141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 3. umr. fjárlög ásamt tengdum aðgerðum. Ég verð að segja að ég tel þessi fjárlög marka nokkur tímamót eftir erfið ár sem við höfum átt á þessu kjörtímabili eftir hrun. Þessi fjárlög og ríkisfjármálaáætlun eru auðvitað órjúfanlegur hluti af efnahagsáætlun okkar og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar í heild. Það má segja að fjárlögin séu kjarninn í þeirri stefnu að ná böndum á ríkisfjármálin, loka því 216 milljarða kr. gati sem beið þessarar ríkisstjórnar að loka. Það hefur verið kjarninn í efnahagsstefnu okkar.

Í þessari ræðu ætla ég að fara yfir að minnsta kosti þrjár af lykilstoðum efnahagsstefnunnar. Í fyrsta lagi er okkur að takast að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og búa í haginn fyrir endurgreiðslu skulda. Festa og jafnvægi í ríkisfjármálunum er lykilatriði í að viðhalda fjármálastöðugleika, auka traust og tryggja þannig aðgengi að nauðsynlegri endurfjármögnun. Allt er þetta liður í því að hjálpa okkur við að losa fjármagnshöftin. Seðlabankastjóri hefur lýst því ítrekað yfir að það sé algjört lykilatriði að fjárlög verði hallalaus til þess að við getum losað fjármagnshöftin. Ég held að um það ríki bærilega góð samstaða í stjórnmálunum að það skipti máli að við náum að búa þannig í haginn að það geti gerst sem allra fyrst. Það skiptir máli fyrir atvinnulífið og það skiptir máli fyrir alla framtíð hér á landi að við búum ekki lengi á bak við fjármagnshöft.

Virðulegi forseti. Það skiptir líka verulegu máli að ríkisstjórninni og meiri hluta Alþingis hefur tekist á þessu kjörtímabili að fara úr 216 milljarða kr. fjárlagagati yfir í um það bil 3 milljarða gat eins og við verðum með á næsta ári. Þetta er algjör lykill að því að ná heildarjöfnuði árið 2014 eins og áætlanir gera ráð fyrir þannig að við getum farið að greiða niður skuldir. Við verðum með 0,2% halla á heildarjöfnuði á næsta ári ef allt gengur eftir eins og lítur út fyrir við afgreiðslu þessara fjárlaga. Það skiptir okkur verulega miklu máli að hafa náð þeim góða árangri. Við sjáum að ríki í kringum okkur kljást við mikinn vanda þegar kemur að halla á fjárlögum, allt upp í 8% af vergri landsframleiðslu, og á meðan erum við komin niður í 0,2%. Það eitt og sér hljótum við í þessum sal að vera sammála um að skipti verulega miklu, þó að okkur greini oft á um leiðirnar að því marki.

Í öðru lagi erum við líka að örva fjárfestingu því að brýna nauðsyn ber til að auka verðmætasköpun í landinu og framleiðni þannig að við getum mætt þörf næstu ára fyrir gjaldeyri. Í fjárlögum núna er að finna fjölmargar aðgerðir sem stuðla að þessu markmiði. Þeirra á meðal er stóraukinn stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þróun í atvinnulífi, skapandi greinar og græna hagkerfið. Það verður líka ráðist í átak við uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða til að byggja enn betur undir ferðaþjónustuna hér á landi með endurbótum á þekktum náttúruperlum en einnig með uppbyggingu á nýjum ferðamannastöðum. Þá er hafið ferli í fjárlagafrumvarpinu til lækkunar launatengdra gjalda með lækkun tryggingagjalds þó að vissulega hefðum við kosið að sú lækkun hefði getað orðið meiri.

