141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[21:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Í framhald af millidómstiginu. Við skulum vera raunsæ, ég er almennt séð í eðli mínu bjartsýn kona en ég efast samt um að þingsályktunartillaga mín varðandi millidómstigið nái fram að ganga, ekki nema stjórnarþingmenn — ég ætla ekki að segja detti á hausinn en þeir sjái ljósið í þeirri tillögu og knýi hæstv. innanríkisráðherra til að koma fram með frumvarp. Þess ber þó að geta að hann segist vera með frumvarp í smíðum. Það verður hins vegar ekki komið fram á vorþingi, það mun koma fram á nýju þingi.

Ég fullyrði að hv. þm. Sigríður Andersen verður ekki varaþingmaður á næsta þingi heldur fullgildur þingmaður og vonandi 4. þm. Reykjavíkur suður. Ég spyr hana því hvort hún muni ekki fylgja því eftir að berjast fyrir millidómstiginu, bæði á sviði einkamála og sakamála, og síðan hvort hún muni ekki líka beita sér fyrir því að menn skoði fyrirkomulagið varðandi skipan hæstaréttardómara og hugsanlega héraðsdómara. Það kann að vera að eitt og annað í núgildandi fyrirkomulagi hafi verið til bóta en greinilega ekki allt. Það er ákveðin og mjög eðlileg gagnrýni uppi núna um það hvernig skipan dómara hefur verið fram til þessa samkvæmt nýja fyrirkomulaginu.

Það er þessi tvíþætta spurning: Mun hv. þingmaður ræða þessi mál á nýju þingi og taka þau lengra?