga að átta sig á forsendum þess og skýringum og að leita.

Fyrst vil ég segja að við hefðum í raun getað endurskrifað gjaldahlið frumvarpsins í heild og forgangsraðað með allt öðrum hætti í anda norrænnar velferðar. Í tillögum okkar, svo langt sem þær ná, er forgangsraðað í þágu félagshyggju, velferðar, jafnréttis og grunnstoða í samfélaginu. Við stiklum á stóru. Sumar tillögurnar eru táknrænar og eiga í reynd við um mun fleiri fjárlagaliði. Einnig vil ég taka skýrt fram að tillögur okkar fela ekki í sér útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð. Fjárhæðir aukinna fjárveitinga standast á við niðurskurðarfjárhæðir samkvæmt tillögum okkar. Við leggjum ekki fram tillögur um tekjuhlið frumvarpsins þótt full ástæða hefði verið til þess, en við sækjum einnig rökstuðning fyrir tillögum okkar í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil stikla á henni í nokkrum þáttum. Þar segir meðal annars, með leyfi frú forseta:

„Í nýafstöðnum kosningum veitti meiri hluti kjósenda jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki skýrt umboð til að halda áfram og leiða til öndvegis ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis. Ný ríkisstjórn starfar með þessi gildi að leiðarljósi í því skyni að skapa norrænt velferðarsamfélag á Íslandi, þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni.“

Á bls. 6 í samstarfsyfirlýsingunni, í kafla um varanlega velferð, er talað um jöfnuð, gott aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni. Í heilbrigðismálum er talað um að heilsugæsla um land allt verði sett í öndvegi og að fyrsti viðkomustaðurinn sé þar. Menntun á að vera leiðarljós. Neðst á bls. 13 er fjallað um lýðræði og mannréttindi og þar segir orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Aukin áhersla verður lögð á mannréttindafræðslu og kvenfrelsi.“

Á bls. 14 er svo haldið áfram, með leyfi herra forseta:

„Málaflokkur jafnréttismála fái aukið vægi innan stjórnkerfisins. Jafnréttisstofa verði efld og sjálfstæði hennar aukið.“

Jafnréttismál átti að flytja í forsætisráðuneytið, áhrif kvenna í endurreisninni átti að tryggja, það átti að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum og grípa til sértækra aðgerða ef þess væri þörf. Kynjasjónarmið átti að hafa að leiðarljósi í aðgerðum við atvinnusköpun o.s.frv.

Herra forseti. Ríkisstjórnin ásetti sér að grípa til aðgerða til að útrýma kynbundnum launamun í samvinnu við hagsmunasamtök. Ríkisstjórnin ætlaði líka að útrýma kynbundnu ofbeldi.

Því miður hefur þetta ekki gerst, þvert á móti hefur staðan versnað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Um frekari rökstuðning fyrir tillögum okkar og forgangsröðun vísa ég að öðru leyti til fyrrnefndrar ræðu minnar 6. desember 2011 við 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2012. Sjónarmið okkar eru óbreytt.

Herra forseti. Ég mun næst víkja að einstökum breytingartillögum. Þar er fyrst til að taka að ríkisstjórninni er veitt aukið fé á fjárlögum 2013 en við leggjum til 20 milljóna niðurskurð þar. Hið sama gildir um forsætisráðuneytið, aðalskrifstofu, þar leggjum við til 30 millj. kr. niðurskurð. Í þessu samhengi vil ég aftur vísa í ræðu mína frá 6. desember í fyrra. Tilvitnunin er svona, með leyfi herra forseta:

„Tökum eitt dæmi. Hverjar eru niðurskurðarforsendur frumvarpsins? Jú, þær eru að draga úr útgjöldum sem nemur 3% í almennri stjórnsýslu og þjónustu, 1,5% til velferðarmála, svo sem heilbrigðisþjónustu, bótakerfum, sjúkratryggingum en einnig í skólum, rannsóknarstofum og löggæslu. Þegar niðurskurðurinn er grannt skoðaður og reynt að lesa í hann er hann afar mismunandi. Hann nær alls ekki 3% í afar mörgum tilvikum. Það er að sjá, eftir þennan skamma yfirlestur, að ráðuneytin taki þessa niðurskurðarkröfu heildstætt yfir öll ráðuneytin þannig að það er mjög mismunandi hvernig niðurskurðurinn lendir og það er leitast við að ná meðaltalinu innan viðkomandi ráðuneyta … Það er beitt ýmsum brellum í því sambandi. Meðal annars rakst ég á það að tímabundin framlög á árinu 2011, sem féllu niður 2011, mynduðu forsendu 3% fyrir 2012. Þetta er ekki bara villandi, það er verið að spila rangt, það er rangt gefið.