Í þriðja lagi höldum við áfram að forgangsraða í þágu bættra kjara þeirra hópa sem rannsóknir sýna að þurfa hvað mest á kjarabótum að halda. Við gerð frumvarpsins var leitast við að bæta hag barnafjölskyldna enda hafa greiningar á stöðu íslenskra heimila sýnt okkur fram á að brýnast er að huga að kjörum barnafjölskyldna og tryggja velferð barna til framtíðar. Samanlagt er því 4,5 milljörðum kr. varið til hækkunar barnabóta og framlengingar sérstakrar hækkunar vaxtabóta. Alls munu því um 11 milljarðar kr. renna til barnafjölskyldna á næsta ári í kjölfar þessarar hækkunar. Þá eru líka ónefndar hækkanir framlaga til tækjakaupa á Landspítalanum, til fleiri mikilvægra velferðarmála og hækkanir framlaga sem við erum farin að geta skilað aftur til framhaldsskólanna og háskólanna í landinu. Það eru mikilvægar hækkanir.

Aðeins aftur um árangurinn í ríkisfjármálunum á þessu kjörtímabili. Markmið efnahagsáætlunar stjórnvalda hafa verið mjög skýr og einföld. Sett hafa verið tvö grunnviðmið hvað afkomu og rekstur ríkissjóðs varðar. Annars vegar hefur verið miðað við að frumjöfnuður í rekstri ríkisins verði orðinn jákvæður árið 2012 og hins vegar að heildarjöfnuður verði orðinn jákvæður árið 2014. Að þessu marki er nú unnið. Bæði markmiðin eru sett fram á greiðslugrunni í ríkisfjármálaáætluninni. Miðað við fjáraukalög ársins 2012 eru góðar horfur á því að markmið um jákvæðan frumjöfnuð verði uppfyllt á þessu ári, að frátöldum hugsanlegum óreglulegum færslum eins og ef til vill afskriftum hjá Íbúðalánasjóði eins og menn hafa rætt mikið í dag og ég mun víkja betur að í máli mínu á eftir. Markmið um jákvæðan frumjöfnuð er stór áfangi í að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs, ná niður vaxtakostnaði og treysta forsendur velferðarsamfélagsins til framtíðar litið.

Með þessi markmið að leiðarljósi var ráðist í aðgerðir frá og með miðju ári 2009 til þess að stöðva hallarekstur á skuldasöfnun ríkisins með tekjuöflun og samdrætti á útgjaldahlið ríkissjóðs. Það var ljóst að til að ná þeirri aðlögun sem stefnt var að þyrfti að fara þessa blönduðu leið tekjuöflunar og niðurskurðar. Ekki var talið mögulegt að ná fram markmiðum um jöfnuð ef einungis væri farin önnur leiðin. Of mikil lækkun útgjalda hefði haft afar neikvæð áhrif á eftirspurn í hagkerfinu og getu hins opinbera til að standa á bak við öflugt félagslegt velferðarkerfi. Það hefði einnig verið ógerlegt að ná fram aðlöguninni á tekjuhliðinni einni saman og þess vegna fórum við þessa blönduðu leið. Það hefur tekist með árangursríkum hætti að ná markmiðum í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013 með því að blanda saman þessum tveimur leiðum.

Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins á uppsöfnuðum áhrifum tekjuaðgerða nema þær samtals um 6,5% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu og lækkanir á fjárveitingum sem teknar hafa verið ákvarðanir um í fjárlögum, þ.e. niðurskurðurinn, nema samtals um 7,4% af vergri landsframleiðslu. Umræddar aðgerðir hafa þannig einar og sér að frátalinni almennri tekju- og útgjaldaþróun bætt frumjöfnuð ríkissjóðs um sem nemur tæplega 14% af landsframleiðslunni.

