141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[20:40]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi nota tækifærið fyrst til að þakka hv. þingmanni og nefndinni allri fyrir fínt samstarf í þessu máli, eins og þingmaðurinn nefndi. Þetta var brýnt réttlætismál sem þurfti að bregðast við og ég tek eindregið undir að það er ánægjulegt þegar löggjafinn getur leyst úr því, sem hann svo sannarlega getur gert með öllum þeim sveigjanleika sem hann hefur til að bregðast við ýmsum málum eins og þessu hér.

Ég vildi líka taka undir það sem hv. þingmaður sagði um kennaramenntunina. Hún var menntamálaráðherra þegar þessi mikla breyting var leidd hér í gegnum þingið og það var þverpólitískur stuðningur við hana, ef ég man rétt. Ég held að það hafi verið samþykkt samhljóða af þinginu á þeim tíma að breyta tilhögun kennaranáms og lengja í fimm ár o.s.frv., með mjög háleitum og glæsilegum markmiðum sem ég efast ekkert um að muni ganga eftir og koma fram eftir því sem tíminn líður. Auðvitað hefur komið upp umræða um hvort það hafi verið farið of bratt í þetta og aðsókn að náminu minnki o.s.frv., en það er örugglega ekki ástæða fyrir því í sjálfu sér. Það kom upp umræða núna fyrr í haust um hvort það ætti að áfangaskipta náminu þannig að fólk fengi ákveðin starfsréttindi eftir þrjú ár og svo fullnustu eftir fimm ár. Því var ágætlega tekið bæði af sveitarfélögunum, fagstéttinni og öðrum og hæstv. menntamálaráðherra tók undir að það kæmi vel til greina.

Mig langaði að fá fram viðbrögð hv. þingmanns, sem þekkir afskaplega vel til menntamálanna almennt eins og ég nefndi áðan, við því hvort vænlegt sé að taka upp einhverja skýrari áfangaskiptingu út frá ýmsum rökum sem þingmaðurinn tæpti líka á sjálfur hérna áðan.