141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:03]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins í fyrstu um stóru myndina en síðan ætla ég að fara í gegnum nokkrar af hinum einstöku tillögum. Við ræddum töluvert ítarlega við 2. umr. fjárlaga þróun ríkisfjármála á síðustu árum og stóru mynd hlutanna, hvernig staða ríkisfjármála hefði breyst gagngert og þegar upp er staðið með það frumvarp sem við ræðum núna er árangur meira en viðunandi, hann er mjög góður eins og hv. formaður fjárlaganefndar rakti ágætlega áðan.

Í gegnum þessa tíð aðhalds, niðurskurðar og erfiðleika í ríkisfjármálum og almennt í efnahag þjóðarinnar hefur svo sannarlega verið forgangsraðað í þágu velferðar og menntamála. Þó svo það megi endalaust og oft réttilega gagnrýna einstaka hluti og hefði eftir á séð mátt gera þá öðruvísi var öll þau ár sem þessi ríkisstjórn hefur setið alltaf haft að leiðarljósi að forgangsraða í þágu þeirra hluta. Hin harða gagnrýni sem kemur fram í nefndaráliti minni hluta eins og við röktum hér aðeins í umræðunni fyrr í dag tel ég að eigi ekki við rök að styðjast af því að mér finnst sem nefndarmanni í fjárlaganefnd núna þriðja veturinn í röð að verklag í nefndinni hafi breyst mjög til batnaðar.

Það skiptir miklu máli þegar safnliðunum, þó að ég hafi haft efasemdir um það á þeim tíma, var vistað út og réttilega komið fyrir í menningarsjóðum, landshlutasamtökum og fagráðuneytum, þar sem umsóknir um einstök verkefni sem snúa langflest að menningarmálum og safnastarfsemi ýmiss konar er komið fyrir mikið nær fólkinu, og í landshlutasjóðunum þar sem úthlutanir eru með faglegum og gegnsæjum hætti. Enginn grunur er um að þar ráði aðgangur einstakra að þingmönnum eða nefndarmönnum í fjárlaganefnd eða að það sé háð geðþótta einstakra nefndarmanna eða nefndarinnar hvernig framlögum er háttað. Þetta var ágæt breyting og sýnist hafa verið mjög heppileg eftir því sem tímanum vindur fram og reynsla kemst á verklagið.

Það er samt aldrei svo að fjárlaganefnd og Alþingi samþykki ekki ýmiss konar lagfæringar á fjárlagafrumvarpinu þar sem þarf að bæta í eða hliðra til o.s.frv. Það hlutverk verður aldrei tekið frá Alþingi og fjárlaganefndinni eins og við komum inn á hér á eftir og það stóð heldur aldrei til heldur að safnliðafyrirkomulaginu í heild sinni yrði fyrirkomið annars staðar. Þar með gefst miklu rýmri tími fyrir aðra þætti fjárlagafrumvarpsins og vinnu við þá í nefndinni af því að það fór mjög mikill tími og umfang í safnliðina á sínum tíma. Nú er hægt að einbeita sér að hinum stærri og veigameiri hliðum fjárlagagerðarinnar og gefist hefur mikið rýmri tími í fjárlagagerðina en nokkurn tímann áður. Það munar verulega um það að frumvarpið kom fram núna 11. september, fyrir liðlega 100 dögum síðan, og bættust þarna við mjög verðmætar þrjár vikur í vinnu við fjárlagagerðina. Það skiptir mjög miklu máli.

Þannig var hægt að vinna þetta af miklu meiri yfirvegun og vandvirkni heldur en nokkurn tímann áður. Ég fullyrði að allt verklag og vinnubrögð við fjárlagagerðina hafa batnað stórum á liðnum árum eftir að hafa verið stöðnuð í mjög langan tíma og aldrei hafi verið farið af meiri vandvirkni í einstaka þætti og betur að verki staðið en núna, alla vega ekki í mjög langan tíma. Verklagið einfaldlega gat það af sér. Sjálfsagt má finna einhverju stað í hinni mjög hörðu gagnrýni minni hlutans í nefndarálitinu sem var rakið fyrr í dag af framsögumanni minni hlutans en eins og ég nefndi þá hefði verið meiri þungi og vigt í þeirri gagnrýni ef henni hefðu fylgt tillögur frá upphafi til enda um ríkisfjármálagerðina og stjórnarandstaðan skilað af sér sinni tillögu að fjárlagagerðinni frá upphafi til enda eins og þekkist víða annars staðar. Þá hefðum við getað rætt það málefnalega út frá breytingartillögum stjórnar og stjórnarandstöðu og það stæði þá eftir fyrir almenning að meta hvort frumvarpið væri betra og heppilegra fyrir ríkisfjármálin heldur en hitt.