Á sama tímabili hefur ríkissjóður vissulega þurft að taka á sig auknar skuldbindingar og byrðar sem að stærstum hluta má rekja beint til efnahagshrunsins. Aðgerðir hafa því þurft að vega á móti þeim útgjöldum og líka að vinna á hallanum. Ef litið er á heildarafkomubata ríkissjóðs á þessum árum, að meðtöldum auknum skuldbindingum, hækkun útgjalda vegna launa og verðlags og gengisþróunar og almennrar þróunar á tekjum ríkissjóðs, hefur frumjöfnuður ríkissjóðs batnað frá því að vera neikvæður um 6,6% af landsframleiðslunni árið 2009 í að vera jákvæður um 3,3% af landsframleiðslunni árið 2013. Hann hefur því batnað um tæp 10% af landsframleiðslunni. Þar af hafa frumgjöld lækkað um 6,2% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu en frumtekjur á hinn bóginn hækkað um 3,7%.

Þessi árangur er afar mikilvægur, ekki síst vegna þess að hann náðist á sama tíma og við hlífðum velferðarkerfinu eins og kostur var. Við höfum staðið vörð um hag þeirra sem lökust hafa kjörin og samhliða höfum við náð að minnka atvinnuleysið úr meira en 9% á öðrum ársfjórðungi 2009 niður í 5% á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Sá árangur er ekki síst mikilvægur vegna þess að við erum, eins og menn hafa komið inn á í þessari umræðu, með allt of þunga vaxtabyrði. Þá vaxtabyrði verðum við að vinna niður, vaxtabyrði sem við ætlum okkur að gera allt til að ná að breyta í velferð og menntun. Við höfum allt annað að gera við þessa fjármuni, fjölmargt annað, en að greiða þá í vexti. Það er þess vegna sem ríkisstjórnin hefur tekið þessa hörðu skelli, hefur tekið jafnhart á eins og raun ber vitni, tekið erfiðar ákvarðanir um hækkanir á sköttum, ákvarðanir um erfiðan niðurskurð og aðhald í ríkisfjármálunum. Það er til þess að ná því markmiði að geta stöðvað skuldasöfnunina, byrjað að greiða niður skuldir og minnka þessar erfiðu og þungu vaxtagreiðslur.

Ég held að við öll hér inni séum sammála um að þetta sé eitt af okkar stóru markmiðum. Eins og ég sagði áðan getur verið að okkur greini á um leiðirnar, en þessi heildarárangur hlýtur að vera eitthvað sem við getum sammælst um að skipti máli.

Aðeins um atvinnustefnuna og hvernig hún birtist í fjárlögunum og tengdar aðgerðir. Ég þarf ekki að fjölyrða um það hér hversu mikilvæg aukin fjárfesting er og kannski ekki síst atvinnuvegafjárfestingin. Við þurfum að leggja grunn að verðmætasköpun og jákvæðum gjaldeyrisjöfnuði til frambúðar með því að auka fjárfestingu og sú áhersla er hin hliðin á efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og kannski ekki síður mikilvæg. Hið sögulega meðaltal í atvinnuvegafjárfestingu er í kringum 12% og við erum komin í þá stöðu núna að vera komin upp í 10,5%. Við erum með meiri atvinnuvegafjárfestingu núna en árið 2002 og við erum með meiri atvinnuvegafjárfestingu en allt tímabilið 1991–1995. Þannig að staðan er aldeilis að vænkast og hagur okkar á þessu sviði.

Í nýlegri skýrslu um vaxtarleið fyrir Ísland benti McKinsey ráðgjafarfyrirtækið á að við yrðum að leggja sérstaka rækt við það sem það kallaði alþjóðageirann, en ég hef frekar kosið að kalla hugvitsdrifinn útflutning þar sem það er sá hluti atvinnulífsins sem byggir ekki á staðbundinni sérstöðu á borð við auðlindir okkar heldur virkjun hugvits sem er í alþjóðlegri samkeppni. Vexti okkar mikilvægustu atvinnugreinar eru nefnilega náttúrulega takmörk sett svo að til frambúðar þurfum við í auknum mæli að reiða okkur á hugvitsdrifinn útflutning. Það er stefna ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og auðlindamálum að taka mið af þessu og í fjárlagafrumvarpinu sem verið er að afgreiða hér felast töluverð tíðindi í þessa veru. Við erum að gefa talsvert í á þessu sviði til að styðja við uppbyggingu á hugvitsdrifnum útflutningi.

