141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vegabréf.

479. mál
[20:45]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vegabréf, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að gildistími almennra vegabréfa fullorðinna verði færður til þess horfs sem var við gildistöku laganna frá 1999 og gildistími verði færður úr fimm árum í tíu ár, sem ég held að sé ákaflega ánægjulegt, það sparar bæði hinu opinbera og almenningi að þurfa að endurnýja vegabréf á fimm ára fresti. Gildistími almenns vegabréfs verður þá tíu ár frá útgáfudegi en fimm ár fyrir börn yngri en 18 ára.

Með breytingu á lögum um vegabréf var gildistími vegabréfa færður í fimm ár óháð aldri. Rökin fyrir þeirri breytingu á þeim tíma voru upptaka lífkenna við útgáfu vegabréfa hér á landi. Sökum þess að örflögur sem geyma tiltekin lífkenni manna í vegabréfum hafa reynst endingarbetri en talið var að yrði fyrir nokkrum árum var ákveðið að leggja það til við Alþingi að færa gildistímann til fyrra horfs.

Nefndin vekur athygli á misritun í 2. málslið 2. mgr. athugasemda við frumvarpið. Þar hefði átt að standa að gildistími vegabréfs var tíu ár frá útgáfudegi fyrir þá sem eldri voru en 18 ára en fimm ár fyrir börn yngri en 18 ára.

Í frumvarpinu er lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 2013. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram ábendingar, sem við töldum nauðsynlegt að bregðast við og væru réttmætar, um að nauðsynlegt væri að gera breytingar á grunnskilríkjum vegabréfaútgáfunnar sem krefjist nákvæmrar skjala- og tæknivinnnu hérlendis og hjá þjónustuaðila erlendis. Það er álit nefndarinnar að tryggja verði öryggi við þá framkvæmd og einnig verði að tryggja að nægilegur tími sé gefinn til að kynna erlendum landamærastöðvum breyttan gildistíma. Við leggjum því til að gildistökunni verði frestað til 1. mars 2013 og frumvarpið samþykkt með þeirri breytingu.

Nefndin vann málið hratt og vel eftir að það kom sem frumvarp ofan úr innanríkisráðuneyti og þakka ég nefndarmönnum mikið vel fyrir það.

Hv. þingmenn Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þráinn Bertelsson og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta rita auk mín hv. þingmenn Skúli Helgason, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Birgitta Jónsdóttir.