Þannig er til dæmis aðalskrifstofu ráðuneyta almennt hlíft en ýmsar undirstofnanir sæta meiri niðurskurði.“

Svo hagar enn í þessu fjárlagafrumvarpi, það er aukið við ríkisstjórnarframlög, það er aukið við skrifstofu forsætisráðuneytisins og reyndar allar aðalskrifstofur. Það hefur verið aukið við aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins þó að verkefni þar hafi verið útvistuð og þeim fækkað verulega á þessu sviði. Og ég spyr: Hvar er aðhaldskrafan gagnvart forsætisráðuneytinu? Hæstv. forsætisráðherra ætti auðvitað að vera í fararbroddi.

Við leggjum til táknrænar hækkanir til Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Við leggjum til hækkun upp á 60 milljónir til náms á framhaldsstigi vegna aðstæðna á vinnumarkaði. Þessi liður var fyrir 3. umr. skorinn niður um 440 milljónir og hv. formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, gaf mér þá skýringu að þetta hefði verið flutt inn í framhaldsskólana. Þessi liður var til að efla nám atvinnulausra. Nám er vinna , en hina fluttu fjárveitingu á að nota til þess að flýta námi ungmenna í framhaldsskólum svo þau komist fyrr út á hinn óburðuga vinnumarkað. Það átti að flýta þeim í skóla. Þetta er afar gagnrýnisverður niðurskurður upp á 440 milljónir og hreint óskiljanlegur þegar maður horfir til þess að ríkisstjórnin kennir sig við norræna velferð og þess hversu dapurlegt er að ganga um atvinnulaus um lengri tíma. Þetta úrræði hentaði ákaflega vel langtímaatvinnulausum og fleirum.

Við erum líka með tillögu um hækkun til framhaldsfræðslu um 40 milljónir, til safna og menningarminja um 19,9 milljónir og við erum með hækkun til ýmissa íþróttamála sem ég vil gera örstutt að umtalsefni. Þetta er alls 50 milljóna hækkun, við bætum við 26 milljónum til Íþrótta- og Ólympíusambandsins, 11 milljónum til ferðasjóðs Íþróttasambands Íslands, 4,1 til Íþróttasambands fatlaðra og 8,7 til Afrekssjóðs ÍSÍ. Þetta er gríðarlega þýðingarmikið æskulýðsmál, sérstaklega er það að afreksmenn okkar í íþróttum eru fyrirmynd fyrir æskulýðinn í landinu og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íþróttafólk á landsbyggðinni að njóta jafnræðis við íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu því að það þarf að ferðast mjög mikið. Ferðakostnaður er að sliga íþróttahreyfinguna á landsbyggðinni.

Hvað gerir ríkisstjórnin milli 2. og 3. umr.? Jú, hún hækkar um 10 milljónir til Íþrótta- og Ólympíusambandsins en bætir svo inn nýjum liðum sem eru skíðasvæðið á Akureyri og Skáksambandið. Það er ekki komið til móts við ferðasjóð íþróttamanna og það er ekki komið til móts við kröfur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þar er fólk í nauð, það er hætt að geta sinnt starfseminni sem skyldi. Ég segi við hæstv. ríkisstjórn: Það er ekki nóg að mæta út á Keflavíkurflugvöll og taka á móti afreksfólki okkar eða halda því samsæti í Reykjavík, það þarf að sýna stuðninginn í öðru verki en móttökuboðum. Það væri betra að fella þessar móttökur niður og ferðakostnað til Keflavíkur og setja það fé í Afrekssjóð ÍSÍ og Íþróttasamband fatlaðra. Það á að forgangsraða í þágu æskulýðsins og það vita allir um uppeldisáhrif af glæstum árangri afreksfólks okkar á síðustu árum, bæði í hópíþróttum og einstaklingsíþróttum.

Herra forseti. Við lækkum framlög til Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins sem hefur verið aukið við um 81 milljón við 2. umr. Við lækkum það framlag um 25 milljónir.

Við erum hér að forgangsraða í þágu velferðar. Hið sama gildir um ýmis verkefni, þ.e. umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Við tökum af nýjan lið upp á 90 millj. kr. í þágu velferðar. Við lækkum hjá sendiráðunum um 75 milljónir. Þetta eru ekki stórar fjárhæðir en allt í þágu velferðar.