Fyrsta rammalöggjöfin um ívilnanir vegna nýfjárfestinga var samþykkt á Alþingi sumarið 2010. Í kjölfarið hófst vinna við ítarlega úttekt á því hvernig staðið hefur verið að því að laða hingað til lands beina erlenda fjárfestingu. Út úr því kom stefnumörkun sem samþykkt var hér á Alþingi um beinar erlendar fjárfestingar. Þar er stefnan sett, samþykkt af Alþingi öllu, á aukna fjölbreytni og fjárfestingar sem flytja með sér nýja þekkingu og tækni hingað til lands.

Lög um endurgreiðslu skatta vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar hafa verið veruleg lyftistöng fyrir fjölmörg fyrirtæki á þessu sviði. Hvatning til fjármögnunar nýsköpunarfyrirtækja gegnum skattafslátt vegna hlutabréfakaupa er í vinnslu í fjármálaráðuneytinu eftir ákveðnar athugasemdir sem komu frá ESA við fyrri útfærslu. Við höfum þurft að fara vandlega yfir það mál og tíðinda er að vænta af því bráðlega.

Síðan er í frumvarpinu lagt til að við nýtum hluta af auðlindaarði þjóðarinnar til eflingar innviðum og uppbyggingu í atvinnulífinu. Með samþykkt þessa frumvarps setjum við í Tækniþróunarsjóð og Rannsóknarsjóð 750 millj. kr. og við verjum um 500 millj. kr. til markáætlana sem gefa fjölmörgum frumkvöðlum og nýsköpunarfyrirtækjum tækifæri til að þróa mjög verðmæta vöru og þjónustu. Við setjum talsverða fjármuni í uppbyggingu á græna hagkerfinu.

Menn hafa töluvert rætt um græna hagkerfið í þessari umræðu og ekki síst í 2. umr. sem gæluverkefni, virðulegi forseti, en ég legg áherslu á að græna hagkerfið fellur eins og flís við rass við hina verðmætu ímynd Íslands fyrir útflutningsgreinarnar og styður líka við þróun sem atvinnulífið sjálft hefur haft frumkvæði að. Við erum með sterka ímynd sem grænt og vænt land og þá ímynd verðum við að varðveita vegna þess að hún er útflutningsvara í sjálfu sér og styrkir allan útflutning héðan frá Íslandi. Þess vegna verð ég sorgmædd að heyra þegar tillögur og áherslur eins og þessar um að skapa ný störf í mikilvægum vaxandi greinum innan græna hagkerfisins sem skapa munu verðmæti og eru þegar byrjuð að skapa verðmæti hér á landi eru uppnefnd gæluverkefni. Ef það er gæluverkefni að vilja fjölga störfum og efla útflutning gengst ég fúslega við því.

Við horfum líka til fleiri þátta og til dæmis er stutt mjög dyggilega við kvikmyndageirann í frumvarpinu. Settar eru auknar 470 milljónir kr. í Kvikmyndasjóð. Það er líka verið að bæta hressilega í endurgreiðslur vegna kvikmyndaverkefna sem þegar hafa átt sér stað á þessu ári og er það vel. Það að við setjum nú jafnmikið í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og raun ber vitni eru góðar fréttir vegna þess að það segir okkur að veltan í þeim geira hér á landi hefur aukist umtalsvert með tilheyrandi fjölgun fjölbreyttra starfa og með tilheyrandi gjaldeyristekjum.

Þetta og fleiri þættir sem hér eru lagðir til í fjárlagafrumvarpinu undirbyggja þéttan vöxt hugvitsdrifinna útflutningsgreina sem þarf að eiga sér stað í náinni framtíð, en um leið og svigrúm gafst höfum við líka þar að auki, eins og ég kom inn á áðan, lækkað tryggingagjaldið um 0,1% til að draga úr launatengdum kostnaði fyrirtækja. Það skiptir líka máli.

