141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[20:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er afar mikilvægt mál og ég vil draga fram að hæstv. ráðherra hefur allan og fullan skilning á þessu. Ég var á fundi með hæstv. ráðherra, mjög skemmtilegum fundi sjálfstæðra skóla, þar sem hún dró mjög vel fram að ráðuneytið væri með þetta í ferli. Að starfshópar væru búnir að skila niðurstöðum í málinu þannig að menn eru mjög meðvitaðir að vinna að því að halda áfram að efla kennaramenntun, móta þetta nýja fyrirkomulag en taka líka á þeim vandkvæðum sem upp hafa komið við að samþykkja þessi lög. Það er bara sjálfsagt að líta til raunveruleikans eins og hann er í dag.

Um leið megum við ekki gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem við erum að gera til kennaramenntunarinnar og ég veit að fleiri eru mér sammála um það. Það er ekki að ástæðulausu sem við litum, allt Alþingi samhljóða á sínum tíma, m.a. til Finnlands þegar við ákváðum að breyta lögum um kennaramenntunina. Þetta er ferli sem tekur lengri tíma en eitt, tvö ár að móta og byggja upp. Ég veit að ef ráðuneytið er með heildaryfirsýn yfir þetta núna og áttar sig á við hvað er að etja að þá mun þetta mál enda vel. Sérstaklega ef við förum í þetta aukna samtal sem ég minntist á í ræðu minni, á milli þeirra aðila sem kennslustofnanirnar helst varðar, háskólanna, sveitarstjórnarstigsins, ríkisvaldsins, þar með talið löggjafarvaldsins, og heimilanna sjálfra í landinu.

Síðan er það náttúrlega líka hitt að sveitarstjórnarstigið sem og ríkisvaldið, með rekstri framhaldsskólanna, verður á endanum að viðurkenna það sem hluta inn í starfsréttindin sem slík hvað það þýðir að lengja kennaranámið. Þetta voru menn meðvitaðir um á sínum tíma en menn reyndu að sjá heildarhagsmunina. Heildarhagsmunirnir okkar eru þeir að við höfum hér öfluga og ánægða kennara sem skila sínu starfi þannig að (Forseti hringir.) að við fáum öflugri nemendur sem munu standa sig í alþjóðlegri samkeppni.