Hið sama gerum við við NATO, lækkum framlagið um 30 milljónir. Það hefði mátt gera mun meira þar en það er líka í þágu velferðar.

Þessi fjögur dæmi sem ég hef núna nefnt sýna mjög glöggt að ríkisstjórnin forgangsraðar ekki í þágu velferðar.

Við leggjum til 40 millj. kr. aukaframlag til matvælarannsókna sem ég tel afar mikilvægar og þær eru í anda samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Við leggjum til aukafjárveitingu til Hæstaréttar Íslands upp á 25 milljónir sem er allt of lítið og reyndar táknrænt því að það blasir við að Hæstiréttur Íslands hefur þegar fengið stór verkefni í kjölfar hrunsins, opinber mál, og mun á þessu ári og næstu árum þurfa að glíma við risavaxin ákærumál á sviði efnahagsmála. Við bregðumst við þar.

Svo eru nokkrir liðir varðandi kynbundið ofbeldi og kynbundinn launamun sem við einbeitum okkur að. Samkvæmt samstarfsyfirlýsingunni eru það forgangsverkefni. Við leggjum til að lögfræðiþjónusta neyðarmóttöku vegna nauðgana fái 4 milljónir. Ég kem að fleiri dæmum í þessa veru síðar í ræðu minni.

Við leggjum jafnframt til að löggæslan í landinu fái hlutfallslega, miðað við fjárveitingu samkvæmt fjárlagafrumvarpi, 650 millj. kr. viðbótarfjárveitingu. Hún skiptist á öll löggæsluembætti landsins. Löggæslan er orðin mjög brothætt. Ég þarf ekki að nefna nema lögreglustjórann á Selfossi og á Húsavík sem hafa gríðarstórum umdæmum að sinna en geta ekki sinnt lögbundnum verkefnum sem skyldi. Það er fullt af minni háttar brotum sem embættin verða hreinlega að horfa fram hjá. Í Árnessýslu gildir að þar fjölgar íbúum um helgar og á sumrin um 10–15 þúsund, jafnvel yfir vikuna vegna eigenda sumarbústaða sem nýta bústaði sína mun meira en áður tíðkaðist. Umdæmi löggæslunnar á Húsavík er risastórt og þar er einn maður á vakt. Þetta gengur ekki, löggæslan er komin að fótum fram og það þarf að gera eitthvað í þeim efnum.

Við bætum 25 milljónum við hælisleitendur. Þeim mun fjölga og það er óhjákvæmilegt að kostnaður aukist á næsta ári. Við setjum 10 milljónir inn í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál. Það er aftur í anda samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Svo er sérstakur liður sem ég vil vekja athygli herra forseta á, Jafnréttisstofa. Við leggjum til 75 millj. kr. framlag og það lítum við á að sé tímabundið og standi í þrjú ár til að vinna gegn kynbundnum launamun.

Í svari hv. formanns fjárlaganefndar, Björns Vals Gíslasonar, sagði að það hefði mátt búast við þessu vegna kreppunnar vegna hrunsins. Jú, við vissum það þegar ríkisstjórnin var stofnuð, það var óhjákvæmilegt. Ergo: Inn í samstarfsyfirlýsinguna fór áhersluatriði um að efla og ganga gegn þeirri þróun og minnka hinn kynbundna launamun á næstu árum. Það hefur verið farið þvert á það. Þeir sem skoða fjárveitingar til Jafnréttisstofu síðustu árin sjá að hún fer úr 130 milljónum á einhverjum árum niður í 80 milljónir. Þetta er auðvitað gjörsamlega óþolandi og í fullkominni þversögn við það sem við vissum að mundi gerast. Þess vegna ætluðum við að beita okkur gegn þessu á sínum tíma. Þetta er ein allsherjarvanefnd á samstarfsyfirlýsingunni.

Ég vil líka segja, herra forseti, að þarna koma þrír liðir, Kvennaathvarf í Reykjavík, 10 milljónir; Stígamót, 5 milljónir; athvarf fyrir heimilislausa. Aflið á Norðurlandi fær 5 milljónir, UN Women 5 milljónir og innflytjendaráð og móttaka flóttamanna sitt. Þessir liðir sem snúa að Stígamótum, Aflinu og Kvennaathvarfinu eru líka nákvæmlega í anda samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Þetta hefur ríkisstjórnin vanefnt illilega. Það böl sem kynbundið ofbeldi er er skelfilegt. Ég hef unnið að slíkum málum fyrir þolendur brotaflokksins og kalla þetta andlegt morð. Konur sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis bera sár alla ævi.