Þá að varðstöðunni um velferðarkerfið og hag fjölskyldnanna í landinu. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2013 eru barnabætur hækkaðar um 2,5 milljarða kr. frá fyrra ári svo að alls munu tæplega 11 milljarðar kr. renna til barnafjölskyldna á næsta ári. Viðbótarbætur vegna barna yngri en 7 ára hækka um ríflega 60%, bætur vegna eldri barna hækka um 10%. Í frumvarpinu er líka lagt til að sérstök 30% hækkun viðmiðunarfjárhæðar vaxtabóta verði framlengd en að óbreyttu átti hún að falla niður á næsta ári. Útgjöld ríkissjóðs vegna þessa eru áætluð um 2 milljarðar kr. og í heild verður rúmlega 12 milljörðum kr. varið til þess að létta vaxtabyrði heimilanna í landinu. Átakið Allir vinna, sem tryggir heimilum 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarhúsnæði verður framlengt til ársloka 2013 og það er áætlað að endurgreiðslur til heimila vegna þessa verkefnis nemi um 1,5 milljörðum kr. á næsta ári. Þá eru jafnframt framlengdar heimildir til úttekta á séreignarsparnaði. Allar þessar áherslur á bættan hag barnafjölskyldna eru í takti við vinnu okkar að ríkisfjármálum allt þetta kjörtímabil.

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma inn á mál sem þingmenn hafa rætt í þessari umræðu, til dæmis um Landspítala og byggingu nýs háskólasjúkrahúss. Mér finnst menn snúa málum aðeins á hvolf í þeirri umræðu. Þessi mál hafa verið til skoðunar í þó nokkurn tíma á vegum bæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins og velferðarráðuneytisins og upphaflega var ætlunin að ríkið tæki á langtímaleigu spítalann eða húsnæðið að loknu útboði verkefnisins. En það hafa komið fram mjög veigamiklar efasemdir um hvort bygging hins nýja spítala við Hringbraut samkvæmt þessari leiguleið uppfylli nauðsynleg frumskilyrði og hvort unnt sé að fara þá leið sem mælt er fyrir í gildandi lögum um verkefnið, um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu spítalans.

Af þessu leiðir að jafnvel þó að fram kæmu tilboð í uppbyggingu og fjármögnun í samræmi við leiguleið eru mjög miklar líkur á því að bókhaldsreglur ríkisins mæli svo fyrir um að heildarskuldbinding ríkissjóðs færist eftir sem áður á bækur ríkisins. Þegar svo er verður að ætla að það sé eðlilegra og hagkvæmara að ríkið sjálft sjái um byggingu spítalans í hefðbundinni, opinberri framkvæmd. Það hefur því verið samþykkt í ríkisstjórn að undirbúið verði frumvarp um breytingar á lögum nr. 64/2010, sem geri spítalanum kleift að halda utan um og annast byggingu Nýs Landspítala sem fjármagnaður yrði sem opinber framkvæmd að mestu leyti. Frumvarpið er í vinnslu núna og mun líta dagsins ljós og verða lagt fram við upphaf þings eftir áramót.

Þá er líka verið að vinna að tillögum að því hvernig megi áfangaskipta og forgangsraða mikilvægustu verkþáttunum með það að markmiði að þeir muni nýtast spítalanum sem allra fyrst. Þá er náttúrlega eitt af því allra mikilvægasta í öllu þessu verkefni að Alþingi hafi algjörlega á hreinu fyrir framan sig hvaða áhrif þetta verkefni hefur á langtímaáætlun um ríkisfjármál. Það verður að púsla verkefninu þannig saman að allt gangi upp og áætlanir okkar um jöfnuð í ríkisfjármálunum gangi upp. Við þessa vinnu leggjum við áherslu á að halda jöfnuði í ríkisfjármálum auk þess sem auðvitað er tekið tillit til hagræðingar og hagrænna áhrifa framkvæmdanna.

