141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[21:18]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það byrjar ekki vel fyrir varaþingmann að gefa kosningaloforð svo löngu áður en kosningabaráttan sjálf byrjar, en ég get tekið undir (Gripið fram í.) orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að þetta þurfi að skoða. Ég er svo sannarlega tilbúin til þess að skoða þetta og ef af verður að menn komi sér saman um það. Ég get ekki sagt að ég sé tilbúin að ýta málinu úr vör því að menn hafa nú þegar ýtt því úr vör, ekki síst hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, en ég er tilbúin að halda þeirri vinnu áfram og ekki síst að tryggja að útfærsla þessa máls, ef til millidómstigs kemur, verði til bóta, verði skilvirk. Uppi eru hugmyndir um að útfæra þetta mál með ýmsum hætti, jafnvel þannig að við endum með þrjú dómstig. Ég tel mikilvægt að þetta mál, nái það lendingu, verði til bóta og einföldunar og aukinnar skilvirkni. Það er mest um vert. Ég mun ekki liggja á liði mínu til að málið megi ná fram að ganga.