Aðeins að einstökum liðum sem komu inn við 3. umr. fjárlaga. Við höfum eytt töluverðum tíma í, eins og við gerðum hér við 2. umr., að fjalla um útfærslu á málefnum Íbúðalánasjóðs. Meiri hlutinn gerir tillögu um 13 milljarða framlag til sjóðsins til að styrkja eiginfjárstöðu hans til að hækka eigið fé upp í 3% af efnahag. Tillagan byggir á niðurstöðu starfshóps sem fjallaði um stöðu og horfur um efnahag Íbúðalánasjóðs. Framlagið er hins vegar ekki gjaldfært en kallar á hækkun vaxtagjalda upp á 585 millj. kr. þar sem framlagið er greitt með útgáfu skuldabréfa. Það bætist við vaxtagjöldin og það er sá liður sem kemur inn á fjárlögin.

Þá voru lagðar til nokkrar breytingar, eins og rætt hefur verið í dag, er varða fjárfestingaráætlunina. Það sem kannski skiptir mestu máli til framtíðar, þó að það komi ekki inn í fjárlög á þessu ári, eru áformin um nýjan landspítala sem hefur verið rætt um núna í mörg ár. Ágæt samstaða myndaðist um að fara þá leið sem reiknað var með sem var svokölluð leiguleið en þau áform hafa breyst eins og rakið er í nefndaráliti meiri hlutans. Í sameiginlegu minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra sem ríkisstjórnin samþykkti 30. nóvember er lagt til að um opinbera framkvæmd verði að ræða.

Ráðherrarnir leggja til að það verði undirbúið frumvarp um breytingar á umræddum lögum og það komi inn í þingið í janúar. Þá verður það rætt og útfært ítarlega eins og efni standa til og ekki eru gerðar tillögur um gjaldaheimildir núna. Við frumvarpsgerðina verði jafnframt athugað hvort finna megi svigrúm í langtímaáætlun um ríkisfjármál á næstu árum með það að markmiði að hefja framkvæmdir við stærstu verkþættina sem opinbera ríkisframkvæmd. Það hefur verið rakið hér í umræðum missirum saman hvað sú framkvæmd mun hafa mikil hagræðingaráhrif á rekstur Landspítalans fyrir utan að stórbæta alla heilbrigðisþjónustu í landinu.

Þá er lagt til að fjármunir verði lagðir til framhaldsskólanna með það að markmiði að undirbúa styttingu framhaldsskólanámsins í tengslum við gerð aðalnámskrár. Þessu er ástæða til að vekja sérstaka athygli á og fagna mjög. Framhaldsskólinn er hvergi lengri í heiminum en á Íslandi. Meðalútskriftaraldur stúdenta úr framhaldsskólum er hvergi hærri en á hérna þar sem hann er liðlega 21 ár og meðalnámstíminn er í kringum 5 ár meðan stúdentar almennt útskrifast 18 og 19 ára gamlir víðast hvar í Evrópu og í heiminum. Það er mjög ánægjulegt að setja eigi fjármuni í að undirbúa þetta. Ef vel verður að verki staðið mun það ekki einungis skila sér í betri framhaldsskóla og betra námi heldur arðbærari menntun fyrir einstaklingana alla sem eru fyrr í háskóla og fyrr úti á vinnumarkaði í staðinn fyrir framhaldsskóla sem hefur verið allt of lengi með því sniði sem við þekkjum í dag. Þótt hann hafi staðið sig vel og menntunin sé góð þá held ég að það skipti miklu máli að setja fjármuni í það að undirbúa breytingar á fyrirkomulagi námsins.

Það eru nokkur önnur verkefni sem ég vildi nefna sérstaklega því um er að ræða brýnar fjárfestingar í menntun, menningu, velferð og skapandi greinum sem koma inn sem breytingartillögur við 3. umr. Mál sem biðu og voru ekki útkljáð að fullu þegar 2. umr. fór fram en voru í skoðun og vinnu í nefndinni á milli umræðna. Fyrst vildi ég nefna aukið framlag til háskólanna í landinu. Þeir fá allir einhverja hækkun. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundna hækkun til að koma til móts við viðvarandi rekstrarvanda Landbúnaðarháskóla Íslands. Það segir í nefndaráliti að þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir síðustu ára hafi ekki tekist að ná jafnvægi í rekstri skólans og afleiðing þess sé uppsafnaður halli sem er verið að vinna að því að ná niður og þetta er framlag til þess. Þá er 40 millj. kr. framlag til Háskólans á Hólum. Uppsafnaður rekstrarhalli hans var 134 millj. kr. í árslok 2011 og er uppi áætlun um að ná honum niður og áformað að skipa starfshóp þriggja ráðuneyta til að fara yfir staðarhaldið þar í heild sinni í tengslum við rekstur skólans en kostnaður við það hefur numið um 20 millj. kr. á ári. Þarna er verið að leggja breytingar á staðarhaldinu til grundvallar framlaginu. Þá er gerð tillaga um 40 millj. kr. til Háskólans á Bifröst til að mæta fjárhagslegum vanda sem er meðal annars kominn til vegna verulegrar fækkunar á nemendum. Gert er ráð fyrir 43,5 millj. kr. tímabundinni hækkun framlags til Háskólans í Reykjavík til að koma til móts við nemendafjölgun í skólanum á milli ára. Þannig hefur verið miðað við 757 nemendur í reikniflokki 5 o.s.frv. Gerð er tillaga um 75 millj. kr. hækkun framlags til kennsluþátta Háskóla Íslands. Auk þess er tillagan auðvitað komin aftur inn sem var kippt til baka við 2. umr. til að útfæra betur það sem tengist fjárfestingaráætluninni og varðar byggingu á Húsi íslenskra fræða. Allt eru þetta fjárfestingar í menntun og áður var rakið hvernig framhaldsskólaframlögin komu til. Því má bæta við að gerð er tillaga um 30 millj. kr. framlag vegna bóklegs flugnáms. Þessu vildi ég öllu vekja athygli á af því að í máli ræðumanna hefur stundum verið látið að því liggja að hér sé um að ræða óþarfa og gæluverkefni en ég fullyrði það að hver einasta breytingartillaga sem er lögð til á svo sannarlega rétt á sér. Þær tengjast allar fjárfestingum og framlögum til innviða samfélagsins í menntun, menningu og velferð eins og ég rakti hérna áðan.

Ég ætla að bæta við nokkrum liðum til að varpa ljósi á breytingartillögurnar. Hérna er til dæmis lagt til 20 millj. kr. framlag eða millifærslu til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands vegna endurmats á fjárfestingaráætlun. Um er að ræða stuðning við umskipti smærri kvikmyndahúsa á landsbyggðinni og kvikmyndahúsa sem sýna listrænar kvikmyndir yfir í stafrænan sýningarbúnað o.s.frv. Þetta er mjög mikilvægt framlag og skiptir miklu máli í þessu tilliti.

Þá er gerð tillaga um 10 millj. kr. tímabundna hækkun vegna aukinnar starfsemi Snorrastofu, staðarhalds og endurskoðun á rekstrarsamningi við stofnunina. Þar fara fram mjög mikilsverð fræðastörf og skiptir miklu máli að standa myndarlega við bakið á þeirri starfsemi. Gert er ráð fyrir 4 millj. kr. tímabundnu framlagi til reksturs Skáksambands Íslands. Þar er unnið frábært og einstakt starf sem hefur skilað sér með margvíslegum hætti. Þetta eru allt lágar upphæðir en skipta starfsemina mjög miklu máli.

Ég vildi gera sérstaklega að umtalsefni það sem var rætt töluvert við 2. umr. fjárlaga og hefur verið í umræðunni í allt haust. Það er gerð tillaga um 200 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja einstök lögregluembætti og draga úr fækkun lögreglumanna og mæta uppsöfnuðum halla lögregluumdæmanna úti á landi. Innanríkisráðuneytinu er falið að skipta fjárhæðinni á embættin og byggja skiptinguna á rekstraráætlunum næsta árs. Að sjálfsögðu hefði verið hægt að verja meiri fjármunum til þessara hluta til að mæta uppsöfnuðum vanda og stöðu löggæslunnar enn þá frekar, sérstaklega hinna fámennu lögregluliða á landsbyggðinni, en ráðuneytið gerir ráð fyrir því að upphæðin dugi til að mæta brýnasta vandanum, mæta uppsöfnuðum halla einstakra lögregluembætta og koma í veg fyrir að fækka þurfi lögreglumönnum meira. Þeim hefur fækkað um 81 á síðustu fjórum árum og þessi pottur er sérstaklega til að koma í veg fyrir að þeim fækki enn frekar þegar horft er til framtíðar lögreglu svo hún geti farið að efla starfsemi sína á ný. Það á sérstaklega við um fámennari liðin úti á landi sem eiga erfitt með að manna vaktir og halda sinni starfsemi fyrir ofan öryggis- og þolmörk ef þarf að fækka frekar í liðunum. Á því var mikill skilningur og mikill og almennur stuðningur við málið eins og kom fram í fyrri umræðum um fjárlögin á þessu hausti. Eins og ég segi er ánægjulegt að þessi pottur sé lagður til þó það sé að sjálfsögðu hægt að færa rök fyrir því að hann hefði getað verið enn stærri til að ganga enn lengra í því að mæta þörfum einstakra lögregluembætta fyrir aukna fjármuni en innanríkisráðuneytið gerir ráð fyrir að potturinn dugi til að koma í veg fyrir að lögreglan þurfi að fækka meira í sínu liði.

Hérna er annar liður sem tengist lögreglu- og öryggismálum. Það er 25 millj. kr. hækkun á framlagi til Slysavarnafélagsins Landsbjargar en á undanförnum árum hefur fjárveiting lækkað í samræmi við hagræðingarmarkmið auk þess sem framlög frá þessum aðilum hafa dregist enn meira saman en framlag ríkisins á sama tíma og verkefnum hefur fjölgað mjög, svo sem hálendisvöktun, vegna strandveiða o.fl. Ferðamönnum hefur fjölgað mjög á fáum árum og auðvitað kemur þá til kasta Slysavarnafélagsins. Þetta er viðleitni til að styrkja starfsemi þeirra og kemur sér örugglega vel í þeim brýnu verkefnum sem á þeim hvíla.

Annað sem tengist löggæslumálunum er Landhelgisgæsla Íslands. Lögð er til 100 millj. kr. hækkun fjárveitinga til að tryggja rekstrarforsendur fyrir starfsemi Gæslunnar. Það er áætlað að sértekjur hennar dragist saman um allt að 310 millj. kr. á árinu 2013 vegna niðurskurðar verkefna á vegum Frontex og EFCA en fyrir liggur að ekki verður um frekari sérverkefni að ræða á næsta ári sökum samdráttar erlendis. Þetta er lagt til til að mæta þeirri stöðu.

Heilmikið var fjallað um sóknargjöldin í aðdraganda 3. umr. fjárlaga og reyndar fjárlagagerðinni í allt haust eins og hefur oft komið upp í fjárlagagerð liðinna ára. Eftir heilmiklar viðræður við kirkjunnar menn var niðurstaðan sú að gerð var tillaga um 45 millj. kr. hækkun á liðnum Sóknargjöld til þjóðkirkjunnar. Vil ég lýsa sérstakri ánægju með að náðst hafi samkomulag og sátt við þjóðkirkjuna um þau mál og þeir hafi gengið sáttir frá þeim viðræðum. Eins og hér er rakið í skýringum hafa forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og innanríkisráðuneyti haft stöðu þjóðkirkjunnar til skoðunar að undanförnu. Nú er engin aðhaldskrafa gerð vegna sóknargjalda trúfélaga í frumvarpinu og aðhaldskröfur vegna rekstrarframlags til þjóðkirkjunnar hafa á þessu tímabili verið áþekkar og til almennra stjórnsýslustofnana ríkisins. Hins vegar voru þær ákveðnar nokkuð hærri vegna framlaga til sókna og trúfélaga í ljósi þess að þau framlög höfðu vaxið mun örar á fyrri árum. Eftir þessa skoðun ráðuneytanna og samanburð málaflokka hefur verið ákveðið að fallast á að leggja til að greidd verði tímabundin viðbót við framlög vegna sókna og trúfélaga umfram það sem greitt verður samkvæmt forsendum í fjárlagafrumvarpinu og þar með samkvæmt því einingarverði sem þar er mælt fyrir um. Sú tímabundna viðbót er ætluð til að vega á móti þessum umfram skerðingum og er ráð gert fyrir að viðbótarframlög af sömu ástæðu verði greidd fyrir árin 2014 og 2015 og þau falli niður eftir það.

Forsenda fyrir ákvörðun um viðbótarframlagið er að fram fari endurskoðun á heildarfyrirkomulagi á fjárhagslegum samskiptum ríkisins, kirkjunnar og safnaða hennar og annarra trúfélaga. Í því felist bæði endurskoðun á samningi ríkisins og þjóðkirkjunnar á grundvelli kirkjujarðasamkomulags. Einnig er bent á að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjóðkirkjan fái launa- og verðlagshækkanir á sama hátt og almennar ríkisstofnanir. Einnig er gert ráð fyrir að framlög vegna sókna hækki miðað við spá um almennar verðhækkanir á milli ára.

Ég vildi nefna þennan lið sérstaklega af því að þó að þetta sé ekki ein af hæstu upphæðunum í breytingartillögunum fyrir 3. umr. fjárlaga er það eitt af þeim mikilsverðu samfélagsmálum, kirkjan og öll sú mikla starfsemi sem þar er innt af hendi, sem er mjög mikilsvert að ná samkomulagi um og að starfsemin sé rekin þannig að það sé ágæt sátt á milli ríkis og kirkju. Eftir heilmiklar viðræður náðist sú niðurstaða sem ég nefndi, gert er ráð fyrir tímabundnu framlagi til hækkunar til að mæta umframskerðingu fyrri ára, þrjú ár í röð. Ég lýsi sérstakri ánægju með að sú niðurstaða hafi náðst og að kirkjunnar menn hafi gengið nokkuð sáttir frá því.

Þá vildi ég nefna nokkur mál sem snerta heilbrigðis- og velferðarmálin eins og allar breytingartillögurnar gera. Þetta eru nánast allt breytingartillögur þar sem mismiklu er bætt við samneysluna út frá velferðar-, mennta-, menningar-, öryggismálum, allt mjög brýn mál. Þess vegna kallaði ég eftir því þegar hin harða ádrepa minni hlutans var hérna fyrr í dag að menn kæmu þá með tillögur um hvað megi falla út, hvað megi koma í staðinn og hvað megi fara öðruvísi bæði hvað varðar tekjur og gjöld. Það eru taldar brýnar ástæður fyrir því að leggja breytingartillögurnar til og það er gert eftir vandlega yfirferð. Það má alveg leggja til að klipið sé af íþrótta- og æskulýðsstarfsemi eða mennta-, menningar-, og velferðarstarfsemi en það hefur auðvitað áhrif. Okkar mat er sem sé það að þetta séu allt framlög sem skipta miklu máli til að efla velferð og velferðarþjónustu í sinni opnustu mynd í landinu.

Dæmi til viðbótar um það. Við þekkjum öll hvað starfsemi SÁÁ hefur skipt gífurlega miklu máli á síðustu áratugum. Þeir hafa með höndum mikilvægt hlutverk og eiga stóran þátt í heilbrigðisþjónustunni. Þetta eru sjálfstæð samtök en þeim er falið gífurlega mikið verkefni af því að þau hafa byggt upp alveg frábæra starfsemi á síðustu árum og hefur verið óskað sérstaklega eftir því á síðustu 1–2 árum að ná samkomulagi við ríkisvaldið um sérstaka þjónustu SÁÁ við eldri borgara. Hér er gerð tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til að byggja upp þjónustu við eldri borgara. Það er enn eitt dæmið um mjög mikilvæga starfsemi í okkar velferðarsamfélagi þar sem er verið að bæta í til að gera þessum samtökum auðveldara fyrir að sinna starfsemi sinni og svo þau geti komið sérstaklega til móts við eldri borgara, sem er hópur sem hefur stækkað mjög í heilbrigðisþjónustu þeirra. Af sama tagi er tillagan um 7 millj. kr. hækkun á framlagi til meðferðarheimilisins Hlaðgerðarkots í Mosfellsdal. Samhjálp rekur vistheimili fyrir áfengissjúklinga að Hlaðgerðarkoti og segir hér að óhjákvæmilegt sé að leggja í kostnaðarsamar framkvæmdir til að halda starfseminni áfram og þess vegna sé óskað eftir þessu tímabundna aukaframlagi til starfseminnar. Oft þurfi að sinna sjúklingum sem hafa ekki náð bata eftir hina hefðbundnu meðferð og hrakist út á jaðarinn í samfélaginu, leitað svo til Samhjálpar og náð þar oft fínum bata. Þetta er mjög mikilvægur þáttur í velferðar- og heilbrigðisþjónustunni sem Samhjálp hefur með að gera með til dæmis rekstri Hlaðgerðarkots. Verið er koma til móts við þarfir þeirra til að geta haldið starfsemi sinni óskertri við minnstu bræður okkar. Það er mikið ánægjuefni að samstaða náðist um að leggja til þessa tillögu.

Það er eitt stórt mál sem skiptir heilbrigðismálin miklu máli. Eins og við munum öll úr fjárlagagerðinni fyrir þremur árum þegar stóð til að skerða starfsemi spítalasviða heilbrigðisstofnana úti á landi voru mikil átök um það. Það var svo sem betur fer horfið frá því af því að heilbrigðisstofnanir úti á landi hafa með að gera tiltekna grunnþjónustu á spítalasviðinu. Þó að öll hin flóknari og ítarlegri starfsemi fari fram á Landspítalanum okkar allra var ákveðið að standa vörð um spítalasviðin og gera þeim kleift að starfa áfram. Hérna er verið að gera tillögu til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um 100 millj. kr. tímabundið framlag til fyrsta áfanga endurbyggingar og breytinga á eldri hluta Sjúkrahússins á Selfossi sem er komið á þann aldur að verulegs viðhalds er þörf, einkum á lagnakerfum en einnig á húsnæði vegna nýrra krafna um reglugerð um byggingar. Ég vil skjóta því að að búið er að hanna þessa framkvæmd að fullu, þetta er fyrsti áfangi af þremur í endurbyggingu spítalasviðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Búið er að hanna þetta allt saman, það liggur fyrir og hægt að fara beint af stað ef þetta verður samþykkt. Þetta er stór og mikil framkvæmd sem eykur auðvitað mjög gæði heilbrigðisþjónustunnar á þessu stóra og mikla svæði sem þjónustar ekki bara 15–20 þús. íbúa heldur tugi þúsunda sem eiga sitt annað heimili á þessum slóðum með heilsárshúsum sínum og auðvitað suma af þeim 600–700 þús. ferðamönnum sem fara um undirlendið á hverju einasta ári.

Það er sem sagt lagt til 100 millj. kr. framlag sem kemur í pott sem er þannig samsettur að með því að ráðstafa ónýttum fjárveitingum fyrri ára og með framlagi Fasteigna ríkissjóðs er búið að tryggja heildarfjármögnun á fyrsta áfanga verkefnisins. Eins og ég nefndi áðan er búið að vinna frumáætlun og fullgera aðalteikningar sem eru samþykktar hjá byggingarfulltrúum á lokastigi. Næsta verkefni er að afla heimilda til að hefja verkkönnun og gerð útboðsgagna. Þetta 100 millj. kr. framlag sem við leggjum til við breytingartillögu við 3. umr. gera það að verkum að búið er að fjármagna að fullu þennan fyrsta áfanga og hægt að fara í hann og ljúka gerð hans. Svo er það sjálfstæð ákvörðun Alþingis síðar að fara í næsta áfanga o.s.frv. Þannig að þetta eykur ekki bara framkvæmdastig tímabundið á svæðinu heldur stórbætir auðvitað starfsemi þessarar vel reknu fyrirmyndarstofnunar í heilbrigðiskerfi okkar.

Nú hef ég rakið þó nokkuð margar af þeim breytingartillögum sem við leggjum fram við 3. umr. fjárlaga. Ég hef engan enn þá heyrt nefna í umræðunni í dag hverjar af þeim mættu missa sig enda eins og ég sagði áðan eru þetta allt breytingartillögur sem eru lagðar til núna við 3. umr. eftir vandlega yfirlegu. Það hefur auðvitað verið unnið meðfram fjárlagagerðinni alla þá 100 daga sem hún hefur staðið formlega yfir á Alþingi síðan frumvarpið kom inn 11. september, 3 vikum fyrr en hefur tíðkast áratugum saman. Það gerði það að verkum að í nefndinni var hægt að vinna þetta af enn þá meiri vandvirkni og yfirvegun og liggja betur yfir einstökum liðum enda ber öll fjárlagagerðin þess svo sannarlega merki að vel hafi til tekist. Eins og ég segi er verið að leiðrétta og bæta í á ýmsum sviðum og gera mörgum mikilvægum og brýnum velferðarverkefnum kleift að fara af stað, hvort sem þau tengjast löggæslumálum, öryggismálum, sóknargjöldum til þjóðkirkjunnar, listum, menningarmálum, æskulýðsmálum, íþróttamálum eins og skákinni sem ég nefndi áðan eða fræðastörfum eins og Snorrastofu. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundna hækkun framlags til Fornminjasjóðs en sjóðurinn veitir styrki til rannsókna á fornminjum og heimild er til þess að styrkja viðhald annarra menningarminja. Þessi breytingartillaga er lögð fram eftir yfirferð á stöðu fornminjanna og það var ákall frá fornleifafræðingum um að bæta í þarna til að þeir gætu sinnt sínum brýnustu verkefnum. Niðurstaðan varð sú að leggja þessa fjárhæð til aukningar á framlagi til þeirra og er það án efa til mikilla bóta fyrir starfsemina, eins og þeir færðu sannfærandi rök fyrir.

Ég hef áður rakið aukin framlög til menntamála sem eru margs konar, bæði á háskóla- og framhaldsskólastigi, og væri hægt að bera víða niður en allt ber að sama brunni. Um er að ræða brýnar fjárfestingar í menntun, menningu og velferðarmálum í heild sinni. Til að útskýra rétt í lokin vegna umræðu um Hús íslenskra fræða stendur hérna 800 millj. kr. Það er þannig samsett að lagt er til tímabundið 800 millj. kr. framlag til að hefja framkvæmdir við byggingu Húss íslenskra fræða. Framkvæmdakostnaður er upp á 3,4 milljarða kr. og þar er hlutur ríkisins 2,4 milljarðar eða um 70% en hlutur Háskóla Íslands er 1 milljarður kr., þar af 650 þús. á árinu 2013. Sá hluti verður fjármagnaður með ráðstöfunarfé skólans frá Happdrætti Háskóla Íslands sem færist á tekjuhlið ríkissjóðs. Beinar greiðslur úr ríkissjóði vegna framkvæmdanna á næsta ári nema því um 150 millj. kr. Restin af þeirri upphæð, sem sagt á næsta ári, kemur frá háskólanum sjálfum eða Happdrætti Háskóla Íslands. Hönnunarferli þessarar miklu framkvæmd er lokið og verkið er tilbúið til útboðs. Það skiptir náttúrlega mjög miklu máli að geta farið af stað með framkvæmdina á þessum vetri.

Þá er ég búinn að tæpa á mörgum af helstu breytingartillögunum og því verklagi sem var viðhaft við fjárlagagerðina nú á þessu hausti.