Virðulegi forseti. Þessi leið er að mínu mati býsna hrein og bein og verður til ítarlegrar umræðu í þinginu á nýju ári. Verði þetta frumvarp samþykkt og öll skilyrði uppfyllt er mögulegt að auglýsa forval framkvæmdanna, með hefðbundnum fyrirvara um samþykki Alþingis. Ég tel að við séum að fara með þetta mál í skýran farveg, farveg sem við náum vonandi sátt um í þinginu og ríkt geti sátt um byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það er fullur hugur í þessari ríkisstjórn hvað það varðar að það geti ræst. Eftir því er kallað af spítalanum.

Ég hef bara rætt hér um hinar fjárhagslegu og praktísku hliðar en svo eru algjörlega óræddar hinar heilsu- og velferðarpólitísku hliðar málsins sem eru gríðarlega mikilvægar og snar þáttur í því hvers vegna ég tel jafnmikilvægt og raun ber vitni að í þessa byggingu verði ráðist. Verkefni okkar í fjármálaráðuneytinu ásamt velferðarráðuneytinu er að búa þannig um málið að Alþingi geti tekið um þetta ákvörðun á nýju ári áður en við höldum inn í kosningar.

Hér hefur líka verið töluvert rætt um Íbúðalánasjóð. Þegar við tilkynntum um þær aðgerðir sem við erum að ráðast í gagnvart honum var tekin sú ákvörðun að veita heimild til þess að setja 13 milljarða kr. eiginfjárframlag í Íbúðalánasjóð. Samhliða því er verið að ráðast í talsverðar, mikilvægar aðgerðir innan Íbúðalánasjóðs til að stemma stigu við þeirri þróun sem þar hefur átt sér stað og leitt okkur í þá stöðu sem nú er uppi. Þegar við sjáum hverju þær aðgerðir skila og þegar við sjáum í mars hvert uppgjörið er fyrir árið 2012 er hægt að taka afstöðu um framhaldið. Það er mjög erfitt að gera ráð fyrir afskriftum fyrir fram sem við vitum ekki hverjar verða. Við vitum að Íbúðalánasjóður er í býsna erfiðri stöðu. Við vitum líka að ríkið ætlar að standa þétt við bakið á Íbúðalánasjóði þannig að hann geti staðið við sínar skuldbindingar og sinnt hlutverki sínu á markaði. Það er stóra verkefnið. Með þessu verður því vel fylgst og ég á von á því að þær aðgerðir sem grípa á til muni skila þó nokkrum árangri og það er von mín að með þeim takist okkur að minnsta kosti að stöðva hina neikvæðu þróun sem átt hefur sér stað innan sjóðsins.

Aðeins um vinnubrögðin við fjárlagagerðina. Ég er sammála ýmsu sem komið hefur fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og get tekið undir margt, það er líka margt sem ég er ósammála en ég á svo fáar mínútur eftir að ég ætla ekki að fara í það. Ég ætla frekar að tala um það sem við erum sammála um, svona til tilbreytingar.

Ég held að mikið af gagnrýni hv. þingmanns sé svarað í nýju frumvarpi um opinber fjármál. Það er að mínu mati, virðulegi forseti, gríðarlega mikilvægt að okkur takist að klára það verkefni í vetur. Við höfum lýst því yfir að við viljum gjarnan vinna það mál vel og vandlega með fjárlaganefnd þannig að okkur takist að setja ríkisfjármálin og undirbúning þeirra í þann búning að vel megi við una. Ég held að við séum öll sammála um að ýmislegt megi betur fara. Við höfum unnið að því síðustu missiri í fjármálaráðuneytinu að smíða frumvarp sem getur sett ríkisfjármálin og alla vinnu í tengslum við þau í betri búning en er í dag. Vonandi næst góð sátt í þinginu um þær tillögur.

