141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[21:02]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni og einnig hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðurnar sem voru upplýsandi um ferlið í málinu. Hv. síðasti ræðumaður kom inn á tillögur og hugmyndir manna um millidómstig sem hefur verið til umræðu um allnokkurn tíma. Ég tek undir þau orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að nauðsynlegt sé að ýta því máli áfram, skoða það kirfilega og komast að einhverri niðurstöðu hvernig útfæra megi það með skynsamlegum hætti í þeim tilgangi að gera dómstólana skilvirkari til framtíðar. Fyrir liggur að ekki sér fyrir endann á þeirri vinnu þannig að það frumvarp sem liggur fyrir, um breytingu á lögum um dómstóla, er augljóslega til þess að mæta einhverri þörf sem haldið er fram í athugasemdum með frumvarpinu að sé til staðar hjá dómstólunum og ekki verði mætt að sinni með millidómstigi. Ég tel það virðingarvert og verðskulda nokkra skoðun og umræðu.

Ég geri hins vegar nokkrar athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að forseta Hæstaréttar verði veitt heimild til að skipa varadómara í málum þótt sæti einskis hæstaréttardómara sé autt. Þetta er nýmæli sem ég geld nokkurn varhuga við. Fram kom í máli framsögumanns og kemur líka fram í athugasemdum við frumvarpið, og er meginregla í íslensku réttarfari líka, að fordæmisgildi dóma er töluvert og íslenskt réttarfar byggir að miklu leyti á fordæmum Hæstaréttar. Íslenskur réttur byggir á fordæmum Hæstaréttar. Ég tel að menn þurfi að hafa það í huga.

Nú er sú afleita staða uppi að með skyndilegri, töluverðri fjölgun dómara við Hæstarétt hefur fordæmisgildi dóma Hæstaréttar undanfarin ár farið minnkandi. Það er bara þannig og erfitt er að ráða í niðurstöður dóma í mjög mikilvægum málum, fjölskipuðum málum, vegna þess að inn hafa verið að koma nýir dómarar og í málum, jafnvel af sambærilegum toga, hafa ekki setið sömu dómarar við réttinn. Þetta er afleit staða. Það er afleit staða fyrir íslenskt réttarfar að geta ekki reitt sig algerlega á fordæmisgildi dóma Hæstaréttar. Sú heimild til handa forseta Hæstaréttar sem lögð er til með 5. gr. og er tímabundin til loka ársins 2016 dregur ekki úr því vandamáli, sem ég vil meina að sé, hvað varðar fordæmisgildi dóma Hæstaréttar heldur gæti það þvert á móti gefið og gefur tilefni til þess að óttast að enn minna sé hægt að reiða sig á fordæmisgildi dóma Hæstaréttar.

Nú kemur það fram og er svolítið mikið lagt upp úr því í athugasemdum við frumvarpið að verið er líka að veita heimild til þess að skipa varadómara sem hafa náð 70 ára aldri. Framsögumaður frumvarpsins ræddi það svolítið á þann hátt, að mér fannst, eins og það væri ætlunin að þeir varadómarar kæmu einungis úr röðum fyrrverandi hæstaréttardómara. Ef það er ætlunin teldi ég æskilegt að það kæmi hreinlega beint fram í frumvarpinu. En ég efast nú um að menn hugsi málið svo þröngt þannig að ég ætla að menn hugsi sér að hægt verði að beita 5. gr. með víðtækari hætti.

Hvað nauðsynina varðar á því ákvæði þá finnst mér það ekki nægjanlega rökstutt í athugasemdum við frumvarpið hver nauðsynin er. Vísað er til starfsálags við réttinn en það liggur fyrir að menn sjá fram úr því í náinni framtíð. Það hefði kannski verið skynsamlegt að hafa í athugasemdum einhverjar frekari útlistanir á nauðsyn þeirrar tillögu vegna þess að hér er verið að veita forseta Hæstaréttar gríðarlega mikið vald sem ekki er gert ráð fyrir í lögum um dómstóla og í rauninni ekki heldur í þeirri meginreglu um gagnsætt og hlutlægt dómsvald, að forseti Hæstaréttar geti valið úr mál og valið að skipa dómara, eða utanaðkomandi, í sæti dómara.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma því að á þessum tímapunkti að ég geri mikinn fyrirvara við 5. gr. frumvarpsins.