141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[21:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Andersen fyrir að benda nákvæmlega á þessi atriði í 5. gr. og draga fram annað sjónarhorn á greinina. Ég vil að mörgu leyti taka undir málflutning hennar varðandi 5. gr. Ég held að við verðum að taka tillit til allra fyrirvara, sérstaklega varðandi fordæmisgildi sem er að mínu mati afar gilt sjónarmið. Ég vil þó taka fram að þegar um varadómara er að ræða í Hæstarétti, sem snertir vanhæfi, leyfi eða forföll hæstaréttardómara, þá tel ég vera ríkari fordæmi þar um en varðandi varadómara þar sem ekki er um slíkt að ræða heldur leiða annir eða eitthvað þvíumlíkt til þess að ráðherra skipi varadómara. Ég held að það verði að skýra þetta ákvæði afar þröngt ef það verður samþykkt. Við í Sjálfstæðisflokknum munum ekki greiða atkvæði með þessu ákvæði.

Það er ljóst að hv. þingmaður hefur komið með sjónarmið sem hljóta að fá menn til þess að staldra við. Það var það sem ég var að segja í ræðu minni í tengslum við þá sem eru kallaðir inn sem varadómarar, hvort sem er á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laganna eða 46. gr. laganna sem vísað er til í 5. gr. þessa frumvarps. Það þarf að endurskoða fyrirkomulagið varðandi varadómara. Menn þurfa að skoða nákvæmlega það sem hv. þingmaður benti á, fordæmisgildi og hvaða áhrif það hefur á réttinn að við erum í ríkara mæli að sjá skipan varadómara í þessum tilteknu málum.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og hef í sjálfu sér ekki spurningu aðra en þá hvort hún taki undir með mér að menn þurfi að endurskoða fyrirkomulagið, ekki síst í allsherjar- og menntamálanefnd, hvernig skipan hæstaréttardómara er háttað í dag, reynsluna á þessum skamma tíma og ekki síður hvernig þróun varadómara hefur verið (Forseti hringir.) í réttinum.