Að lokum vil ég nefna þá áfanga sem hafa náðst við að vinna úr afleiðingum hruns fjármálakerfisins. Við sjáum dæmi um endurnýjunarþrótt atvinnulífsins í nýjum greinum sem hafa verið að vaxa og dafna. Verkefni okkar er að skapa skilyrði fyrir atvinnulífið. Eins og ég nefndi áðan, að þótt fjárfesting hafi eðlilega dregist mjög saman frá þeim toppi sem varð á bóluárunum í aðdraganda hruns og liggi enn undir meðaltali síðustu 30 ára, eru teiknin jákvæð. Atvinnuvegafjárfestingin hefur tekið einna mest við sér og það eru mjög jákvæðar fréttir, hún er eins og ég nefndi áðan um 10,5% sem er ekki fjarri 12% langtímameðaltalinu, ekki síst þegar haft er í huga að þar inni er hinn óvenjulegi 25% toppur áranna 2006 og 2007 þar sem inni voru fjárfestingar í eignarhaldsfélögum og fleira bólutengt.

Þegar samsetning atvinnuvega og atvinnuvegafjárfestingar er skoðuð nánar sést að liðurinn fjárfesting í iðnaðarvélum og tækjum hefur tekið hvað mest við sér á síðustu tveimur árum. Það segir okkur bara að atvinnulífið er byrjað í töluverðum mæli að fjárfesta í framleiðslugetu, sem er afar jákvætt. Eins og ég nefndi áðan er mikilvægt að hafa í huga að atvinnuvegafjárfesting núna er hærri en hún var 2002 og líka 1991–1995. Við erum því að ná ágætisvexti þótt auðvitað megi betur gera, en þróunin er í rétta átt.

Næstu verkefni okkar er að fylgja þessum árangri eftir svo að við náum markmiðum efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar um jöfnuð og afgang í ríkisfjármálum á næstu árum, aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu, fjölgun starfa og bættan hag heimilanna.

Virðulegi forseti. Ég vil kalla þessi fjárlög sóknarfjárlög. Það er ekki vegna þess að við séum komin algjörlega á hina beinu braut og allt sé komið í himnalag heldur vegna þess að við erum komin úr þeirri stöðu að þurfa að vera í harðri vörn fyrir ríkissjóð yfir í þá stöðu að geta sett fjármuni aftur inn í spítalana, aftur inn í skólana, sett fjármuni til barnafjölskyldna. Við erum komin í þá stöðu núna að geta sett fjármuni í mikilvæg verkefni sem munu stuðla að fjölgun starfa og auknum vexti í mikilvægum atvinnugreinum. Þetta er okkur að takast núna í þessum fjárlögum, sem betur fer. Þess vegna vil ég kalla þetta sóknarfjárlög af því að við erum farin að geta sótt fram, við erum farin úr harðri varnarstöðu og getum sett fjármuni í mikilvæg fjárfestingarverkefni sem munu skila sér í tekjum til ríkissjóðs.

Það eru fjölmörg verkefni sem við eigum eftir. Það er alveg rétt sem hv. þingmenn hafa nefnt og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi áðan að það er ekki hægt að segja að hér sé allt í himnalagi, staðan er áfram viðkvæm, við þurfum að fara varlega. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að við erum komin úr 216 milljarða mínus niður í rúmlega 3 milljarða mínus. Það, virðulegi forseti, er árangur sem skiptir okkur öll máli og býr svo sannarlega í haginn fyrir komandi ár en áfram þurfum við að fara varlega. Við þurfum að standa saman um það stóra verkefni að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs þannig að við getum farið að greiða niður skuldir, náð niður vaxtakostnaði og breytt þungum vaxtagreiðslum í velferð og menntun. Það er örugglega sameiginlegt verkefni okkar allra í þinginu og þó að við séum nú að ganga til kosninga og sama hvernig ríkisstjórn verður samsett eftir næstu kosningar held ég að við munum áfram ná saman um það meginmarkmið. Það er algjört meginmarkmið og að því er stefnt með þessum fjárlögum og þau er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð.