141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:35]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fjárlögin í allri sinni mynd eru aldrei óskalisti einstakra þingmanna, ekki frekar en rammaáætlun eða stjórnarskrá eða önnur af þeim stærstu verkefnum sem við erum að vinna við. Þetta er auðvitað margt byggt á samkomulagi og málamiðlun um hvað skuli gert og hvað skuli ekki gert, það er endalaust álitaefni í hvað við skulum fara á hverjum tíma. Auðvitað er hægt að taka ákvörðun um að fresta framkvæmdum og bíða til seinni tíma, en það er samkomulag um að tiltekin verkefni séu inni í fjárlögum. Það er hart sótt af einhverjum og það er gerð málamiðlun um að fara í þetta og fara í hitt en láta annað bíða. Eitt af því sem var ákveðið að fara í, meðal annars í tengslum við fjárfestingaráætlun og svo fjárlögin, var Hús íslenskra fræða og voru færð fyrir því ágæt rök að heppilegt væri að fara út í þá framkvæmd. Ég held að það hafi verið ágætisniðurstaða að framlag happdrættisins væri aukið á næsta fjárlagaári fyrst þar var borð fyrir báru til að gera það. Eins og ég segi er álitaefni hvernig samsetningu og framvindu svona stórra verkefna er farið en ég held að það sé hyggilegt að fara í framkvæmdina. Ég er alveg sannfærður um það og auðvitað er verið að taka ákvörðun núna um að gera það. Það verður ekki til baka snúið eftir það, en það má alltaf rökræða hvað við eigum að gera og hvað ekki.

Hvað Íbúðalánasjóðinn varðar þá vitum við alveg að staða hans er erfið. Við höfum rakið hvernig hún er til komin frá því að uppgreiðslumál hófust og allt það, en það er engin önnur leið en að mæta vandanum þótt við vitum að það verði að taka á frekari og fleiri álitaefnum í rekstri hans síðar. Íbúðalánasjóður er ein af stærstu sameignum þjóðarinnar og við getum ekkert annað en brugðist við vandanum þótt við þurfum jafnvel að taka betur á honum síðar.