Ég nefni eitt dæmi. Ég las viðtal í blaði fyrir allmörgum árum um konu sem hafði verið nauðgað í Vesturbænum og hún upplýsti að hún hefði aldrei farið á vettvang, hún hefði aldrei farið nálægt þessum gerningsstað. Það sem vakti athygli mína í viðtalinu var ekki þetta, því að ég vissi að þolendur forðast staði, missa sjálfstraustið og sjálfsvirðingu og margt fleira sem eru varanlegar afleiðingar, en þessi kona sagði frá því að 50 ár væru liðin frá atburðinum. Hvar er skilningur ríkisstjórnarinnar á þessu? Nær hann bara yfir orð á blaði í samstarfsyfirlýsingunni? Mér finnst þetta ríkisstjórninni til skammar, mér finnst hneisa hvernig hún nálgast kynbundið ofbeldi og hvernig hún nálgast aukinn kynbundinn launamun.

Í samstarfsyfirlýsingunni segir að það eigi að tryggja stöðu kvenna í uppbyggingu eftir hrun. Hvað hefur gerst? Niðurskurður á heilbrigðiskerfinu hefur að um það bil 80% leyti bitnað á konum. Hann hefur farið beint í kvennastörfin; heilsugæsluna, umönnunarstörfin og annað. Verst er ástandið úti á landi, þar er sama hlutfall, ekki hefur það bara bitnað 80% á konum heldur er sama prósentutala á heilsugæslustöðvum og annars staðar á landsbyggðinni. Þetta fer beint þangað inn. Hvað er hæstv. ríkisstjórn að hugsa þegar hún setur á blað að það eigi að tryggja stöðu kvenna í endurbótum eftir hrun? Svo gerir hún þveröfugt.

Við gerum að tillögu okkar að heilsugæslan, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti um allt land, fái 825,9 millj. kr. og veitir ekki af. Það þekkja allir landsbyggðarþingmenn hvernig staðan er á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni. Þar er komið niður fyrir þolmörk og ég þarf ekki að rökstyðja það betur.

Við leggjum til að skattrannsóknastjóri fái 30 milljónir í viðbót. Það er táknrænt, við verðum að vinna gegn skattsvikum. Í hvað sækjum við þessar auknu fjárveitingar? Jú, í ófyrirséð útgjöld ríkisins sem eru komin upp í 6 milljarða og 6 milljónir og hafa hækkað frá árinu 2012 — nú verða hv. fjárlaganefndarmenn að leiðrétta mig — um meira en 3 milljarða. Hækkunin var upp á 2,7 milljarða og svo bættust við 770 milljónir við 2. umr. Ég vona að ég fari með rétt mál.

Hvar eru skýringarnar á þessu? Þær eru í fátæklegum texta á bls. 395 í fjárlagafrumvarpinu: Laun og verðlagsforsendur. Ekkert annað. Hvað réttlætir það að þessi liður hækki um á fjórða milljarð milli ára, hvað í launa- og verðlagsforsendum kallar á það? Ég held að þetta sé óútfylltur tékki til þess að smyrja í ljósi þess að kosningar fara í hönd.

Þarna sækjum við fé í velferðarmálin.

Við leggjum til að framlög til stjórnmálasamtaka falli niður. Það er líka táknrænt, en eiga ekki allir stjórnmálaflokkar að sitja við sama borð? Á að tryggja fjórflokkinn sem reyndar varð fimmflokkur en er núna aftur orðinn fjórflokkur miðað við hvernig Hreyfingin hugsar og er komin í stjórn? Eigum við að tryggja það með slíkum fjárframlögum eða eigum við að láta frelsi einstaklingsins ráða hvern hann kýs án fjárframlaga?

Eitt vil ég nefna til viðbótar, herra forseti. Við leggjum til tímabundið framlag í þriggja fasa rafvæðingu á landsbyggðinni, 500 milljónir hvert ár. Ef ég ætti að raða upp topp 5 á landsbyggðinni, eða jafnvel topp 3, held ég að þessi þáttur, þriggja fasa rafvæðing, mundi efla landsbyggðina meira en svo margt annað. Tól og tæki hjá bændum og víðar á svæðum sem eru ekki með þriggja fasa tengingu liggja undir skemmdum. Menn sem vilja fara af stað með lítinn iðnað og iðju úti á landsbyggðinni geta ekki byrjað af því að þeir fá ekki tengingu við þriggja fasa rafmagn. Þetta er atvinnuuppbygging, þarna gerir margt smátt eitt stórt. Margt smátt gerir eitt mjög stórt í þessum efnum, það þekkja hv. þingmenn landsbyggðarinnar í þaula.

Í þágu velferðar skerum við niður hjá Hagstofu Íslands um 100 milljónir. Og hvaða 100 milljónir skyldu það vera? Jú, það eru IPA-styrkir. Þetta er mótframlag Hagstofunnar vegna framlags IPA-styrkja, 100 milljóna framlag sem er hækkað á Hagstofuna. Það er ekki að Hagstofan sé illa rekin, hún tekur að sér verkefni og fær 100 milljónir fyrir. Við viljum það ekki.

Við hækkum á flutningssjóð olíuvara og jöfnun flutningskostnaðar og það stafar bara af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að landsbyggðarfólk sitji við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er ekki flóknara, eins og svo margt annað í þessum tillögum.

Svo leggjum við til að náttúrustofur á landinu fái hækkun um 40 milljónir sem skiptist jafnt á þær. Það að setja fé í náttúrustofurnar er í samræmi við hinar grænu hugmyndir ríkisstjórnarinnar, umhverfisverndina og annað slíkt. Þetta eru menningarstofnanir á landsbyggðinni sem eru gríðarlega mikilvægar. Það þarf að styrkja net þeirra en leggja ekki allt í stóra stofnun á Stór-Reykjavíkursvæðinu eins og tilhneigingin er alltaf. Menn láta í dag eins og rafræn samskipti gangi bara aðra leiðina, til Reykjavíkur eða út á land, það er ein rás. Það er eins og ekki sé hægt að nota rafræn samskipti og vinna rafrænt úti á landi. Það er nákvæmlega sama hvar maður er staðsettur á landinu meðan maður hefur rafrænar tengingar en því er því miður ekki að heilsa.

Herra forseti. Það líður að lokum ræðu minnar. Ég geng út frá því sem vísu miðað við grundvöll þessara tillagna minna sem sækja sér grunn í félagshyggju og norræna velferð að það vefjist ekki fyrir stjórnarþingmönnum að styðja flestallar þessar tillögur, sérstaklega þær sem sækja lóðbeinan rökstuðning í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Svo ég noti nú hugsun úr samstarfsyfirlýsingunni sem er orðuð þar einhvers staðar: Tillögurnar eru auk þess til þess fallnar að skapa norrænt velferðarsamfélag á Íslandi þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni. Hér er verið að leiða til öndvegis gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis sem ríkisstjórninni verður svo tíðrætt um í samstarfsyfirlýsingu sinni frá vordögum 2009.

Vilja nú hv. ríkisstjórnarþingmenn ekki láta verkin tala? Ekki setja þetta á blað án þess að hreyfa sig í raunhæfum fjárlagatillögum sem er kjarni þess að þessar tillögur nái fram að ganga. Annars eru þessi orð tómt hjóm.

Herra forseti. Sambærilegar tillögur okkar hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir fjárlög ársins 2012 voru felldar allar sem ein. Maður spyr sig, eins og hv. þingmenn hafa gert hér: Hver er tilgangurinn með þessu? Jú, það má segja að þetta sé stefnuyfirlýsing mín í örstuttu formi og hv. þm. Lilju Mósesdóttur en nú bendi ég hv. þingmönnum, og þá sérstaklega stjórnarþingmönnum, á að í hönd fara kosningar og það verður tekið eftir því hvernig atkvæðagreiðslan fer um einstaka liði þessara tillagna, sérstaklega tillögur sem lúta að því að uppfylla loforð sem fram koma í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að til dæmis tillagan um tímabundna fjárveitingu til Jafnréttisstofu í þrjú ár um 75 milljónir verði felld. Ég trúi því heldur ekki að landsbyggðarþingmenn felli þriggja fasa fjárveitingartillögu mína tímabundið til þriggja ára. Þeir þekkja allir betur. Batnandi stjórnarþingmönnum er best að lifa varðandi (Forseti hringir.) þessar tillögur og ég bind vonir við að þeir bregðist við af mikilli sanngirni.